LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Híbýli, húsbúnaður og hversdagslíf

ÞMS
Spurningaskrá 2012-3
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Kæri heimildarmaður.

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að afla upplýsinga um upplifun fólks af uppvaxtarheimili sínu, hvernig það var samansett, hvaða munir voru fólki kærir og eftirminnilegir og hvort eitthvað af þeim hafi fylgt þeim inn í samtímann. Fyrst og fremst er verið að spyrja um þína eigin reynslu, þótt einnig sé áhugavert að fá upplýsingar um það sem þú hefur heyrt hjá öðrum. Ýmis fróðleikur sem tengist efninu en ekki er spurt um sérstaklega mætti gjarnan fá að fljóta með. Ekkert er ómerkilegt í þessu samhengi og öllum framlögum verður tekið fagnandi.

Spurningaskráin var samin í tengslum við rannsóknarverkefni sem próf. Sigurður Gylfi Magnússon vann að á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Hann rannsakaði samspil þeirra muna sem fólk hafði í kringum sig á heimilum sínum á 19. og 20. öld sem og hversdags- og tilfinningarlíf þess.

Leiðbeiningar

Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að afla upplýsinga um upplifun fólks af uppvaxtarheimili sínu, hvernig það var samansett, hvaða munir voru fólki kærir og eftirminnilegir og hvort eitthvað af þeim hafi fylgt þeim inn í samtímann.

 

Ekki er nauðsynlegt að svara spurningunum í réttri röð og má því frásögnin vera í samfelldu máli og algerlega frjáls, ef að þér finnst það þægilegra. Allar upplýsingar eru mikils virði jafnvel þótt svör fáist ekki við öllum atriðum. Ýmis fróðleikur sem tengist efninu en ekki er spurt um sérstaklega mætti gjarnan fá að fljóta með.

 

Ef að þú vinnur svar þitt í tölvu væri æskilegt að fá það í tölvupósti, t.d. sem word skjal. Sækja má spurningaskrána á vef Þjóðminjasafnsins, http://www.thjodminjasafn.is. Athugaðu að nauðsynlegt er að vista skrána í þinni tölvu áður en byrjað er að svara.

 

Einnig er mögulegt að nota svo kallaða netsvörun og er það nýmæli. Þá fara svör þín beint inn í gagnagrunn Þjóðminjasafnsins, Sarp, þar sem allt þjóðháttaefni safnsins er vistað. Mælum við með þessari aðferð svo framarlega sem heimildarmenn treysta sér til þess. Ef að þú vilt nota netsvörunina ert þú beðin(n) um að senda tölvupóst á netfangið agust@thjodminjasafn.is og verða þér þá sendar nánari upplýsingar um hæl.

 

Kjósir þú að skrifa á pappír getur þú sent svar þitt í meðfylgjandi umslagi sem setja má ófrímerkt í póst. Það á einnig við ef að þú hefur teiknað grunnmynd af æskuheimili þínu (sjá nánar um þetta atriði síðar). Hægt er að fá sendan meiri pappír ef á þarf að halda.

 

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 530 2294. Ennfremur má senda tölvupóst á agust@thjodminjasafn.is.

 

Vinsamlegast láttu meðfylgjandi ”titilblað” fylgja undirritað með svörum þínum.

 

Með bestu kveðjum og gangi þér vel að svara
Ágúst Ólafur Georgsson
Þjóðminjasafni Íslands
Tjarnarvöllum 11
221 Hafnarfirði
Sími 5302294
Netfang agust@thjodminjasafn.is

 

Mynd á forsíðu sýnir stofu á íslensku heimili um 1970-1980. Þjóðminjasafn Íslands.

 

Persónuupplýsingar

Nafn, fæðingarár, sveitarfélag, starf, menntun/í hvaða námi, kyn, þjóðerni.

Við hvaða staði og tímabil eru svörin miðuð?

 

Þeir sem það kjósa geta svaraðnafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá upplýsingar um kyn, aldur, starf og við hvaða staði og tímabil svörin eru miðuð.

 

Lýsing á uppvaxtarheimili

 Þú ert beðin(n) um að lýsa æsku- og uppvaxtarheimili þínu sem þú miðar svör þín við hér á eftir. Reyndu að vera eins nákvæm(ur) og þú teystir þér til. Telja þarf upp öll herbergi og lýsa afstöðu þeirra til hvors annars. Gagnlegt gæti verið að teikna upp grunnmynd til að koma þessum upplýsingum til skila, en það er frjáls valkostur. Þar þarf þá að koma fram herbergjaskipan, hvar gluggar, dyr, stigagangar, svalir og innbyggðir skápar voru staðsettir svo einhver dæmi séu nefnd.

