LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Íslenskir vörupeningar

Vefsýning
Sýningaraðili:
Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns

Sýningarstjóri:
Sigurður Helgi Pálmason

Birt á vef:
9.4.2018

Með þessari vefsýningu er ætlunin að skyggnast í sögu Íslenskra vörupeninga. 

Elsta dæmi um notkun einkagjaldmiðils eða verðmerkja á Íslandi er frá 1846. Þessir fyrstu vörupeningar voru gefnir út af Carl Franz Siemsen kaupmanni í Reykjavík, en hann verslaði einnig í Færeyjum, þar sem sömu peningarnir voru einnig notaðir. Það var á ýmsan hátt öðruvísi staðið að þessari fyrstu útgáfu en þeim sem síðar komu. Ekki er vitað hvað Reykvíkingar hafa þá kallað þessa vörupeninga, en í tilkynningu á dönsku, sem Siemsen dagsetur 23. júlí 1846 og bað bæjarfógeta leyfis að mega opinbera, kallar hann þá ‘Repræsentativ’, þ.e. peningaígildi. Hann lýsir því að þeir verði notaðir í verslun sinni til greiðslu vinnulauna þegar samkomulag sé um að launin séu greidd í vörum, en ekki peningum, og launþegi óski þess ekki að þau séu gerð upp á hverju kvöldi; gegn framvísun vörupeninganna verði verkafólki mælt út mjöl og önnur verslunarvara samkvæmt nafnverði þeirra; þá tekur kaupmaðurinn fram sérstaklega að vörupeningunum sé ekki ætlað að gilda sem gangmynt manna á meðal. Siemsen hafði samráð við Hoppe stiftamtmann, sem skrifaði rentukammerinu í Kaupmannahöfn til staðfestingar á því að útgáfan bryti ekki lög, send voru eintök af peningunum til umsagnar. Í bréfi sínu hafði stiftamtmaður orð á því að hægt væri að falsa útgáfu Siemsens og valda honum þar með fjárhagslegum skaða. Svo virðist á öllum bréfaskriftum Hoppe að slík vörupeninga útgáfa hafi verið alger nýjung fyrir hann. Með leyfi Stefáns Gunnlaugssonar bæjarfógeta lét Siemsen hengja upp tilkynningu um peningana á almannafæri.

Það virðist hafa tíðkast að vörupeningar væru notaðir þannig að kaupmaðurinn, sem gaf þá út, greiddi vinnulaun, innlegg, lán upp í væntanlegt innlegg eða annað með slíkum peningum. Þar með tryggði kaupmaðurinn sér viðskipti því að fátítt var að aðrir tækju við vörupeningunum en útgefandinn eða verslun hans. Sá hængur var á þessum verslunarhætti að vöru­verð var ekki hið sama gagnvart vörupeningum og gjald­gengri ríkismynt. Algengt var að vörur væru 10% dýrari en ella ef greitt var með vörupeningum. Þessi tilhögun viðgekkst svo lengi sem vörupeningar voru leyfðir.

Flestar gerðir vörupeninga á Íslandi komu til sögunnar á ofan­verðri 19. öld og voru því skammlífar. Með hliðsjón af þeirri umfjöllun, sem verðmerki Siemsens kaupmanns fengu á sínum tíma, verður að telja að frá 1846 fram til 1901 hafi vörupeningar notið beinnar viðurkenningar stjórnvalda til þeirra nota sem Siemsen hafði lýst í tilkynningu sinni. Árið 1901 virðast þeir aðeins hafa verið í notkun á Bíldudal, Ísafirði og Eyrarbakka.

Oftast voru það kunnir kaupmenn sem gáfu út vörupeninga, flestir þeirra höfðu viðkomu í Kaupmannahöfn árlega og margir dvöldust þar á vetrum.

Samgangur þeirra á skipsfjöl eða annars staðar hefur verið óhjákvæmilegur. Gæti þar meðal annars verið komin skýring á því hve margar gerðir vörupeninga sjá dagsins ljós um svipað leyti. Þá hafa flestir þessara kaupmanna efalaust farið á vörusýninguna miklu, sem haldin var í Kaupmannahöfn 1888. Kaupmenn sem aðrir sem erindi gátu átt á sýninguna voru óspart hvattir til þátttöku. Á sýningunni stóð fyrirtækið N.Hansen og Co. fyrir mikilli kynningu á notkun vörupeninga.

Vitað er að flestar gerðir vörupeninga voru slegnar erlendis, þótt heimildir séu ekki alltaf til um hvar og hvenær það var gert. Öruggt má þó telja að Danmörk og Þýskaland komi þar aðallega við sögu. Þýska fyrirtækið L. Chr. Lauer í Nürnberg mun hafa slegið nokkuð fyrir íslenska aðila. Umboðsmaður þess í Kaupmannahöfn var N. Hansen & Co. Miklar líkur eru á því að íslenskir kaupmenn, sem létu slá fyrir sig erlendis, helst hjá L. Chr. Lauer, hafi látið N. Hansen & Co. annast alla milligöngu.

Með lögum nr. 41 8. nóv. 1901 var notkun vörupeninga bönnuð. Skyldi vera búið að innleysa vörupeningana fyrir 1. júlí 1902. Bannið
fól í sér að búa til, flytja inn eða gefa út neinskonar verðmerki, hvorki myntir eða seðla, er gengið gátu manna á milli sem gjaldeyrir, hvort sem ætlast var til að verðmerki yrðu innleyst með vörum eða peningum.