Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Passaglös á Bessastöðum

Vefsýning
Sýningaraðili:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjórar:
Guðmundur Ólafsson
Anna Rut Guðmundsdóttir

Birt á vef:
5.2.2016

Bessastaðir á Álftanesi voru höfðingjasetur og ein helsta valdamiðstöð landsins öldum saman. Þar var líka aðsetur umboðsmanna konungs á Íslandi og má ætla að þeir hafi búið við nokkuð annan kost en allur almenningur í landinu.

Á árunum 1987-1996 fóru fram umfangsmiklar fornleifarannsóknir í sambandi við viðgerðir og endurreisn staðarins, og þá fundust ýmsir áhugaverðir gripir. Þar á meðal 53 brot úr svonefndum passaglösum. Þá höfðu ekki áður fundist leifar af slíkum glösum annars staðar á Íslandi, en við nýlegar rannsóknir á biskupssetrunum á Hólum í Hjaltadal og í Skálholti hafa fundist einstaka brot (Guðmundur Ólafsson 2011:123-124; 2013:79-81; Ragnheiður Traustadóttir 2013 og Gavin Lucas, munnl. heimild).

Hvað eru passaglös?

Passaglös eru mjög þunn, há og mjó drykkjarglös sem algeng voru í Evrópu frá 16. öld fram á 18. öld. Þau gátu verið misstór, allt frá um 15 til 30 cm á hæð og frá rúmlega tveimur til átta cm í þvermál. Þau voru gjarnan áttstrend að lögun en stundum sexstrend eða jafnvel sívöl. Þau mjókkuðu niður og utan á þau voru brædd þrjú til átta mjó, lárétt riffluð þverbönd eða strik úr gleri, með mislöngum bilum á milli. Passaglösin voru vinsæl í veislum þar sem þau voru látin ganga á milli manna. Þetta var hluti af fornum og vinsælum samkvæmisleik, sem gekk út á það að drekka nákvæmlega það sem manni var ætlað, hvorki meira né minna. Þverböndin eða strikin á glasinu sýndu hve langt menn áttu að drekka áður en þeir réttu glasið áfram til næsta manns. Þeir sem gættu sín ekki og varð á að fara yfir strikið, þurftu að drekka áfram niður að því næsta, og áttu því á hættu á að verða fljótt ofurölvi. Hugsanlega má rekja orðatiltækið, að fara yfir strikið, til þessa leiks (Haggren 2010; Henricson 2003; Kjellberg 1957; Halbruner).

Heimildir um passaglös á Íslandi

Fáar heimildir hafa fundist um notkun passaglasa hér á landi, þó að menn virðist hafa þekkt til þeirra. Það kemur t.d. fram í frásögn Jóns Indíafara þar sem hann segir: ,,Hún sagði mér heimilt eitt passaglas fullt af öli“, og í texta hjá Hallgrími Péturssyni, sálmaskáldi, kemur fyrir orðatiltækið að ,,drekka passa og pela“, sem virðist vísa til drykkju úr passaglasi. Þá má líka geta þess að í danskri orðabók Konráðs Gíslasonar er passaglas sagt vera mælipyttla ,,t.a.m. með strykum“ (Guðmundur Ólafsson 2013:79-81, Konráð Gíslason 1851).

Gerð passaglasa

Passaglös voru mjög fjölbreytt að útliti. Þau voru oftast gerð þannig að ljósgrænt  gler var blásið fram í mjóan sívalning. Botninn var pressaður út og upp, þannig að hann myndaði breiðan tvöfaldan flatan glerfót neðst, sem glasið hvíldi á. Til þess að fá rétt form var glasið gjarnan mótað með því að setja form inn í glashólkinn á meðan hann var enn heitur og mjúkur. Algengast var að formið væri átthyrnt að lögun, þótt sum væru sexhyrnd, eða jafnvel sjöhyrnd. Glerið í passaglösunum var örþunnt, aðeins um 1-1,5 mm að þykkt, og því afar brothætt. Oft var skárifflað mynstur í glerinu.

Mjóu glerþræðirnir, sem bræddir voru utan á glasið, voru oftast þverrifflaðir, yfirleitt úr sama efni og glasið, en gátu þó verið í öðrum lit. Bilin á mili strikanna voru mislöng, sem var sjálfsagt með ráðum gert og hluti af skemmtun drykkjuleiksins, að gestunum var gert að drekka mismikið öl eða vín, eftir því hvort bilið var lítið eða mikið. Þessi bil voru nefnd pass, (lat. passus=þrep) og munu vera ástæða heiti glasanna.

Í Skandinavíu nefnast glösin passglas, í Þýskalandi voru þau nefnd passglas, stangenglas eða bandvurmglas og á ensku passglas eða pole glass beaker.

Hverjir drukku úr passaglösum?

Passaglösin voru fyrst notuð af norður-evrópskum furstum og öðrum aðalsmönnum, en þegar farið var að fjöldaframleiða þau urðu þau algeng brúksvara meðal almennings. Á málverkum frá 17. og 18. öld bregður þeim stundum fyrir í veislusenum, bæði hjá háum sem lágum (Henricson 2003:107-111).  Á Íslandi virðast þessi glös hafa verið afar sjaldséð og fundarstaðirnir, Bessastaðir, Skálholt og Hólar, benda til þess að þau hafi verið dýr og líklega eingöngu á færi helstu höfðingja landsins að leyfa sér slíkan munað. Algengast var að drekka öl úr passaglösum en það mun þó hafa þekkst að nota þau líka fyrir vín (Halbruner; Henricson 2003).

Því miður eru heil passaglös afar sjaldgæf, og á Bessastöðum fundust skiljanlega aðeins brot úr glösum, og verður því hjálögð mynd af eftirlíkingu af passaglasi að duga hér til þess að sýna hvernig þau gátu hafa litið út. Á vefsýningunni má sjá myndir af passaglasabrotunum, sem fundust á Bessastöðum. Þau láta ekki mikið yfir sér, en gefa þó nokkra hugmynd um útlit, handbragð og fjölbreytileika þeirra. Þau veita okkur einnig smá innsýn í drykkjuleiki sem menn skemmtu sér við í fínum veislum fyrir um 300 árum, sem við höfðum litla sem enga vitneskju um.