 

Þá ert þú beðin(n) um að greina frá öllum þeim hlutum sem prýddu heimilið, fyrir hvert herbergi fyrir sig. Ef þú hefur teiknað grunnmynd er upplagt að setja þá á sinn stað á teikninguna. Það má til dæmis gera með því að merkja inn tölustafi á teikninguna og gefa síðan eins nákvæma lýsingu á hlutnum og kostur er undir sama tölustaf á öðru blaði (sjá sýnishorn af svona teikningu og útfærslu hennar sem fylgir skránni). Mikilvægt er að gera tilraun til að rifja upp eins nákvæmlega og kostur er allt sem tilheyrði heimilinu í formi húsbúnaðar (húsgögn, tæki, listaverk og svo framvegis) og lýsa því síðan á sem gleggstan hátt. Þar mætti koma fram gerð hlutarins og lögun, hvenær hann hafi borist inn á heimilið og af hvað tilefni, hvernig hann var notaður, hvers virði hann hafi verið fyrir heimilið og heimildarmann og loks hver urðu afdrif hans. Allar upplýsingar um hvern hlut sem þér kemur til hugar eru með öðrum orðum vel þegnar. Þar má til dæmis taka fram hvort húsmunirnir séu til komnir vegna erfða, gjafa, heimasmíðaðir, eftir þekkta hönnuði, keyptir nýir eða notaðir og hvort þeir séu varðveittir enn í dag. Þá má mjög gjarnan taka fram hver hafi keypt/útvegað húsmunina – hvernig þeir rötuðu inn á heimilið.

 

Þegar þessari upprifjun á æskuheimilinu er lokið sem gæti útheimt ákveðna „rannsókn“ af hálfu heimildarmanns, til dæmis með því að kanna ljósmyndir sem til eru af heimilinu (en afrit af þeim mega fylgja svörunum), þá er óskað eftir því að eftirfarandi spurningum sé svarað:

 

Spurningar um húsmuni og aðstæður á uppvaxtarárum

 

Lýstu í stórum dráttum ytra útliti hússins sem þú bjóst í sem barn og unglingur (þar til þú yfirgafst foreldrahús) og nánasta umhverfi þess. Ef um marga dvalarstaði er að ræða væri gott að fá yfirsýn yfir fjölda þeirra – hvar þeir voru staðsettir á landinu og almennt um aðstæður sem þeir buðu upp á – en velja síðan einn og gera honum eins góð skil og mögulegt er.

 

Var íbúðin/húsið í eigu fjölskyldu þinnar eða voru þið leigendur? Hve margar íbúðir voru í húsinu og hversu margar fjölskyldur bjuggu í því? Hvað voru íbúar hússins margir og var mikill samgangur á milli þeirra?

 

Skipti það þig máli að foreldrar þínir áttu/leigðu húsið/íbúðina – kom það á einhvern hátt fram í daglegu lífi þínu og þá á hvern hátt? Varstu stolt(ur) af híbýlum þínum eða fannst þér þau vera þér og þínum til minnkunar?

 

Hvernig var viðhaldi á húsinu háttað? Unnu heimilismenn að því sjálfir eða voru aðkeyptir kraftar fengnir í verkin?

 

Hversu stórt var húsnæðið sem fjölskyldan hafði til umráða? Hversu mörg voru herbergin og hvað sváfu margir í hverju herbergi?

 

Hvaða hlutverki gegndi hver og ein vistarvera og hvað nefndust þær í daglegu tali heimilismanna? Í hvaða herbergjum var til dæmis sofið og hvernig var stofan nýtt? Reyndu að lýsa margvíslegri notkun herbergjanna – stofur, svefnherbergi, eldhús, bað.

 

Hvar svaf hver og einn heimilsmanna? Hversu margir sváfu í hverju rúmi? Svaf fólk í nærfötum, náttfötum eða nakið?

 

Sváfu börn í sama rúmi eða sama herbergi og foreldrar sínir og hversu lengi var það gert?

 

Var heimildarmaður meðvitaður um að hann ætti sér eitthvað sérstakt rými í íbúðinni/húsinu sem engum öðrum var ætlað? Ef svo er, hvaða rými var það og af hverju markaðist það?

