LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Ralph Hannam

Vefsýning
Sýningaraðili:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Inga Lára Baldvinsdóttir

Birt á vef:
4.11.2016

Ralph Hannam var einn af fremstu áhugaljósmyndurum á Íslandi um miðbik 20. aldar. Sjálfur lýsti hann myndatökum sínum svo: 

„Hvaða verkfæri hefur maður til þess að vinna með við ljósmyndun? Það er fyrst og fremst lýsing. Gráskalinn frá hvítu yfir í svart. Sjálfur var ég hrifinn af því að hafa hvítan bakgrunn og svart mótíf á móti. Síðan er það myndbyggingin, gullinsniðið, að það sé jafnvægi í myndinni. Loks er það myndefnið. Mannlegur áhugi, form mannsins eða viðfangsefni hans. Sérstaklega þegar þetta myndar skemmtileg form. Og skurður á myndum hefur mikið að segja. Helmingur af góðri ljósmynd er heppni. “ 

Ralph eignaðist myndavél sem unglingur í Englandi og ljósmyndaði þar til hann fór í herinn. Hann var staðsettur á Íslandi á styrjaldarárunum. Við stríðslok tók hann aftur til við að mynda. Hann flutti til Íslands með konu sinni Elínu Guðlaugsdóttur árið1948. Sjálfur sagði Ralph: 

„Á þeim árum var mikið mannlíf í Reykjavík m.a. við höfnina og síðan var oft snjór sem gaf hvítan bakgrunn á myndefnið. Það var mjög gaman að labba um í Reykjavík, sem ég gerði oft á leiðinni heim úr vinnu, og ég sá þá oft mikla möguleika á myndefni. Best var að taka myndir seinni part dags þegar sólin var að setjast og birtan var 45°. Eftir fimm ár hætti ég að taka myndir. Þá fór ég að byggja og vann mikið að því sjálfur. Teiknaði húsið og smíðaði það. Fjölskyldan kom fyrst.“ 

Ralph var virkur í hreyfingu áhugaljósmyndara í nokkur ár og einn af stofnendum Ljósmyndafélags Reykjavíkur árið 1953 og tók þátt í sýningarhaldi hér heima og erlendis. Eins og myndir hans bera með sér hafði Ralph áhuga á myndrænni ljósmyndun og lagði sig eftir henni. Ralph gaf frummyndir sínar til Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni og eftir hans dag eignaðist safnið líka filmur hans. Þessi sýning sýnir úrval mynda hans.

Inga Lára Baldvinsdóttir