Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Safn Markúsar Ívarssonar

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Listasafn Íslands

Birt á vef:
7.2.2023

 Síðan Birni Bjarnarsyni (1853–1918) tókst að ná saman verkum þeim úti í Danmörku sem voru stofninn að Listasafni Íslands, með því að telja listamenn og fleiri á að gefa verk til safnsins, hafa margir gefið rausnarlegar gjafir; meðal þeirra er ómetanleg gjöf Markúsar Ívarssonar og fjölskyldu hans. Ekkja Markúsar frú Kristín Andrésdóttir og dætur hennar færðu Listaverkasafni ríkisins 56 málverk eftir íslenska listamenn hinn 27. ágúst árið 1951, sama dag og Listasafn Íslands eignaðist eigið húsnæði og var formlega opnað í nýjum húsakynnum við Suðurgötu í Reykjavík. Síðan þá hafa fjögur verk bæst við gjöfina, meðal annars olíumálverk Jóns Stefánssonar af Markúsi Ívarssyni sem var afhent safninu í tengslum við sýningu á verkum úr safninu árið 2007.

            Markús Ívarsson fæddist árið 1884, sama ár og Listasafn Íslands var stofnað. Hann var járnsmiður að mennt, hafði mikið yndi af myndlist og tók að kaupa málverk af einlægum áhuga jafnskjótt og hann hafði til þess nokkur efni. Eftirtektarvert er að hér er um alþýðumann að ræða en ekki auðmann. Af mánaðarlaunum sínum sem járnsmiðs tók hann að verja nokkurri upphæð til listaverkakaupa og studdi þannig meðvitað ýmsa listamenn sem bjuggu við kröpp kjör. Markús var vinnusamur hugsjónamaður sem í bræðralagi við Bjarna Þorsteinsson stofnaði Vélsmiðjuna Héðin sem varð stórfyrirtæki í höndum þeirra. Markús var ákaflega vinsæll sökum mannkosta sinna, ekki einungis í röðum samstarfsmanna heldur einnig listamanna sem hann virti mikils og heimsótti gjarnan til að fylgjast með og fræðast um myndlist. Samband hans við myndlistarmennina var þeim mikil hvatning á erfiðum tímum.

            Markús hóf fyrir alvöru að safna málverkum í kreppunni um 1930 og hélt því áfram meðan honum entist aldur en hann lést árið 1943. Þess ber að geta að Listasafn Íslands var enn heimilislaust á þessum tíma og var raunar á hrakhólum allt frá stofnun þess 1894 – 1951 er safnhúsið við Suðurgötu var reist. Eftir því sem verkum í safni Markúsar fjölgaði fór hann að dreyma um að yfir þau mætti byggja safnhús, svo að þau yrðu almenningi aðgengileg. Jafnframt lánaði hann vinum sínum og kunningjum myndir svo að sem flestir gætu notið þeirra. Lagði hann kapp á að kaupa myndir frá mismunandi skeiðum á ferli listamannanna til að betur mætti skilja þróun listar þeirra.

Ljóst er að í listaverkagjöfinni úr safni Markúsar Ívarssonar eru mörg mikilvæg verk frá þriðja og fjórða áratug 20. aldar og væri Listasafn Íslands illa í stakk búið að gefa heildstæða mynd af þróun íslenskrar myndlistar ef þessi verk vantaði í safneignina. Sem dæmi má nefna verkið Íslenskir listamenn við skilningstréð eftir Kjarval, frá árinu 1918, sem sýnir persónulegan skilning listamannsins á hræringum í myndlist samtímans, og Hagavatn eftir Finn Jónsson, frá árinu 1929, en það var meðal fyrstu málverka af öræfum landsins. Verk Kjarvals, Skipbrotsmaður, frá sama ári, telst einnig ágætt dæmi um stílbreytingar í list hans. Einnig má nefna Frá Reykjavíkurhöfn eftir Þorvald Skúlason, frá árinu 1931, sem nær að fanga kreppu og atvinnuleysi með eftirminnilegum hætti, og málverkið Kona í stól, frá 1938, sem sýnir hvert stefndi í list Þorvalds, þar sem horfið er frá endursögn þess séða með áherslu á einföldun formanna. Úr Slippnum eftir Snorra Arinbjarnar, frá 1936, nær andrúmi kreppuáranna sem mótaði íslenskan veruleika á árunum 1931–40. Skip í Reykjavíkurhöfn, eftir Jón Þorleifsson, frá 1940, ber með sér áhrif módernismans, þar sem áhersla er á birtu litarins að hætti fávistanna frönsku, og endurspeglar bjartari tíma í þjóðlífinu.

            Þegar safneign Listasafns Íslands er skoðuð kemur í ljós að þar eru gjafir einstaklinga áberandi, ekki síst listamannanna sjálfra, svo sem Ásgríms Jónssonar, Kjarvals, Gunnlaugs Schevings, Finns Jónssonar, Errós, Gunnfríðar Jónsdóttur, Guðmundu Andrésdóttur, Guðmundar Benediktssonar og margra fleiri sem gefið hafa safninu höfðinglegar gjafir. Þetta úrval verka gerir safninu kleyft að sýna heildstæða mynd af viðkomandi listamönnum og yfirlit um þróun þeirra þar sem úr fjölda verka frá mismunandi skeiðum er að velja; í öðrum tilvikum er miklu erfiðara um vik. Þarna er verk að vinna svo treysta megi lýðræðislega undirstöðu menningararfsins. 

            Markús Ívarsson hefur haft gott auga fyrir myndlist eins og glöggt má sjá og lagt sig eftir að kaupa verk eftir listamenn sem voru fulltrúar nýrra viðhorfa í myndlist. Vissulega mótast einkasöfn með öðrum hætti en opinber söfn og getur það verið fengur fyrir þjóðlistasafn að fá slík söfn því þannig slæðast með verk sem í röklegu samhengi aðfangastefnu safnsins yrðu ekki keypt en hafa eftir sem áður mikið gildi í sögulegu samhengi. Markús eignaðist fyrsta málverkið þegar hann gekk í hjónaband árið 1915. Það var Vorsabæjarhjáleiga eftir Eyjólf Eyfells og sýnir fæðingarstað Markúsar. Síðasta verkið sem hann festi kaup á var Gullna hliðið eftir Karen Agnete Þórarinsson. Um það leyti sem Markús hóf markvissa málverkasöfnun um 1930 voru ungir listamenn að koma heim frá námi. Innkaup til Listasafns ríkisins voru þá í höndum Menntamálaráðs sem  keypti fremur verk viðurkenndra listamanna og íhaldssamra, þeirra sem hallir voru undir það sem kalla mætti þjóðlega fortíðarhyggju með sterku frásagnarlegu ívafi. Hinn 19. febrúar 1944, tæpu ári eftir lát Markúsar, var opnuð minningarsýning um hann í nýreistum Listamannaskálanum við Austurvöll. Félag íslenskra myndlistarmanna gekkst fyrir sýningunni en með því vildi félagið heiðra minningu hans. Á sýningunni kom meginhluti safns Markúsar, eða um 156 listaverk, í fyrsta sinn fyrir sjónir almennings; við lát hans voru í safninu um 200 verk, olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar og höggmyndir.

RP

/