Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Daguerreótýpur í Ljósmyndasafni Íslands

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Inga Lára Baldvinsdóttir

Birt á vef:
23.11.2018

180 ár eru í ár liðin frá því að ný tækni var kynnt fyrir heiminum og öllum gert kleift að nýta sér hana. Tæknin var fólgin í því að búa til ljósmyndir af fólki, stöðum og hlutum á silfurplötu með því að gera hana ljósnæma, taka mynd á myndavél með því að opna ljósop inn á plötuna og festa síðan myndina á plötuna með efnablöndu. Aðferðin er kennd við Frakkann Louis Daguerre, sem fann þessa aðferð upp, og myndin er nefnd daguerreótýpa. Íslendingar kynntust þessari aðferð fyrst hjá erlendum mönnum bæði í Danmörku, þar sem þeir voru við nám eða sinntu erindum í starfi eða einkalífi, og á Íslandi, þangað sem ferðamenn komu með ljósmyndavélar með sér. Daguerreótýpur voru teknar um allan heim og flestar þeirra  voru af fólki. Samhliða stækkandi borgarastétt í Evrópu óx markaður fyrir mannamyndir og þó að daguerreótýpur væru framan af dýrar voru þær ódýrari heldur en málaðar smámyndir sem áður höfðu verið eftirsóknarverðar sem stöðutákn og minjagripir. 

Þegar frá leið lærðu tveir íslenskir ljósmyndarar að taka ljósmyndir með þessari aðferð, þeir Helgi Sigurðsson og Siggeir Pálsson, sem báðir áttu eftir að verða prestar. Engar frummyndir eftir þá hafa varðveist. 

Vitað er um tvær útimyndir frá Íslandi sem teknar voru með þessari aðferð. Þær eru báðar frá Reykjavík og eru varðveittar á safni í París. Á Íslandi er vitað um innan við 30 ljósmyndir sem teknar voru með daguerreó aðferðinni. 21 slík mynd er varðveitt í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni, tvær á Landsbókasafni Háskólabókasafni, tvær á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og vitað er um fáeinar í einkaeigu. Í tilefni af 180 ára afmælinu hefur verið unnið að frekari skráningu á þessari 21 mynd og jafnhliða verið skráðar eftirtökur þriggja daguerreótýpa í frönskum söfnum og fimm pappírsmyndir sem gerðar voru eftir daguerreótýpum sem ekki hafa varðveist.

Ljósmyndun var ein af fáum tækninýjungum sem Íslendingar tileinkuðu sér á 19. öldinni. Hún er jafnframt ein af þeim tækninýjungum sem mestu hafa breytt í heiminum og því hvernig við sjáum hann. Þess sér nú stað í öllum samskiptum fólks og daglegu lífi þess.