LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Illeppar sem hlýjuðu fótum fyrr á öldum

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Heimilisiðnaðarsafnið
Byggðasafnið Reykjum
Byggðasafn Skagfirðinga

Sýningarstjórar:
Inga Katrín D. Magnúsdóttir
Elín Sigurlaug Sigurðardóttir
Birta Þórhallsdóttir
Berglind Þorsteinsdóttir

Birt á vef:
27.3.2020

Vefsýningin sem hér birtist er afrakstur samstarfs milli þriggja safna á Norðurlandi vestra; Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna, Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi og Byggðasafns Skagfirðinga. Munirnir sem hér eru til sýnis eru illeppar af ýmsum stærðum og gerðum sem söfnin varðveita. 

Illeppar, sem í daglegu tali eru nefndir leppar, eru varðveittir á mörgum söfnum landsins. Lepparnir áttu líka fleiri nöfn s.s. íleppar, skóleppar, sparileppar og hversdagsleppar. Þá var algengt að nefna þá „barða“ einkum á Suðurlandi sem og „spjarir“ norðanlands.

Lepparnir voru notaðir sem innlegg í skó og þóttu nauðsynlegir bæði í roðskó og sauðskinnsskó. Vermdu þeir fótinn auk þess sem mýkra var undir fæti. Eftir því sem skóbúnaður fólks breyttist var ekki lengur þörf fyrir leppana og í byrjun 20. aldar var notkun þeirra lítil. Þó var það til þess að konur notuðu leppa í inniskóna sína nokkuð fram eftir tuttugustu öldinni einkum ef skósólinn var þunnur.

Algengast var að leppar væru prjónaðir en þeir voru líka oft saumaðir úr bútum eða að voð var prjónuð og þeir sniðnir upp úr voðinni. Þá voru leppar stundum saumaðir upp úr gömlum fötum eða prjónatuskum en slíkir leppar voru eingöngu notaðir hversdags og fyrst og fremst til þægindaauka. Þannig var það líka með röndóttu garðaprjónsleppana sem oft voru prjónaðir í einu lagi langsum eða þversum en líka í þrennu lagi og þóttu góðir til hverdagsbrúks og voru sennilega þeir algengustu.

Sparilepparnir voru öllu skrautlegri. Þeir voru gjarnan prjónaðir með garðaprjóni í þrennu lagi, þ.e.a.s miðhlutinn var prjónaður fyrst og svo voru lykkjur teknar upp og þá prjónaðar totur. Í sumum tilfellum virðast þeir þó hafa verið prjónaðir í einu lagi og þá eftir fótlöguninni. Þessir leppar voru litríkir og skreyttir með munstrum, oft rósum s.s. áttablaðarós og nefndir rósaleppar. Sem dæmi um önnur munstur fyrir utan litríkar rendur má nefna tígla, kafla, stundaglös, blómakörfur og krossa en hugmyndir og litbrigði í munsturgerð virðast hafa verið ótrúlega fjölbreyttar. Algengast var að heklað væri í kringum leppana svo þeir héldu betur lagi en stundum var einnig prjónað þ.e. lykkjur teknar upp allt í kringum leppinn og prjónaður einn eða tveir garðar í kring.

Nokkuð var um að leppar væru saumaðir úr efnisbútum og voru þá kallaðir stykkjaleppar. Gjarnan voru þá nýttir bútar úr heimaofnu vaðmáli og eðli málsins samkvæmt var hægt að nota litla afgangsefnisbúta til verksins. Þessir leppar voru oftast nær búnir til úr fjórum stykkjum en stundum voru þeir einlitir og þá oft skreyttir með útsaumi. Lepparnir voru síðan fóðraðir og stundum var kappmellað í kringum þá en yfirleitt voru þessir leppar slyngdir. Þetta átti líka við um leppa sem sniðnir voru úr voð sem prjónuð hafði verið sérstaklega fyrir leppa. Var þá oftast nær miðað við tvo leppa, voðin prjónuð í hring, slétt prjón með tvíbanda munstri og svo klippt á milli. Lepparnir voru síðan þæfðir, sniðnir og fóðraðir með ullarefni og að lokum bryddaðir með slyngju.

Slynging er afar seinleg aðferð og gott þótti að tveir væru um verkið. Um er að ræða svokallaðan fótvefnað. Í bókinni Vefnaður á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar eftir Halldóru Bjarnadóttur (bls. 98) segir svo: Þetta er einn hinn einfaldasti vefnaður íslenzkur, en hefur lengi, óvíst hve lengi, tíðkazt á Íslandi. En jafnvel á hinum minnstu hlutum komst listhneigð íslenzkra kvenna að. Það eru aðeins 8 þræðir á slöngunni, tveir litir, sem fara vel saman, togband eða þelband, tvinnað. Ofið á fæti. Saumað við brúnina á illeppunum jafnóðum og skil er tekið. Úthverfunni snúið að sér, meðan á vinnunni stendur.

Algengt var að hankar væru á leppunum til að binda þá saman og hengja upp til þerris eftir notkun eða þvott. Hankarnir hétu ýmsum nöfnum s.s. tengslar, snúrur, endar, stög eða lengjur.

Að lokum – lepparnir okkar sem hlýjuðu fótum barna og fullorðinna fyrr á öldum eru rammíslenskur menningararfur. Í rendur, rósir og margskonar munstur voru gjarnan nýttir ýmiskonar garnafgangar og í saumuðu leppana heimaofnir efnisbútar. Fallegir leppar voru oft nýttir til gjafa og dæmi eru um að sum hjónabönd hafi orðið til fyrir tilstilli fagurlega prjónaðra leppa.

Hér er aðeins stiklað á stóru um þennan einstaka menningararf sem núlifandi kynslóð þekkir lítið til.

Til meiri fróðleiks má benda á bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi eftir Héléne Magnússon og bókina Vefnaður á íslenskum heimilum á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar sem Halldóra Bjarnadóttir tók saman og var endurútgefin á vegum Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi árið 2009.

Samantekt: Elín S. Sigurðardóttir.