UN PEU PLUS
eða...aðeins meira
Sýningin UN PEU PLUS, á skissum og teikningum Helgu Björnsson tískuhönnuðar sýnir einn mikilvægasta þáttinn í sköpunarferlinum, þegar hugmynd er fest á blað.
Heiti sýningarinnar, Un peu plus fundum við á litlu minnisblaði sem leyndist í stóru teikningasafni Helgu sem við fórum í gegnum, við undirbúning sýningarinnar. Á blaðinu voru rituð, með handskrift Helgu, tólf stikkorð á frönsku. Það var greinilegt að hún hafði valið orðin í þeim tilgangi að skerpa sýn fyrir næsta áhlaup í vinnu sinni sem tískuhönnuður í einu af hátískuhúsi Parísarborgar. Un peu plus, gætum við þýtt með orðunum aðeins meira ogþau má skilja á ýmsa vegu. En tískuhönnuður sem starfar við hátískuna, leitast ávallt við að ganga skrefinu lengra. Hann ögrar sjálfum sér við að kanna nýjar leiðir.
Sjálf tileinkaði Helga sér ákveðin fyrirheit þegar hún hófst handa við að skapa. Franska setningin il faut se surpasser pour s‘atteindre hefur til að mynda verið leiðarvísir Helgu. Merkingin er nokkurn veginn sú, að þú þurfir að sleppa fram af þér beislinu viljir þú ná þínu takmarki. Raunar er erfitt að þýða þessa setningu beint yfir á íslensku svo vel fari. En við getum skilið merkinguna með líkingu: Hönnuðurinn kastar sér út í strauminn og öðlast nýtt afl sem ber hann áfram.
ERTU SÓFI EÐA KJÓLL?
eða...Es-tu canapé ou robe?
Segjum að hugmynd sé loftkennt ástand hugans, óefniskennd. Verði hún fest á blað; með orði, með skissu eða með teikningu, öðlast hún sitt upphaf, verður að efni. Að þessu leyti er skissa upphaf vinnuferils. Stundum verður skissan upphaf án endis - sitji hún eftir sem upphaf á einhverju verkefni sem ekkert varð úr. En skissan getur líka farið inn í nýja vídd. Hugmyndin sem skissan felur í sér, verður að fullburða teikningu eða listaverki – og hjá tískuhönnuðinum verður skissan að fatnaði. Að skissa, er ríkur þáttur í vinnu allra hönnuða og listamanna. Skissan er hluti af hugmyndavinnu og skissusafn hönnuða og listamanna er brunnur sem þeir sækja stöðugt í. Nær undantekningalaust eru það tískuhönnuðirnir sem státa af glæsilegustu skissunum, enda er skissuteikning í tískuhönnun sérstök grein sem mikil áhersla er lögð á, í námi þeirra. Teikningar Helgu og vinnuskissur vekja hvarvetna aðdáun og þegar við horfum á þær, hverja á eftir annarri, ná þær slíku valdi á manni að helst langar mann að prófa að gera eins. Ná í pensil og draga þessar línur! Svo kröftuglega skilar Helga ástríðu sinni til okkar.
Í teikningum og skissum Helgu sjáum við skapandi hugsun. Í þeim er flæði og orka og endalaust ímyndunarafl sem er túlkað ýmist með litum og formum. Pensildrátturinn er meitlaður, með örfáum línum sem virðast dregnar á augabragði, öðlast myndir hennar á augabragði líf. Þegar möppurnar hennar Helgu voru skoðaðar fannst þar skissa af antiksófa í stíl Lúðvíks 14. Fyrir ofan var málað með sama penslinum stórum stöfum: Ertu sófi eða kjóll? Rithöfundum verður tíðrætt um ritstíflur en sjaldan heyrum við hönnuði tala um stíflur. Þó er það svo að starfsumhverfi tískuhönnuðarins er mjög krefjandi. Hringrásin er árstíðabundin. Tískuhönnuðurinn skilar af sér hugmyndum á taktfastan hátt. Vor og sumar, Haust og vetur. Tískulínurnar eru fjórar á ári og á sýningum er tónninn sleginn fyrir það sem koma skal í tískuheiminum á Vesturlöndum. Mikil spenna skapast í kringum tískuvikurnar og álagið í tískuhúsunum í aðdraganda þessa tímabils er þrúgandi. Hver flík, sem saumuð er eftir hugmynd hönnuðarins, býr yfir framúrskarandi handverki og saumaskap. Hvert rúm innan tískuhússins er skipað meistara á sínu sviði. Hér sameinast vinna sérfræðinga undir formerkjum listrænnar sköpunar. Gagnrýnendur spara ekki stóru orðin, til lasts eða lofs, í dómum sínum.
Helga Björnsson
Helga Björnsson stundaði nám í myndlist og hönnun við Les Arts Décoratifs í París. Að loknu námi komst hún að í tískuhúsi Louis Féraud. Hún starfaði við hlið Louis Féraud, við hátískuna á 8., 9. og 10. áratug síðustu aldar, lengst af sem aðalhönnuður. Sá heimur sem Helga tilheyrði, hátískuheimurinn, er á margan hátt frábrugðinn því sem flestir þekkja, en innan tískuheimsins er lagskipting þar sem tískukóngar – og tískudrottningar ráða ríkjum. Hátískan trónir efst með íburði sínu og glæsileika.
Féraud hreifst af draumsýnum Helgu, eins og hann kallaði það, í viðtali sem tekið var við þau Helgu árið 1995 á Stöð 2. Litli miðinn, sem vísað er til í textanum hér ofar, lýsir slíkum sýnum og þeirri leið sem Helga fór til að ögra sér og ná nýjum hæðum í hvert sinn sem tískulína var hönnuð.
Hátískan hefur svo áratugum skiptir verið meðal þess sem hefur borið hróður franskrar menningar um allan heim og Parísarborg jafnan verið höfuðborg tískunnar, með hátískuna innanborðs. Það er eftirsótt staða að starfa í tískuhúsi sem tískuhönnuður. Fatnaður sem tilheyrir hátískunni er einstakur. Ekki eru gerðar fleiri en ein flík sem þýðir að tískuhönnuðurinn er í stöðugri leit að innblæstri í krefjandi umhverfi. Teikningar og skissur Helgu afhjúpa þann kraft sem hönnuðurinn þarf að búa yfir í starfi sínu í tískuheiminum. Þær sýna hraðan takt, öruggar pensilstrokur, sem ná með aðeins örfáum línum að skapa glæsileika kvenlegrar mýktar. En teikningar Helgu og skissur, eru einnig fantasíur úr hugarheimi sem Helga klippir til og raðar saman á ólíka vegu. Mynstur og andstæðir litir, stór form og smá, sem hún nær svo listilega að skapa glæsileika kvenlegrar mýktar í stílfærðum módelum, íklæddar fatnaði sem verður til, með óhindruðu flæði.
Harpa Þórsdóttir