LeitaVinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Samkynhneigð á Íslandi

ÞMS
Spurningaskrá 2013-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

INNGANGUR


Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að safna upplýsingum um samkynhneigð á Íslandi og er henni ætlað að höfða jafnt til gagnkynhneigðra sem samkynhneigðra einstaklinga. Sumar spurninganna eiga hugsanlega ekki við þína reynslu en þá svarar þú aðeins eftir því sem þú telur við eiga. Fyrst og fremst er verið að spyrja um þínar eigin minningar, þótt einnig sé áhugavert að fá upplýsingar um það sem þú hefur heyrt hjá öðrum.

 

Þú getur svarað hverri spurningu fyrir sig eða í samfelldu máli og algerlega frjálst, ef að þér finnst það betra. Allar upplýsingar eru mikils virði jafnvel þótt svör fáist ekki við öllum atriðum. Ýmis fróðleikur sem tengist efninu en ekki er spurt um sérstaklega mætti gjarnan fá að fljóta með.

 

Ef að þú vinnur svar þitt í tölvu væri æskilegt að fá það á rafrænu formi, t.d. sem word skjal. Þú getur skrifað inn í rafræna útgáfu af spurningaskránni, ef að þú kýst svo, en nauðsynlegt er aðvista hana í þinni tölvu áður en byrjað er að svara. Þú getur einnig haft svörin í sérstöku skjali. Vinsamlegast sendið svörin á agust@thjodminjasafn.is.

 

Með því að svara er litið svo á að þú hafi samþykkt eftirfarandi yfirlýsingu:

 

Undirritaður/undirrituð afhendir hér með Þjóðminjasafni Íslands svör við spurningaskrá 118 til varðveislu. Ég lýsi því jafnframt yfir að mér er kunnugt um og veiti samþykki mitt til þess að svörin tilheyri gagnasafni Þjóðminjasafnsins og að safnið nýti þau í þágu rannsókna og minjavörslunnar í landinu samkvæmt lögum. Þetta þýðir að Þjóðminjasafni Íslands er heimilt að skrá svörin í stafrænan gagnagrunn og gera þau aðgengileg almenningi, fræðimönnum, skólum, ein og sér eða í gagnagrunni, um tölvunet eða með öðrum aðferðum sem síðar kunna að tíðkast. Einnig að gögnin séu afrituð í þágu almennings og til rannsókna.

 

Þeir sem það kjósa geta svarað nafnlaust og verða svör þeirra þá varðveitt ópersónugreinanleg. Mikilvægt er þó að fá lágmarks upplýsingar um heimildarmenn og ert þú vinsamlegast beðin(n) um láta þær fylgja með svari þínu. Um eftirtalin atriði er að ræða: Kyn, aldur, starf, við hvaða staði og tímabil er svarið miðað.

 

Frekari upplýsingar eru veittar í síma 530 2294 en einnig má senda tölvupóst á agust@thjodminjasafn.is.

 

 SPURNINGARNAR


 Sú var tíðin að samkynhneigð var ekki rædd manna á meðal og því síður var litið svo á að samkynhneigt fólk ætti sér tilverurétt, enda voru mök tveggja einstaklinga af sama kyni refsiverð skv. lögum allt til ársins 1940. Smám saman breyttust viðhorf manna, einkum þó eftir 1980, og hommar og lesbíur njóta nú sama fjölskyldu- og hjúskaparréttar og aðrir íslenskir þegnar.

 

 Viðhorf til samkynhneigðra

Hvenær manst þú eftir að hafa fyrst heyrt talað um samkynhneigð (óháð þinni eigin kynhneigð)? Hvernig var t.d. talað um samkynhneigt fólk á fimmta áratug 20. aldar eða á áttunda áratugnum miðað við það sem síðar varð? Hefur þú tök á samanburði frá áratug til áratugar?

 

Hvernig minnist þú breytinga á viðhorfum til samkynhneigðra hér á landi? Hvað hefur einkum orsakað þessar samfélagslegu viðhorfsbreytingar að þínu mati?

 

Voru einhverjir atburðir eða tiltekin tímabil í sögunni þýðingarmeiri en önnur, að þínu mati, þegar þú íhugar þær breytingar sem orðið hafa? Hvernig tengist það réttindabaráttu samkynhneigðra? Hvað hafði tíska, tónlist, bókmenntir og skemmtanalíf að segja? Hvaða máli skiptu erlend áhrif?

 

Finnst þér að það sé eða hafi verið munur á talsmáta og viðhorfum fólks til samkynhneigðra eftir búsetu, t.d. í dreifbýli og þéttbýli? Hvaða munur? 

 

Ýmis orð hafa verið notuð um samkynhneigða gegnum tíðina. Kynvilla, sódómía og sódómskur voru þekkt orð fyrr á tíð, en orðið samkynhneigð er aðeins rúmlega þrjátíu ára gamalt í íslensku máli. Hvaða orðum manst þú eftir að hafa heyrt um samkynhneigt fólk á ólíkum tímum?

