LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Aðstæður kynjanna

ÞMS
Spurningaskrá 2015-2
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Þjóðminjasafn Íslands, spurningaskrá 122

Aðstæður kynjanna

Leiðbeiningar

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna heimildum um aðstæður kynjanna hér á landi á síðari hluta 20. aldar fram til dagsins í dag. Ráðist var í þetta verkefni í tilefni af að á þessu ári eru liðin 100 ár frá því að konur öðluðust kosningarétt.

 Spurningaskránni er skipt í fjóra kafla og er henni ætlað að höfða jafnt til karla sem kvenna. Við leitum fyrst og fremst eftir þínum eigin minningum þótt annar fróðleikur megi gjarnan fá að fljóta með. 

 Sumar spurningarnar eiga hugsanlega ekki við þína persónulegu reynslu og getur þú valið út þau atriði sem þú vilt svara. Svörin mega gjarnan vera löng og ítarleg en við tökum auðvitað fagnandi við öllu efni óháð lengd.

 Það skiptir ekki máli hvort þú skrifar frjálsa frásögn eða fylgir hverri spurningu fyrir sig. Þú getur skrifað svörin inn í nýtt skjal eða í viðhengið en þá þarf að vista það áður í þinni tölvu. Sendu frásögn þína á netfangið agust@thjodminjasafn.is ef að þú svarar í tölvupósti.

 Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt án nafns. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og búsetu (sveitarfélag). Allir heimildarmenn eru beðnir um að gefa upp við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð. 

 Með því að svara er litið svo á að þú hafir samþykkt að svör þín tilheyri gagnasafni Þjóðminjasafns Íslands og að safninu sé heimilt að skrá svörin í stafrænan gagnagrunn og gera þau aðgengileg almenningi, fræðimönnum og öðrum, um tölvunet eða með öðrum hætti. Einnig að frásögnin sé afrituð í þágu almennings og til rannsókna.

 Frekari upplýsingar eru veittar í síma 530 2294 en einnig má senda tölvupóst á agust@thjodminjasafn.is


Nám og störf

Hvaða væntingar hafðir þú um menntun? Hvernig uppfylltir þú þær? Hvaða námi hefur þú lokið? Hvaða þættir höfðu áhrif á val þitt á námi (t.d. hvatning, almenn viðhorf, félagslegar aðstæður, námsframboð)?

 Hvaða framtíðardrauma hafðir þú um atvinnu? Samræmdist ævistarfið upphaflegum vonum þínum? Ef ekki, hvað var þess valdandi?

 Hvernig voru samskipti kynjanna á þeim stöðum sem þú hefur unnið á? Tókst þú eftir kynferðislegu áreiti? Ef svo er, lýstu því og hvernig var talað um það.

 Valdir þú þér atvinnu sem samkvæmt venju „tilheyrði“ hinu kyninu? Hvaða starf og hvers vegna? Hvaða áhrif hafði kynferði þitt á þau verkefni sem þér voru falin? Hvernig var þér tekið (t.d. jákvæð/neikvæð viðhorf, samskipti við samstarfsfólk)?

  

Heimili og uppeldi

Hvernig var verkaskiptingu háttað á þínu heimili (hreingerning, matseld, fjármál, innkaup, viðgerðir, garður, bíll t.d.)? Af hverju var verkaskiptingin með þessum hætti?

 Ef þú átt barn eða börn, hvernig skiptuð þið foreldrar með ykkur verkum í umönnun barnsins (fyrsta árið, á leikskólaaldri, á skólaaldri)? Hvernig var verkaskiptingin ef að þið áttuð fleira en eitt barn?

 Ef fjölskyldan þín var stjúpfjölskylda (þ.e. ef annar eða báðir aðilar sem stofnuðu til fjölskyldunnar áttu barn eða börn með öðrum), hvernig var samskiptum við stjúpbörn háttað, hversu mikið dvöldu þau á heimilinu, og hvernig hafði nærvera þeirra áhrif á heimilislífið?

 Ef þú átt barnabörn, á hvaða hátt tekur þú þátt í lífi þeirra? Hvernig er samskiptum ykkar háttað, hafið þið t.d. samband í gegnum síma eða tölvu? Segðu frá hvort eða á hvaða hátt þú aðstoðar við uppeldi á barnabörnunum.

 Telur þú að það sé munur á hlutverkum afa og ömmu? Ef svo er, á hvaða hátt?

 

 Barneignir og fjölskyldustærð

Hvaða þættir höfðu áhrif á hvort og þá hvenær þú eignaðist barn eða ekki? Fannst þú fyrir væntingum hvað þetta snerti? Ef svo er, hvaða væntingum og hvað fannst þér um þær?

 Ef þú valdir að eignast ekki barn eða gast það ekki, hvernig upplifðir þú viðhorf fólks til þess? Hvaða máli skipti hvort þú varst einhleyp(ur) eða í sambúð? En hvort þú sért karl eða kona?

 Ef þú átt barn, hvaða áhrif hafðir þú á ákvarðanatökur í sambandi við fæðinguna og það ferli sem henni tengdist (t.d. fæðingarumhverfi, lyfjagjöf, fæðingarstelling)?

 Var faðirinn viðstaddur fæðingu barnsins? Hvaða áhrif hafði sú reynsla á hlutverk þitt/hans í umönnun og uppeldi barnsins?

 Hefur þú notað getnaðarvarnir og þá hverjar? Hvað eða hver hefur haft mest áhrif á ákvörðun þína um að nota getnaðarvarnir og val á þeim? Við hverja hefur þú rætt um getnaðarvarnir og af hverju? Hver finnst þér bera ábyrgð á notkun og vali á getnaðarvörnum?

 

 Þátttaka í félagsstörfum og viðhorf til jafnréttisbaráttu

Hver voru viðhorf þín til jafnréttisbaráttu og skiplagðra kvennahreyfinga á borð við Rauðsokkurnar, Kvennalistann, Úurnar o.fl.? Tókst þú einhverntíma með virkum hætti þátt í starfi slíkra hreyfinga, og þá hverra og hvenær?

 Hver telur þú að hafi verið helsti ávinningur kvennahreyfinganna? Hvað fannst þér hafa farið miður í baráttumálum þeirra?

 Tókst þú þátt í kvennafrídögunum 1975 eða 2005? Hvers vegna/hvers vegna ekki?

 Hver voru viðbrögð þín við framboði og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur til forseta Íslands?

 Varst þú í kvenfélagi eða kynjaskiptum félagsskap? Telur þú að jafnréttisbaráttan hafi haft áhrif á starfsemi þíns félags? Ef svo er, hvernig?

 Sinntir þú öðrum félagsstörfum (t.d. kórar, kvenfélög, íþróttafélög, leikfélög, stjórnmálaflokkar). Ef svo er, hverskonar félagsstörfum tókstu þátt í?

 Á hvaða vettvangi finnst þér þú hafa náð að blómstra mest (í starfi, á heimili, í félagsstörfum o.s.frv.)? Hvar og hvernig nýttust hæfileikar þínir best?

 

Takk fyrir þátttökuna!


/