Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

250 ár frá fæðingu Gunnlaugs Guðbrandssonar Briem

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands
Félag um átjándu aldar fræði

Sýningarstjóri:
Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir Sesseljudóttir

Birt á vef:
6.1.2023

Gunnlaugur Guðbrandsson Briem var fæddur 13. janúar árið 1773 að Brjánslæk á Barðaströnd. Hann tók að sér ættarnafnið Briem og var fyrstur til að taka upp það ættarnafn. Hann hefur því verið kallaður faðir Briemættarinnar.

Gunnlaugur var sonur Sigríðar Jónsdóttur húsfreyju og Guðbrands Sigurðssonar prests að Brjánslæk. Séra Guðbrandur hafði gaman af smíði og málun og hefur sonur hans Gunnlaugur eflaust erft þann áhuga frá föður sínum.

Árið 1789, þá 15 ára, sigldi Gunnlaugur til Kaupmannahafnar og sama ár var hann skráður í listaháskólann í borginni, sem þá hét Maler- Billedhugger- og Bygnings-Academiet. Þar fékk Gunnlaugur kennslu bæði í listum og handverki. Hann var einn fyrstur Íslendinga til að leggja stund á höggmyndalist, þótt ævistarf hans yrði á öðrum vettvangi en lista. Hinn dansk-íslenski Bertel Thorvaldsen, sem síðar varð frægur myndhöggvari, var samtíða Gunnlaugi við nám í skólanum og þeim varð vel til vina. 

Gunnlaugur lauk prófi frá skólanum sex árum síðar, árið 1795, með góðum vitnisburði og hlaut sama ár silfurmedalíu fyrir verk sín. Eftir það sneri hann sér að laganámi og lauk lagaprófi frá Hafnarháskóla árið 1797. Í grein eftir Þóru Kristjánsdóttur, „Gunnlaugur Briem“, í bókinni, Gersamar og þarfaþing: Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands segir að litlum sögum hafi farið af listiðkun Gunnlaugs eftir að hann kom til Íslands sumarið 1799. Þá hafði hann dvalið ytra í 11 ár.

Eftir heimkomuna starfaði Gunnlaugur um sinn sem lögsagnari en síðan sýslumaður, lengst í Vaðlaþingi í Eyjafarðarsveit.

Á þessari vefsýningu má sjá þá gripi er tengjast Gunnlaugi og varðveittir eru í Þjóðminjasafni Íslands: myndir af honum, listgripir eftir Gunnlaug sem allir eru gerðir af hinu mesta listfengi, auk grips úr hans eigu.  

 

______________________________

Heimildir:

Sigurður Líndal, „Listneminn frá Brjánslæk sem sneri sér að lögfræði og varð ættfaðir Briem-ættarinnar“, Lesbók Morgunblaðsins 4. febrúar 1973, bls. 6-8.
Þóra Kristjánsdóttir, „Gunnlagur Briem“. Gersemar og þarfaþing: Úr 130 ára sögu Þjóminjasafns Íslands. Ritstjóri Árni Björnsson. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands/Hið íslenska bókmenntafélag, 1994, bls. 266-267.