 

Hefur þú vitneskju um eða persónuleg kynni af samkynhneigðu fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á fjandsamlegum viðhorfum, mætt ofbeldi og niðurlægingu, innan fjölskyldu sinnar eða utan, eða af eigin reynslu? Þekkir þú til fólks sem hefur hrökklast úr heimabyggð sinni eða úr landi eða svipt sig lífi af þeim sökum? Kanntu að rekja örlög þessa fólks í stuttu máli?

 

Konur og karlar

Voru/eru hommar og lesbíur litin sömu augum eða var/er munur þar á? Hvaða munur? Hefur þetta breyst og ef svo er, hvernig og af hverju?

 

Hvað manstu um þá hugmynd að hommar væru kvenlegir upp til hópa og lesbíur óvenju karlmannlegar? Skipti öðruvísi klæðaburður, ímyndaður eða raunverulegur, hugsanlega einhverju máli í þessu sambandi? Hvernig þá?

 

Þótti mönnum stafa meiri ógn af öðru kyninu en hinu þegar samkynhneigt fólk átti í hlut? Hvoru kyninu? Var umtal um annað kynið t.d. meira gildishlaðið en umtal um hitt kynið?

 

Manstu eftir einhverju öðru sem sagt var um samkynhneigðar konur og karla á ýmsum tímum ævi þinnar?

 

Löggjöf

Hvernig telur þú að löggjöf hafi haft áhrif á líf samkynhneigðra og viðhorf til þeirra síðar? Hvað vó þyngst að þínu mati?

 

Hvaða augum lítur þú þessar lagasetningar, varstu hlyntur þeim eða ósammála á sínum tíma? Höfðu einhverjar af þessum lagasetningum áhrif á þitt persónulega líf, líf fjölskyldu þinnar eða vina? Á hvern hátt?

 

Fjölmiðlar

Hvenær manstu fyrst eftir því að vikið hafi verið að kynhneigð í fjölmiðlum og þá með hvaða hætti? Kanntu að lýsa viðbrögðum við því? Manstu fjölmiðlaefni, viðtöl, greinar eða þætti sem þú telur að hafi skipt sköpum í þessu sambandi?

 

Hvernig myndir þú bera saman fjölmiðlaumfjöllun fyrri tíma og það sem nú er boðið upp á þegar vikið er að samkynhneigð? Kanntu að nefna dæmi? Hvað er líkt, hvað er ólíkt?

 

Hver finnst þér vera þáttur fjölmiðla í skoðanamótun þegar samkynhneigðir eiga í hlut?

 

Manstu eftir því hvenær þú sást í fyrsta sinn kvikmynd á hvíta tjaldinu eða í sjónvarpi þar sem vikið var að samkynhneigð? Kanntu að lýsa áhrifum þess á þig og þitt nánasta umhverfi?

 

Hvaða vægi telur þú að fjölmiðlar hafi haft þegar meta skal aukið umburðarlyndi í garð samkynhneigðra? Hafa fjölmiðlarnir styrkt félagslega stöðu þeirra og mannvirðingu eða veikt hana?

 

Hvaða áhrif hafa þekktir einstaklingar sem greint hafa frá samkynhneigð sinni í fjölmiðlum haft á viðhorf þín til hinsegin fólks? Minnist þú einhverra tiltekinna einstaklinga í þessu sambandi sem þú telur hafa haft mikil áhrif?

 

Hvaða augum lítur þú veraldarvefinn (netið) og áhrif hans á stöðu og réttindabaráttu samkynhneigðra?

 

Félög og hreyfingar

Á Íslandi hafa orðið til allmörg félagasamtök eða hreyfingar samkynhneigðra og annars hinsegin fólks á síðustu áratugum. Þeirra elst og áhrifamest eru Samtökin ´78, stofnuð árið 1978, en fleiri hreyfingar hafa haft áhrif á breytt viðhorf og sýnileika samkynhneigðra, t.d. Q – Félag hinsegin stúdenta, FAS – Félag aðstandenda samkynhneigðra, Hinsegin dagar í Reykjavík – Gay Pride og Íþróttafélagið Styrmir svo fáein dæmi séu nefnd.

 

Hvaða augum lítur þú þessar hreyfingar og hvaða þýðingu telurðu að þær hafi haft fyrir breytt viðhorf gegnum tíðina? Þekkir þú til starfsemi þeirra og stefnumála? Áttu minningar um samskipti þín eða einhverra þér nákominna við þessi félög?

 

Hefur þú sótt hátíð Hinsegin daga í Reykjavík og hvaða augum lítur þú slíkt framtak?

 

Minningar um samkynhneigða einstaklinga

Hvaða kynni hefur þú (óháð eigin kynhneigð) haft af samkynhneigðu fólki, meðal vina, vinnufélaga eða í fjölskyldu þinni? Fyrsta samkynhneigða manneskjan sem þú kynntist (nema þú sért hinsegin), hvað er þér minnisstætt við hana? Hvaða áhrif höfðu slík kynni á skoðanir þínar og viðhorf til homma og lesbía?

 

 

 

 

 

 

 

/