LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Útskurður

Vefsýning
Sýningaraðili:
Byggðasafn Skagfirðinga

Sýningarstjóri:
Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Birt á vef:
12.7.2018

Útskurður var ein af þeim aðferðum sem Íslendingar notuðu öðrum fremur til að fegra umhverfi sitt í árhundruð. Viður var mest notaður til útskurðar, þá sér í lagi fura og greni sem ýmist rak á fjörur landsins eða var flutt inn, en einnig var skorið út í bein og horn. Helsta verkfærið sem notað var við útskurð var tálguhnífur, en til að ná leikni og nákvæmni við útskurð hefur fólk helst þurft að verða sér út um skurðarjárn. Íslenskur útskurður hefur þá sérstöðu að gripirnir voru í flestum tilvikum ómálaðir, en oftast voru málaðir, útskornir gripir handverk manna sem lært höfðu erlendis. Sjaldan eru gripirnir merktir höfundi en stundum er hægt að greina höfundareinkenni í stíl og myndmáli útskurðar.

 

Ekki er ljóst hversu algengt var að skera út innanstokksmuni og líklegt er að útskornir gripir hafi varðveist umfram þá sem óútskornir voru. Einnig er líklegra að útskornir gripir hafi verið til á efnaðari heimilum en síður í eigu almennings. Útskornir munir eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Útskurður gat farið frá einföldum stöfum til hinna fegurstu mynstra og kynjamynda.

 

Þegar útskurðargripir eru skoðaðir kemur fljótt í ljós að fólk hefur skreytt nytjahluti sem og húsgögn og skrautmuni. Askar, blöndukönnur, öskjur, snældur, rúmfjalir, kistlar, spænir og nálhús eru dæmi um muni sem hafa varðveist fram til okkar daga, eflaust í mörgum tilfellum einmitt vegna útskurðarins sem þá prýðir. Hér fyrir neðan má finna smá umfjöllun um nokkra nytjahluti fyrri tíma.

 

Rúmfjalir voru lausar fjalir sem hafðar voru í fletum og voru þær til margs nystamlegar. Þær voru settar niður með rúmstokknum yfir nóttina, til að halda rúmfötunum á sínum stað og yfir daginn voru þær lagðar upp við vegg svo að hægt væri að sitja á rúmbríkinni. Þá var hægt að leggja fjölina í kjöltuna og nota sem borð. Engar tvær rúmfjalir eru eins, hver hefur sína sérstöðu. Yfirleitt voru þær úr furu. Flestar rúmfjalir sem varðveist hafa eru frá 18.-19. öld, og einstaka frá 17. öld. Rúmfjalir gátu verið einfaldar og lítið skreyttar eða fagurlegar útskornar. Oft voru rúmfjalir skreyttar með jurtateinungi, kynjamyndum, ártali eða áletrun (oft með höfðaletri) s.s. fangamarki eða bæn. Þær voru oft merktar eigendum sínum (líkt og margir útskornir gripir voru) og með persónulegri hlutum sem fólk átti.

 

Askar voru kringlótt, stafbyggð ílát með gjörðum og voru matarílát síns tíma. Lokið var oft útskorið, en stafirnir (hliðar asksins) óskreyttir. Hver og einn átti sinn ask og spón (matskeið þess tíma). Spænir voru iðulega gerðir úr hornum nautgripa eða hrútshorni, margir hverjir útskornir með höfðaletri, fangamarki eða ártali á skafti. Askar og spænir voru í notkun fram til loka 19. aldar og sumstaðar fram á 20. öld.

 

Smjöröskjur voru sporöskjulaga eða kringlótt ílát, gerð úr sviga (þunnum viði sem þægilegt var að beygja) og oft var á lokum einfaldur útskurður. Smjöröskjulokin voru oftast svolítið kúpt, en traföskjur voru með flötu loki. Traföskjur draga heiti sín af tröfum kvenna, klútum sem tilheyrðu höfuðbúnaði faldbúninga.

 

Kistlar, litlar kistur, voru notaðir til að geyma smáa persónulega hluti. Þeim var oft hægt að læsa. Í kistlum var stundum handraði, lítið hólf, við annan endann, þar sem hægt var að geyma ýmislegt í smærra lagi. Stundum var hólf í loki og þar var hægt að geyma t.d. bréf. Kistlar voru oft fagurlega útskornir (sjá sýningu Byggðasafns Skagfirðinga: Komdu og skoðaðu´í kistuna mína).

 

Halasnældur voru áhöld til ullarvinnu, en fyrrum var ullin kembd og garnið svo spunnið með snældu eða rokk. Halasnældan fluttist til Íslands með landnámsmönnunum og var notuð fram á 20. öld. Snældan var samsett úr sívölum teini (sem kallast hali) og á öðrum enda hans var krókur (hnokki) og snældusnúður; hálfkúla eða skífa úr beini, steini eða viði. Útskurð var einkum að finna á snældusnúðnum ofanverðum.

 

Gripirnir sem hér eru sýndir eru varðveittir hjá Byggðasafni Skagfirðinga

(Nánari upplýsingar um innanstokksmuni híbýla fyrri alda má m.a. finna í bókinni Hlutavelta tímans og Riti Byggðasafns Skagfirðinga 2: Þrif og þvottar í torfbæjum)