LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Nína Sæmundsson. Málverk

Vefsýning
Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Dagný Heiðdal

Birt á vef:
4.11.2015

Jónína Sæmundsdóttir (1892-1965) eða Nína Sæmundsson, eins og hún kallaði sig, var fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi. Hún fór ung til Danmerkur þar sem hún kynntist leir og mótaði sína fyrstu mynd. Árið 1915 hóf hún undirbúningsnám við Teknisk Selskabs Skole í Kaupmannahöfn og árið eftir fékk hún inngöngu í höggmyndadeild Det Kongelige Akademi for de Skønne Kunster en kennarar hennar þar voru Julius Schultz og Einar Utzon-Frank. Lauk hún námi árið 1920 og sama ár keypti Listasafn Íslands verk eftir hana sem hafði verið á Vorsýningunni í Charlottenborg 1918. Vegna berkla dvaldi Nína á hæli í Sviss næsta árið en hélt síðan til Rómar þar sem hún var með vinnustofu og vann að nýjum verkum auk þess að skoða verk eldri meistara og ferðast til Túnis og kynna sér þarlenda list. Eftir stutta dvöl í Danmörku hélt hún svo til Parísar haustið 1923 og var þar í eitt ár og tók m.a. þátt í Salon d’Automne þar sem hún hlaut mikið lof fyrir verkið Móðurást. Árið 1925 var Nína búsett í Kaupmannahöfn og vann þá meðal annars að verkinu Dauði Kleópötru og var það sýnt í Grand Palais í París haustið 1925. Árið 1926 var Nínu boðið að sýna í Art Center í New York og leiddi það til þess að Nína bjó þar næstu fjögur árin. Árið 1930 flutti hún til Hollywood þar sem hún vann til að mynda fyrir kvikmyndafélög og gerði bæði leikmuni og höggmyndir af ýmsum leikurum auk þess að gera opinber minnismerki og portrettmyndir af mörgum þekktum einstaklingum í bandarísku samfélagi. Lengst af fylgdi Nína klassískri fagurfræði við gerð höggmynda sinna sem margar sýna nakta líkama með fáguðu yfirborði, mjúkum línum og klassískum hlutföllum en verk hennar búa þó einnig yfir innbyggðri spennu og dramatík.

Nína bjó í Kaliforníu í rúm 25 ár, en þar var mikil deigla menningarstrauma og sér þess víða stað í yngri verkum Nínu að hún hafi orðið fyrir áhrifum frá Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Í Kaliforníu hóf Nína að mála olíumyndir um 1943 og síðari hluta ævinnar fékkst hún í æ ríkara mæli við málaralist og sýndi málverk ásamt höggmyndum á sýningum. Starf myndhöggvarans er líkamlega krefjandi og tímafrekt og átti það örugglega sinn þátt í því að Nína tók að mála með olíulitum, en allt frá námsárunum hafði hún fengist við að teikna og mála með vatnslitum.

Nína hélt þrjár einkasýningar í Reykjavík, þá fyrstu í Listamannaskálanum í Reykjavík árið 1947 og síðan í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1955 og 1963. Á öllum sýningunum sýndi hún ásamt höggmyndum hátt í 30 málverk og er myndefni þeirra mjög fjölbreytt, til dæmis mannamyndir, trúðamyndir, innlent og erlent landslag og uppstillingar með blómum. Sameiginlegt með öllum verkunum er þykkt litahlað og frjálsleg tjáning á myndefninu. Móttökur gagnrýnenda hér á landi voru misjafnar og þótti sumum málverk Nínu vera á skjön við það sem efst var á baugi í evrópskri list á sama tíma. Nokkur þessara málverka eru nú í eigu Listasafns Íslands og má sjá þau á þessari vefsýningu.

Síðustu ár ævi sinnar bjó Nína Sæmundsson í Reykjavík og þegar hún lést í lok janúar 1965 hafði hún ánafnað Listasafni Íslands öll þau verk sín er voru í hennar eigu, samtals 49 verk. Í dánargjöf Nínu eru 25 málverk og 3 krítarteikningar auk 22 skúlptúra. Á vefsýningunni eru málverk eftir Nínu Sæmundsson í eigu Listasafns Íslands, en þessi verk eru mun minna þekkt en höggmyndir hennar sem má margar sjá á opinberum vettvangi, t.d. styttuna Móðurást í Mæðragarðinum við Lækjargötu í Reykjavík og Hafmeyjuna sem tilheyrir Perlufestinni, höggmyndagarðinum við Tjörnina í Reykjavík.