Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Helgi Helgason - tónlist og timburhús

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjórar:
Ólöf Bjarnadóttir
Kristín Halla Baldvinsdóttir

Birt á vef:
17.4.2023

Helgi Helgason tónskáld og forsmiður fæddist 23. janúar 1848 í Reykjavík. Hann var fjölhæfur maður, meðal annars frumkvöðull í lúðrablæstri á Íslandi og brautryðjandi í íslenskri byggingarlist.

Eftir konungskomuna árið 1874 þar sem Helgi heyrði lúðrasveit konungs leika í Reykjavík og á Þingvöllum vaknaði hjá honum löngun til að stofan hornaflokk á Íslandi. Helgi hélt því til Kaupmannahafnar árið eftir til að læra lúðrablástur og varð þar með fyrstur Íslendinga til að læra á blásturshljóðfæri. Að námi loknu sneri hann heim til Íslands með hljóðfæri til að stofna hornaflokk, þar á meðal kornettið sem hann notaði sjálfur og var í eigu hans alla tíð. Eftir heimkomuna stofnaði hann Lúðraþeytarafélag Reykjavíkur, sem í dag er Lúðrasveit Reykjavíkur.

Helgi var hæfileikaríkt tónskáld og samdi mörg þekkt sönglög. Einna þekktast er Öxar við ána við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Lagið var frumflutt við Öxarárfoss á Þingvallafundinum árið 1885 og lék Helgi á kornettið við það tækifæri. Helgi samdi einnig sorgarmarsinn sem leikinn var við útför Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans árið 1880, var það fyrsta íslenska tónverkið sem samið var fyrir hljóðfæraflokk.

Helgi var jafnframt forsmiður þ.e. teiknaði, byggði og hafði umsjón með byggingu húsa og setti sterkan svip á íslenska húsagerð í Reykjavík í lok 19. aldar með húsum sínum. Með tilkomu hans öðlaðist hinn klassíski stíll á timburhúsaöld fullan þroska.

Á þessari vefsýningu má sjá gripi úr safneign Þjóðminjasafns Íslands sem tengjast Helga Helgasyni: gripi sem hann átti, grip sem hann bjó til, ljósmyndir af honum, konu hans og ýmsum tónlistarflutningi. Einnig eru ljósmyndir af húsum sem hann byggði sem forsmiður.

 

Heimildir:

Hörður Ágústsson. Íslensk byggingararfleifð I: Ágrip af húsagerðarsögu. Reykjavík: Húsafriðunarnefnd ríkisins, 1998. Bls. 133 -147.

Una Margrét Jónsdóttir. Raddir heyri´eg ótal óma [útvarpsþáttur]. Ríkisútvarpið. 15. september 2022.

Þorvarður Hjálmarsson. 2000. Varðveisluannáll og verndunaróskir. Morgunblaðið, 24. desember: bls. 26-28.

 

 

/