 

Hvernig var salernisaðstöðu háttað á heimili þínu? Var vatnssalerni til staðar á þínu heimili eða kamrar? Var salernispappír notaður eða var gripið til annarra ráða? Voru koppar brúkaðir á heimilinu? Ræddu almennt um hreinlæti á heimili þínu og á öðrum stöðum þar sem þú þekktir til. Hversu oft fór fólk til dæmis í bað?

 

Hvernig var eldhúsaðstöðu háttað? Var borðað í eldhúsi eða í borðstofu? Hversu oft var eldað á dag og hver sá um eldamennskuna? Var matur unninn á heimilinu (slátur- og sultugerð og svo framvegis)? Eldhúsáhöld, voru þau ríkuleg eða komst fólk af með lítið? Var farið oft út að borða? Var gestum oft/sjaldan boðið í mat?

 

Hvernig var upphitun híbýla háttað á heimili þínu? Voru öll herbergi hituð upp eða var upphitun skipt niður eftir mikilvægi herbergja? Lýstu sem nákvæmast. Spöruðu menn við sig hita og ef svo er hvenær ársins eða sólarhringsins?

 

Hvernig var lýsingu háttað á heimilinu? Var hún jöfn í öllum herbergjum eða sótti fólk frekar í ákveðin herbergi þar sem ljósið var „betra” en annars staðar í híbýlunum? Reyndu að lýsa lömpum og vegg- og loftljósum sem allra best.

 

Urðu miklar breytingar á ljósabúnaði á þeim tíma sem þú varst að alast upp og hvernig umgekkst fólk lýsingu heimilisins – var hún spöruð eða var lögð áhersla á að það væri næg birta fyrir alla?

 

Hvaða heimilistæki voru á heimili þínu á uppvaxtarárunum og hvenær komu þau inn á það? Hvar voru tækin staðsett? Hvaða áhrif höfðu þau á daglegt líf?

 

Neysluvatn – hvernig var það nýtt í híbýlum? Var það sparað eða þótti sjálfsagt að njóta þess í ríkum mæli? Þurfti að sækja vatn í brunna eða læki eða nutu híbýlin rennandi vatns?

 

Á síðari tímum hafa hreinlætiskröfur aukist mjög í íslensku þjóðfélagi. Hversu oft í mánuði eða ári telur þú að híbýli manna hafi verið þrifin á þínum æskuárum? Hver var ábyrgur fyrir þrifunum og hvaða áhöld og hreinlætisvörur voru notuð við verkið? Gott væri ef gerður væri greinarmunur á einstökum störfum.

 

Hvernig leið heimildarmanni á heimili sínu? Var of þröngt eða einhverjar aðstæður sem þjónuðu illa þörfum hans? Voru ákveðnir staðir sem heimildarmanni leið sérstaklega vel á?

 

Hver var munurinn á uppvaxtarheimili þínu og heimili annarra barna sem þú umgekkst á sínum tíma?

 

Átti fjölskylda þín einkabíl? Hvaða samgöngutæki vor mest notuð í kringum þig frá degi til dags?

 

Átti fjölskyldan sumarbústað eða hafði aðgang að þannig húsi sem var nýtt í frístundum? Ef svo er lýstu því sem nákvæmast og hvernig það var nýtt.

 

Fór fjölskyldan í ferðalög innanlands á sumrin, á skíði á veturna og á sólarströnd á sumrin? Hvernig var fríunum yfirleitt varið?

 

Dagur í lífi heimilismanns

 

Þess er óskað að þú gerir tilraun til að setja saman lýsingu á „ímynduðum“ degi frá æsku- og unglingsárum þínum þar sem þú gerir grein fyrir starfsemi fjölskyldunar frá því hún vaknaði og þar til hún tók á sig náðir. Þú mátt gera þetta eftir þínu lagi, en gott væri ef reynt væri að fylgja eftir daglegri iðju þinni á þessum árum og svo að nefna hvað aðrir heimilismenn höfðust oftast við yfir daginn. Þarna má gera grein fyrir skólastarfi, tómstundum, fjölskyldulífi og atvinnu foreldra eða forráðamanna. Þessi liður er lagður í hendur heimildamanna og þeir beðnir um að leysa úr honum eftir bestu vitund og getu í samfelldu máli.

 

/