LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Gæludýr

ÞMS
Spurningaskrá 2016-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

GÆLUDÝR

Þjóðminjasafn Íslands

Spurningaskrá 124

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna upplýsingum um hvernig það er að vera með gæludýr og kanna tengsl manna við þau. Fremur lítið hefur verið um rannsóknir á upplifun Íslendinga af gæludýrahaldi og er því óskað eftir aðstoð almennings til að bæta úr því. Gæludýr eru snar þáttur af lífi margra Íslendinga en dýrum á heimilum hefur farið ört fjölgandi á undanförnum áratugum svo jafnvel er hægt að tala um sprengingu. Hundahald í þéttbýli var lengi bannað hér á landi, eins og kunnugt er, en kom samt ekki í veg fyrir það uns hundahald var að lokum samþykkt. Spurningaskráin er liður í þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands og hafa flest svörin verið slegin inn í rafrænan gagnagrunn sem hægt er að skoða á vefslóðinni sarpur.is. Nöfn heimildarmanna birtast ekki.

Myndin er af íslenskum hundi (Þjóðminjasafn Íslands). 


Spurningaskrá 124, gæludýr

  

Skilgreining

Hvað er gæludýr í þínum huga? Er einhver munur á því hvernig menn skilgreina gæludýr í dag og áður fyrr? Hvaða munur ef svo er? 

Mitt gæludýr

Átt þú eða hefur þú átt gæludýr? Hvernig eða hvaða tegund? Hefur þú átt fleira en eitt gæludýr eða nokkur í einu? Ef svo er hve mörg og voru þau af sömu tegund eða mismunandi? Hvað kostar að eiga gæludýr? 

Af hverju gæludýr?

Hvers vegna fékkst þú þér gæludýr (félagsskapur, útivist, vegna barna t.d.)? Hvað réð vali þínu (tegund, útlit, kyn, stærð, kynbætur t.d.)? Hvar og hvernig fékkst þú dýrið (frá vinum, í gæludýrabúð t.d.)? Undirbjóstu þig á einhvern hátt áður en þú tókst við dýrunu? Hvernig ef svo er? 

Upplifun og reynsla

Hvernig er að vera með gæludýr? Hvað er jákvætt og hvað neikvætt? Passar einhver dýrið fyrir þig þegar þú getur það ekki og ef svo er hver? Passar þú gæludýr fyrir aðra? Hverja?   

Hefur þú upplifað einhver viðbrögð frá umhverfinu við því að vera með gæludýr? Hvernig ef svo er? Hafa orðið breytingar á viðhorfi fólks til gærudýra að þínu mati? Hvernig og hvenær? Hvaða skoðun hefur þú á að gæludýr séu geld? 

Umönnun

Hvernig aðlagar þú heimili þitt að þörfum gæludýrsins? Hver sér um að gefa því að borða, viðra það og þrífa búrið eða klósettkassann? Á dýrið ákveðinn stað eða svæði á heimilinu eða má það vera hvar sem er ef um þannig skepnu er að ræða (uppi í rúmi t.d.)? 

Nafngift

Hvað heita þau gæludýr sem þú hefur átt? Hvað réð vali þínu á nafni/nöfnum? Geta heimilisdýr haft gælunöfn? Nefndu dæmi ef svo er. Finnst þér að nöfn á gæludýrum hafi verið að breytast? Hvernig ef svo er? 

Veikindi og missir

Hefur þú upplifað að gæludýr þitt hafi orðið fyrir slysi, horfið eða dáið? Viltu segja frá þeirri reynslu? Hvað finnst þér að eigi að veita veiku eða slösuðu gæludýri mikla aðhlynningu (út frá fjárhagslegu-, tilfinningalegu eða praktísku sjónarmiði t.d.)? Hefur þú jarðað gæludýr? Hvar og hvernig ef svo er?