Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Brauðpeningar og brauðmiðar

Vefsýning
Sýningaraðili:
Myntsafn Seðlabanka og Þjóðminjasafns

Sýningarstjóri:
Sigurður Helgi Pálmason

Birt á vef:
10.4.2018

Með þessari vefsýningu er ætlunin að skyggnast í sögu brauðpeninga og brauðmiða. 

Peningar með tilgreindum fjölda brauða af tiltekinni gerð sem handhafi á inni hjá brauðgerð. Eða á annan hátt gefið til kynna að brauðgerðarhús standi að útgáfu þess. Brauðpeningar voru af nokkuð öðrum toga en vörupeningar, enda eru þeir enn löglegir. Notkun brauðpeninga var með ýmsu móti. Oft var það þannig að viðskiptamaður lagði inn mjölpoka hjá bakara og fékk í staðinn ákveðinn fjölda brauðpeninga eða seðla, sem hann skipti aftur fyrir brauð, meðan þeir entust. Mjölpokinn var almennt um 200 pund að þyngd og fengu menn 43½ eða 44 brauð fyrir hann. Bakarinn fékk einnig greitt í peningum (lögeyri)um 4 krónur (1887) Ekki var alltaf um sátt og samlyndi að ræða í þessum viðskiftum, óánægju raddir komu stöku sinnum fram.

Nokkur blaðaskrif urðu vegna verðlags og fyrirkomulags þessara brauðviðskifta, “Búkona“ skrifaði í Ísafold í árslok 1887 tvær greinar undir fyrirsögninni Bakarabrauðin, en þeim greinum var svarað strax eftir áramótin 1888. Það var J.E.Jensen sem svaraði ásökunum “Búkonu” mjög snarlega bæði á síðum Þjóðólfs svo og í Fjallkonunni um svipað leyti. Í þessum greinum var deilt um kosti, galla og hagkvæmni þess fyrirkomulags sem tíðkaðist á mörgum þéttbýlisstöðum á þessum árum. “Búkona” hélt því fram að úr 200 pundum mjöls fengjust 46-47 brauð í stað þeirra umsömdu 43½-44 brauða sem bakararnir almennt létu af hendi þá burtséð frá greiðslu. Sakaði “Búkona” þar með suma bakara um að hagnast um 2½-3 brauð á hvern sekk. Af þessum skrifum má skilja að ekki hafi verið algilt verð á brauði heldur að framboð, eftirspurn og fjarlægðir frá verslunum hafi ráðið miklu um brauðverð. Nokkuð annað gilti þó þar sem kaupmenn ráku sjálfir brauðgerð, því að þeir lánuðu upp í væntanlegt innlegg, t.d. J.R.B. Lefolii á Eyrarbakka. Sjómenn á vertíð í Þorlákshöfn lögðu fisk inn hjá kaupmanninum, en fengu bókfærða inneign þess í stað. Var þá vertíðarmönnum greitt að hluta með brauðpeningum sem þeir innleystu síðan eftir þörfum. Vikulega fór einn maður eða fleiri frá Þorlákshöfn þeirra erinda að sækja brauð fyrir sig og félaga sína.

Svo virðist sem brauðmiðinn frá Sauðárkróki sé af öðrum toga, enda sennilega yngstur þeirra sem vitað er um. Óljósar heimildir herma að stundum hafi verið um að ræða eins konar sveitarstyrk sem greiddur var að hluta með þessum brauðmiðum.

Nokkuð víst er að sumir betur gerðu og vandaðri brauðpeninga voru slegnir erlendis, t.d. brauðpeningar þeir sem A. Frederiksen í Reykjavík og Þingeyrarbakarí gáfu út voru slegnir með sama mótinu bakhlið þessara brauðpeninga er slegin með sama mótinu. Þetta segir ekki til um það hvar eða hvenær peningarnir voru slegnir, heldur tengir aðeins uppruna þeirra. Við nánari athugun kemur hins vegar í ljós að merki það sem Danska bakaragildið notaði á auglýsingapeningi sínum á vörusýningunni 1888 í Kaupmannahöfn er eitt og hið sama. Þetta merki, krýnd brauðkringla með tveimur ljónum og sverðum, var grafið og slegið fyrir Danska bakaragildið hjá L. Chr. Lauer í Nürnberg. Af þessu má ætla að brauðpeningar Þingeyrarbakarís og A. Frederiksens hafi einnig verið slegnir hjá L. Chr. Lauer.