LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Að eldast

ÞMS
Spurningaskrá 2014-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Spurningaskrá 120, að eldast 

Leiðbeiningar

Það er sagt að allir vilji verða langlífir en samt er enginn sem vill verða gamall. Flestir ná því að lifa lengi en meðalaldur Íslendinga hefur hækkað umtalsvert á undanförnum árum og áratugum. Eldra fólki hefur farið mjög fjölgandi og á eftir að verða enn stærri hópur þegar fram í sækir og láta meira að sér kveða í þjóðlífinu. Þeir sem nú eru um miðjan aldur og þaðan af eldri eru þar að auki mun betur á sig komnir líkamlega en afar þeirra og ömmur. Bættri heilsu fylgja jafnframt betri lífsgæði og meiri virkni. Raunverulegur aldur er þannig ekki alltaf hinn sami og fólk upplifir sig á. Það má því segja að það sé orðið skilgreiningaratriði hvenær hver og einn telur sig vera farinn að eldast.

 

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna almennum upplýsingum um hvernig það er að eldast, daglegt líf, hreyfingu, lífsstíl og samskipti en einnig virðingu og sjálfstæði. Mikið vantar upp á þekkingu okkar um hugmyndir fólks, tilfinningar og upplifun af því að verða eldri. Nú óskum við eftir þinni aðstoð við að bæta úr þessu.

 

Þú getur svarað hverri spurningu fyrir sig, en þér er líka velkomið að skrifa svarið í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef þér finnst það betra. Öllum framlögum verður tekið fagnandi þótt svör fáist ekki við öllum atriðum. Frásagnir og fróðleikur mega gjarnan fá að fljóta með.

 

Ef þú vinnur svar þitt í tölvu væri æskilegt að fá það á rafrænu formi. Þú getur skrifað svörin inn í autt skjal og sent það, en ef þú kýst að svara heldur hverri spurningu fyrir sig getur þú sótt rafræna útgáfu af spurningaskránni á vef Þjóðminjasafnsins á slóðinni: www.thjodminjasafn.is. Þá er nauðsynlegt aðvista spurningaskrána í þinni tölvu áður en byrjað er að svara. Vinsamlegast sendu rafræn svör á netfangið agust@thjodminjasafn.is, en á pappír til Þjóðminjasafns Íslands, þjóðháttasafn, Tjarnarvöllum 11, 221 Hafnarfirði.

 

Hægt er að svara hvort heldur sem er með nafni eða nafnlaust. Hvort sem þú velur að gera er litið svo á að þú hafir samþykkt eftirfarandi yfirlýsingu með því að svara:

 

Undirritaður/undirrituð afhendir hér með Þjóðminjasafni Íslands svör við spurningaskrá 120 til varðveislu. Ég lýsi því jafnframt yfir að mér er kunnugt um og veiti samþykki mitt til þess að svörin tilheyri gagnasafni Þjóðminjasafnsins og að safnið nýti þau í þágu rannsókna og minjavörslunnar í landinu samkvæmt lögum. Þetta þýðir að Þjóðminjasafni Íslands er heimilt að skrá svörin í stafrænan gagnagrunn og gera þau aðgengileg almenningi, fræðimönnum, skólum, ein og sér eða í gagnagrunni, um tölvunet eða með öðrum aðferðum sem síðar kunna að tíðkast. Einnig að gögnin séu afrituð í þágu almennings og til rannsókna.

 

Þeir sem það kjósa geta svaraðnafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

 

Frekari upplýsingar eru veittar í síma 530 2294 en einnig má senda tölvupóst á agust@thjodminjasafn.is.

 

Á forsíðu er mynd af gamalli sænski veggmynd sem sýnir mannsævina sem tröppugang.


Virðing og áhrif

Hvað er gott og hvað er slæmt við það að eldast? Eru t.d. fólgin í því einhver forréttindi?

 

Finnst þér að þjóðfélagið líti með virðingu til eldra fólks eða hefur þú það á tilfinningunni að fólk í þessum hópi sé afgangsstærð í samfélaginu? Hvaða máli skipta t.d. tekjur/eignir og hvort menn búi í eigin húsnæði eða á dvalarheimili?

