Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Plast-öld

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands
Háskóli Íslands

Sýningarstjórar:
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
Skúli Matthías Ómarsson
Rakel Lind Gísladóttir
Erla Sóley Skúladóttir
Embla Gunnlaugsdóttir

Birt á vef:
22.11.2022

Á síðasta áratug 20. aldar endurnýjaðist umræða um stöðu Íslands innan Evrópu í tengslum við stofnun Evrópusambandsins. Viðleitni til að skilgreina eða fagna séríslenskum þjóðararfi birtist í 50 ára afmælishátíð lýðveldisins 1994, vígslu Safnahússins sem Þjóðmenningarhúss 2000, Kristnihátíð á Þingvöllum sama ár og nýrri grunnsýningu á Þjóðminjasafni Íslands 2004. Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár átti að hampa öllum fallegu fornminjunum en líka að búa til óslitin þráð frá 870 til 2000 og sýna þannig fram á að sama þjóð hafi búið í landinu í allan þennan tíma og fleira í anda þjóðernishyggju. Samfellan felst í því að hver öld hefur sama vægi og sérstaklega í því að 20. öldin sjálf fær sitt pláss og sína gripi, jafnt og landnámsöld hefur sín sverð og 18. öldin hefur sína hungursneyð. Í því samhengi var sett upp farangurs færiband með hlutum frá 20. öld, svo að safngestur gæti litið yfir hraðann í breytingum á hlutum hvers áratugar. En þá þurfti að finna hluti til að setja á færibandið sem fulltrúa tímabilsins 1980-2000, og mikið af þessu var sótt í Góða hirðinn, og hlýtur það að vera óvenjuleg aðfangaleið í samanburði við aðra hluti sem komu til safnsins vegna þess að þeir eru fornir og merkilegir. Það sem einkennir hluti frá þessu tímabili sem komu til Þjóðminjasafnsins árið 2004 og næstu tvö ár á eftir er plast. Auðvitað eru ekki allir hlutirnir eingöngu úr plasti, en plast sem efni er nokkurs konar leiðarstef.