LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Texti. Valin textaverk úr safni Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur

Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Birta Guðlaug Guðjónsdóttir

Sýningartími:
15.09.2016 - 14.05.2017

Á sýningunni T E X T I eru sýnd textaverk um fimmtíu íslenskra og alþjóðlegra myndlistarmanna. Verkin á sýningunni eru valin úr um 1000 verka safneign listsafnaranna Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur en þau hafa safnað íslenskri og erlendri samtímamyndlist frá því á 7. áratugnum.

Stór hluti sýnenda á sýningunni telst til helstu myndlistarmanna samtímans og hafa margir þeirra tengst Pétri og Rögnu sterkum vináttuböndum. Þau tengsl hafa jafnframt leitt til frekari kynna íslenskra myndlistarmanna við erlenda kollega og hafa átt stóran þátt í að skapa grundvöll fyrir öflugu sýningahaldi á verkum erlendra myndlistarmanna á Íslandi.

Pétur Arason kaupmaður og Ragna Róbertsdóttir myndlistarmaður ráku sýningarrýmið Önnur Hæð, ásamt Ingólfi Arnarssyni myndlistarmanni, á heimili sínu að Laugavegi 37 á árunum 1992–1997. Þar buðu þau mörgum af þekktustu alþjóðlegu myndlistarmönnum samtímans að sýna verk sín og sköpuðu margir þeirra verk með vísun í menningu og náttúru Íslands. Verk þessara listamanna mynda grunninn í safneign þeirra. 

Pétur og Ragna héldu áfram að safna samtímamyndlist eftir að Önnur Hæð hætti starfsemi og árið 2003 opnuðu þau SAFN Samtímalistasafn á þremur hæðum sömu byggingar. SAFN var rekið í samstarfi við Reykjavíkurborg og var opið almenningi til ársins 2008. Í SAFNI var stór hluti safneignarinnar sýndur en jafnframt voru þar settar upp yfir fimmtíu sýningar íslenskra og erlendra listamanna.

Árið 2014 opnuðu þau Pétur og Ragna tvö sýningarrými er bera heitið SAFN; annað að Bergstaðastræti 52 í Reykjavík og hitt að Lewetzowstrasse 16 í Berlín, Þýskalandi. Á báðum stöðum bjóða þau gestum sínum að upplifa valin verk úr safneign sinni. 

 

Listamenn:
Birgir Andrésson, Robert Barry, Joseph Beuys, Thomas A. Clark, Hanne Darboven, Tacita Dean, Steingrímur Eyfjörð, Robert Filliou, Ian Hamilton Finlay, Hreinn Friðfinnsson, Hamish Fulton, Douglas Gordon, Franz Graf, Kristján Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson, Jón Laxdal Halldórsson, Jenny Holzer, Roni Horn, Donald Judd, On Kawara, Joseph Kosuth, Mark Lombardi, Richard Long, Max Neuhaus, Yoko Ono, Roman Opalka, Richard Prince, Karin Sander, Ben Vautier, Ryszard Wasco, Lawrence Weiner, Bjarni H. Þórarinsson.