 

Fá eldri borgarar tækifæri til sýna sérstöðu sína með einhverjum hætti í opinberri umræðu? Ef svo er, hvernig birtast þau tækifæri?

 

Myndir þú vilja að eldri borgarar yrðu skipulagðari hópur sem léti meira að sér kveða í samfélaginu, til dæmis í pólitík eða í sínu nánasta umhverfi? Ræddu þessi mál út frá reynslu þinni og skoðunum. Hvernig gætir þú lagt til málanna í samfélagsumræðunni ef til þín væri leitað?

 

Getur tæknin verið hindrun fyrir eldra fólk? Hvað er jákvætt og hvað neikvætt við tæknina?

 

Upplifun og tilfinningalíf

Raunverulegur aldur er ekki alltaf sá hinn sami og fólk upplifir sig á. Hve gamall finnst þér að þú sért?

 

Ef þú lítur svo á að þú tilheyrir hópi eldra fólks, hvenær telurðu að þú hafir komist í þann hóp? Var það þegar þú náðir til dæmis eftirlaunaaldri eða við einhvern annan ákveðin atburð eða tímamót í lífi þínu?

 

Leið þér best eða verst á einhverju sérstöku aldursskeiði fremur en öðru og ef svo er hvers vegna?

 

Upplifir þú þig öðruvísi í dag en þegar þú varst yngri? Á hvaða hátt?

 

Hvaða hugmyndir hafðir þú um það að verða gamall þegar þú varst á barnsaldri, ung(ur) eða miðaldra?

 

Er munur á því hvernig konur og karlar upplifa það að eldast? Hvað munur?

 

Er einhver munur á því hvernig komið er fram við eldri konur og karla? Hvaða munur?

 

Hefur þú myndað sterk tilfinningatengsl við aðra(r) persónu(r) á efri árum, t.d. orðið ástfangin(n)? Getur þú sagt frá þessu, ef svo er? Hvaða augum er slíkur samdráttur litinn bæði í þinni fjölskyldu og af umhverfinu?

 

Treystir þú þér til að ræða kynlíf og þína reynslu af því? Ef svo er, hvernig hefur reynsla þín og viðhorf til kynlífs breyst í gegnum árin? Verður þú var eða vör við að samferðamenn þínir og jafnaldrar stundi kynlíf á efri árum?

 

Hvaða tilfinningar eru tengdar því að eldast (sátt, sorg, gleði, missir, stolt, t.d.)?

 

Hugsar þú um endalok lífsins, sjúkdóma og dauða? Getur þú lýst þessu?

Hvaða áhrif hafa vina- eða ástvinamissir haft á líf þitt? Treystir þú þér til að ræða þau vandamál sem koma upp við slíkar aðstæður?

 

Heilsa og hversdagslíf

Hvað er góð og/eða slæm heilsa í þínum huga?

 

Hefur heilsa þín breyst með hækkandi aldri og ef svo er hvaða áhrif hefur það haft á líf þitt? Er til dæmis eitthvað sem þú átt erfitt með að framkvæma eða getur ekki lengur gert? Hvernig leysir þú það (heimaþjónusta, hjálpartæki t.d.)?

 

Hvaða máli skiptir kostnaður á lyfjum og læknisþjónustu fyrir þig? Sækir þú t.d. hiklaust í þá þjónustu sem er í boði til að bæta heilsuna?

 

Að halda sér í formi

Stundar þú einhverja hreyfingu þér til heilsubótar og hve oft í viku (gönguferðir, sund, leikfimi t.d.)? Ef svo er, hvers vegna hefur þú valið þessa tegund hreyfingar? Hvað annað gerir þú til þess að þér líði vel? Hefur það breyst í gegnum árin?

 

Finnst þér að líkamleg og andleg heilsa haldist í hendur? Hvernig þá?

 

Klæðnaður og útlit

Hugsar þú mikið/lítið um það hvernig þú lítur út? Getur þú sagt frá þessu?

 

Finnst þér fatasmekkur þinn hafa breyst eftir því sem þú eldist? Ef svo er, hvernig þá? Eru til dæmis einhver föt sem þykja óviðeigandi eftir að maður hefur náð ákveðnum aldri? Hvers konar föt?

