LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Sumardagurinn fyrsti

ÞMS
Spurningaskrá 1969-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Þjóðháttaskráning Þjóðminjasafnsins
19. Spurningaskrá
Apríl 1969.

Sumardagurinn fyrsti
Inngangur
Spurningaskrá um sumardaginn fyrsta og siði og venjur, sem fylgt hafa sumarkomu, er hin fyrsta, sem þjóðháttadeildin hefur saman tekið um einstaka hátíðisdaga þjóðarinnar. Um þetta efni er að sönnu völ ýmissa prentaðra heimilda, en fjarri fer því, að þar komi öll kurl til grafar. Ljóst er t.d., að sumri hefur verið fagnað á mjög mismunandi vegu í landsfjórðungum, og könnun á því hefur aldrei verið gerð. Efnið er enn nokkuð nærtækt Íslendingum, m.a. vegna þess, að sumardagurinn fyrsti heldur enn velli sem þjóðlegur hátíðisdagur.

Dreymt fyrir sumri
Hvernig dreymdi menn fyrir sumri? Var þar við eitthvað ákveðið að miða í draumaráðningum?

Sumarboðar
Tóku menn mark á einhverju í háttum dýra fyrir sumarkomu og sumrinu yfirleitt? Mörkuðu menn veður komandi sumars með einhverjum hætti af komutíma farfugla (sumarfugla) eða af einhverju í háttum fugla? Mörkuðu menn sumarkomu eða veður af einhverju í háttum skordýra eða jafnvel orma (flugur, köngulær o.s.frv.). Var mark tekið á nokkru í sambandi við gróður jarðar, er rætt var um sumarkomu og sumarveður?

Sumarmálahret
Var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum? Hvað var það nefnt (sumarmálahret, hrafnahret t.d.)? Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið?

Sumartunglið
Kannast menn við orðtakið að svara í sumartunglið eða láta svara sér í sumartunglið? Hvað felst í því? Var almennt að þessu gætt og mark á því tekið? Kunna menn sögur um það?

Sumargjafir
Bjuggu menn sig undir sumardaginn fyrsta með því að kaupa sumargjafir? Voru farnar sérstakar ferðir í kaupstað til að kaupa sumargjafir? Hvað var þá helst keypt, og að hvaða leyti var það mismunandi eftir því, hvort gjöfin var ætluð karli eða konu? Hvað var helst unnið á heimilinu til sumargjafa. Var farið leynilega með þennan undirbúning, svo gjafirnar kæmu að óvörum? Hverjir gáfu hverjum? T.d. Húsbændur hjúum, fullorðnir börnum og/eða öfugt? Eða allir öllum?

Veitingar
Þekktist það, að matur væri tekinn frá í sláturtíð að hausti og geymdur í sérstöku íláti til sumardagsins fyrsta? Nefndist sá forði eitthvað? Lýsið þessu. Hvaða matföng og drykkjarföng (heimafengin, aðkeypt) voru annars ætluð til að fagna sumri? Voru bakaðar sérstakar kökur fyrir sumardaginn fyrsta (sumardagskökur)? Lýsið þeim, efni og gerð. Voru þær t.d. mótaðar á útskornu brauðmóti eða skreytttar á annan hátt?
   Voru aðrir réttir sérstaklega gerðir fyrir sumardaginn fyrsta og við hann kenndir? Hvað hét sumardagsglaðningurinn einu nafni (sumarboðið t.d.)?

Sumardagsnóttin fyrsta
Var mark tekið á veðri fyrstu sumarnótt? Var það kallað, að frysi saman sumar og vetur, ef frost var fyrstu sumarnótt? Var það almennt álitinn góður fyrirboði? Hvernig? Var þetta sannreynt með einhverjum hætti (sett út vatn í skel eða trogi t.d.)? Kunna menn að segja frá, hvenær sá siður hafi lagst niður, hafi hann annars þekkst? Var nokkurt mark tekið á því, ef rigndi fyrstu sumarnótt? Þekktist, að húsfreyjur eða aðrir gengju berfættir kringum bæinn til að finna, hvort frost væri í rót?

Sumardagurinn fyrsti
Var snemma risið úr rekkju á sumardaginn fyrsta? Var því e.t.v. trúað, að árvekni manna sumarlangt ætti að fara eftir fótaferð fyrsta sumardag? Hvað nefndist það þá, er komið var undir bert loft að morgni (að fagna sumri, heilsa sumri t.d.)? Hver fór fyrstur á fætur (húsbóndi, húsmóðir)? Hvernig voru kveðjur milli heimilisfólks að morgni fyrsta sumardags? Var heimilisfólki e.t.v. færður sumarglaðningur í rúmið fyrsta sumardag? Á hvaða tíma dagsins var sumardagsskammturinn annars gefinn til matar? Hvenær voru sumargjafir afhentar? Voru þær afhentar með nokkrum ákveðnum formála? Hvernig þakkaðar? Bjuggust menn í betri föt eða spariföt fyrsta sumardag? Hvernig var heimilisstörfum háttað þennan dag? Voru öll störf þá látin niður falla, nema gegningar og mjaltir t.d., eða þekktist það e.t.v., að þá væri byrjað á vorstörfum, ef veður leyfði (ávinnslu túna)? Þekktist, að gemlingar væru brennimerktir á þessum degi?
   Var farið í leiki á sumardaginn fyrsta? Hverjir tóku þátt í þeim (börn, fullorðnir)? Lýsið leikjum. Riðu menn út sér til sekmmtunar? Þekktust samkomur fyrir heilar sveitir á sumardaginn fyrsta?
   Var lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta? Á hvaða tíma dagsins? Voru þá e.t.v. líka sungnir sumarsálmar?
   Skiptust nágrannar á heimsóknum eða gjöfum á sumardaginn fyrsta?
   Fékk húsfreyja sumardagshlut bónda síns, ef eitthvað aflaðist úr sjó á sumardaginn fyrsta? Hvernig varði hún honum (til gjafa, eigin þarfa)? Kunna menn sagnir um þennan sið og þá, hvenær hann hafi lagst niður? Fór húsfreyjan með bónda sínum í fjárhúsin á sumardaginn fyrsta til að líta yfir fénaðinn?
   Ræddi fólk um það á sumardaginn fyrsta, hvernig sumarið legðist í það? Tók það e.t.v. mark á einhverju sérstöku í því sambandi (draumar fyrstu sumarnótt, veður fyrsta sumardag, önnur áhrif)?
   Var dagurinn helgaður nokkrum sérstökum öðrum fremur, t.d. ungum stúlkum eða ungum piltum. Hvenær hófst það? Tíðkuðust önnur nöfn á deginum?

Fyrstu sumardagar
Gáfu fyrstu sumardagar (sunnudagurinn og mánudagurinn fyrstu í sumri t.d.) einhverja bendingu með sumarveður? Lýsið því.

Nýir hættir
Lýsið þeim breytingum sem orðið hafa á viðhorfi manna til sumardagsins fyrsta á þessari öld. Lýsið nýjum sumardagsvenjum og segið frá, hvenær gamlar voru aflagðar. Hafa einhverjir ákveðnir aðilar átt þátt í þeirri þróun (kennarar, skólar, dagblöð, útvarp t.d.)? Er hægt að miða breytingar við ákveðinn tíma (ár, áratug)?

 

/