LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Hvað varð um öskupokana?

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir Sesseljudóttir

Birt á vef:
21.2.2020

Að hengja öskupoka á fólk er séríslenskur siður sem þekkist ekki annars staðar. Siðurinn varð vinsæll fyrir um 150 árum síðan en síðustu árin hefur hann óðum verið að hverfa, kannski vegna þess að erfitt hefur reynst að fá títuprjóna sem hægt er að beygja? Takmarkið var að ná að hengja pokann á fólk án þess það yrði þess vart. Öskupokarnir héngu í bandi og á enda þess var festur boginn títuprjónn sem notaður var sem krækja, einföld og afar hentug leið til að framkvæma verknaðinn án þess að eftir væri tekið.

Lengi vel áttu stelpur að setja ösku í sína öskupoka, hengja þá á stráka og helst láta þá bera þá yfir þrjá þröskulda áður en þeir yrðu varir við öskupokana. Á sama hátt áttu strákar að setja smásteina í sína öskupoka og hengja þá á stelpur. Siðurinn þróaðist síðan yfir í að kyn þess er öskupokinn var hengdur á skipti ekki máli, heldur vakti það mesta kátínu að hún eða hann bæri pokann í sem lengstan tíma án þess að taka eftir honum.

Fyrir um hundrað árum síðan varð algengt að stúlkur saumuðu öskupoka úr fínum efnum, svo sem silki, og skreyttu þá með útsaumi eða málningu. Slíka poka þótti piltum aldeilis varið í að fá. Þeir skreyttu sig með þeim og hengdu jafnvel á veggina í herbergjum sínum. Síðar var farið að selja slíka poka í verslunum. Með tímanum urðu pokarnir þó einfaldari og látlausari en alla tíð voru þeir að mestu heimasaumaðir. Þá varð einnig algengt að börn færu saman og reyndu að hengja sem flesta poka á fullorðið fólk á ferli.

Þrátt fyrir að það þætti eilítið skammarlegt að ganga lengi úti við með öskupoka hangandi í fötum sínum, án þess að vita af því, vakti það þó alla jafna kátínu, bæði hjá þeim er hengdi og þeim er hengt var í, enda var þetta jú allt gert í spaugi.

Þó öskupokasiðurinn sé nú óðum að hverfa má enn sjá einn og einn poka á stangli, hangandi í grunlausum vegfarenda.

Hér má skoða og lesa um þá öskupoka sem varðveittir eru í Þjóðminjasafni Íslands, sem og nokkra aðra gripi tengda öskupokum.

/