 

Lætur þú snyrta hárið öðruvísi með hækkandi aldri? Hvernig, ef svo er? Er einhver hársnyrting sem þykir ekki við hæfi fyrir eldra fólk?

 

Á hvaða aldri varst þú þegar þú byrjaðir að hugsa um hrukkur, skalla og grátt hár? Átti það jafnt við um sjálfan þig og aðra? Hefur þú látið lita á þér hárið eftir miðjan aldur eða farið í einhvers konar fegrunaraðgerðir?

 

Samskipti

Hefur þú glímt við einmanaleika? Ef svo er, hvaða leiðir hefur eldra fólk til að draga úr honum? Kannast þú t.d. við „eldri hjálpa eldri“, sjálfboðaliða Rauða krossins eða s.k. nágrannatengsl? Hefur þú notfært þér eitthvað af þessari þjónustu og í hverju er hún einkum fólgin? Hvað finnst þér um hana?

 

Getur þú sagt frá samskiptum við fjölskyldu þína og vini (heimsóknir, símtöl, tengsl við barnabörn t.d.)? Finnst þér að fjölskylda þín sé nægilega meðvituð um líðan þína, til dæmis um þá andlegu?

 

Áhugamál og félagslíf

Átt þú þér einhver áhugamál? Hvaða? Hvernig sinnir þú þeim, ef svo er? Hafa áhugamál þín breyst með hækkandi aldri?

 

Hvað gerir þú þér helst til dægrastyttingar (vinnur í höndunum, lest, hlustar á útvarp, ferð í bíó/leikhús, fylgist með íþróttum t.d.)?

Nýtir þú þér rafrænan samskiptamáta í tölvum? Ertu til dæmis á facebook (fésbók) eða með tölvunetfang? Hvers virði er þér þetta, ef svo er?

 

Tekur þú þátt í félagsstarfi? Ef svo er, hvaða og hve oft?

 

Starfslok 

Hefur þú gert eitthvað til að undirbúa það að hætta á vinnumarkaði? Hvað þá? Hefur þú t.d. farið á starfslokanámskeið? Hvernig hefur það nýst þér?

 

Hugsar/hugsaðir þú um hvað þú ætlar/ætlaðir að gera eftir að þú hættir að vinna? Viltu segja frá þessu?

 

Komu starfslok þér í uppnám eða fagnaðir þú því að hætta að vinna? Hefðir þú kosið að halda áfram í þínu starfi?

 

Hvernig er hægt að nýta mannauð eldri borgara og virkni á efri árum, að þínu mati?

 

Lífsstíll

Hefur staða eða lífsstíll eldri kvenna og karla breyst frá því sem áður var að þínu mati? Ef svo er, hvernig þá? Er einhver munur á milli kynjanna hvað þetta snertir?

 

Er einhver hegðun sem þykir ekki við hæfi hjá eldra fólki? Hvaða hegðun?

 

Hafa matarvenjur þínar breyst með hækkandi aldri? Getur þú nefnt dæmi um einhverjar breytingar? Fylgist þú með nýjungum í matargerð?

 

Hugsar þú mikið um að borða holla og góða fæðu? Eldar þú sjálfur eða sjálf? Ef þú gerir það ekki, hefur þú þá val um hvers konar fæðu þú neytir?

 

Hvað mundir þú segja að sé oftast á borðum hjá þér?

 

Neytir þú áfengis eða tóbaks? Við hvaða aðstæður gerir þú það og hversu oft?

 

Sjálfstæði og fjármál

Finnst þér að það sé munur á fjárhagslegu sjálfstæði eldra fólks fyrr og nú? Á hvern hátt?

 

Er einhver sem hjálpar þér við fjármálin? Hver, ef svo er, og í hverju hefur sú hjálp verið fólgin (framtal/skattaskýrsla t.d.)?

 

Nýtur þú fjárhagsaðstoðar barna þinna eða annarra ættingja? Getur þú aðstoðað þína ættingja fjáhagslega í þeirra daglega amstri? Ef svo er, í hvaða formi er sú aðstoð?

 

Sumt eldra fólk býr við skertan sjálfsákvörðunarrétt, eins og t.d. við að fara á hjúkrunarheimili, hvað finnst þér um þetta?

 

Er búið vel að öldruðum í þessu landi? Hvað mætti bæta að þínu viti?

 


/