LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Sögur úr hirslum

Vefsýning
Sýningaraðili:
Menningarmiðstöð Hornafjarðar

Sýningarstjóri:
Hanna Dís Whitehead

Birt á vef:
5.7.2018

Sögur úr hirslum.

Leirlist hefur verið til í þúsundir ára og verið vitnisburður um hvernig fólk háttaði lífi sínu á hinum ýmsu skeiðum mannkynssögunnar. 

Leirmunir koma oft við sögu í daglegu lífi. Við teljum þá ómissandi við neyslu matar og drykkja, til geymslu og jafnvel til að sitja á. 

Í tengslum við sýninguna Leit að postulíni í aðalsal safnsins sýnum við valda muni frá Byggðasafni Austur-Skaftafellssýslu. Úr þeim má lesa sögur. Velta má fyrir sér hvað hefur verið rætt um þegar drukkið hefur verið úr herstöðvar-bollanum á Stokksnesi? Hvernig kom skálin með kínverska mynstrinu til Hornafjarðar? Við hvaða tilefni var drukkið úr flöskunum? Úr hverju er brotið sem fannst í skútuflaki dregnu upp úr Breiðarmerkurdjúpi? Hver sat og gerði við skálar af natni? Leirinn geymir sannarlega sögur samferðafólks síns. 

Í Japan kallast listin að gera við keramíkmuni Kintsugi eða gullna samskeytið. Þá er gert við hlutina með lakki blönduðu með dufti úr gulli, silfri eða platínum. Kenningin er að upphefja brotið sem hluta af sögu hlutarins frekar en eitthvað sem beri að fela. 

Fegurðin liggur í sögunni.

Leirmunir þessir úr hirslum Byggðasafnsins bera þess merki að hafa verið nýttir vel og mikils metnir af þeim sem þá áttu, stundum jafnvel, seymdir, spengdir og límdir til að lengja líftíma þeirra. Ekki þótti ástæða til að henda þeim þótt þeir brotnuðu enda gátu þeir orðið eigendum sínum til gagns ef gert var við þá. 

Byggðasafn Austur-Skaftafellssýslu þakkar, öllum þeim sem gefið hafa muni á safnið á liðnum árum, kærlega fyrir.