LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Sölvi Helgason

Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir Sesseljudóttir

Sýningartími:
16.08.2020 - 16.08.2021

Alþýðulistamaðurinn, flakkarinn, heimspekingurinn og sérvitringurinn Sölvi Helgason (Sólon Íslandus) fæddist í Skagafirði fyrir 200 árum, þann 16. ágúst 1820.

Í Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt stærsta safn verka eftir hann, tæplega 150 myndverk og mikill fjöldi ritaðra blaða með smáskrift Sölva.

Nú hafa skráningar allra myndverka Sölva í vörslu Þjóðminjasafnsins verið myndvæddar, auk nokkurra ritaðra blaða. Hér gefst tækifæri til að virða fyrir sér myndheim þessa einstaka listamanns sem naut ekki viðurkenningar í lifanda lífi. Sölvi gerði uppreisn gegn tíðarandanum en uppskar lítið annað en hrakningar og pyntingar.

Stóran hluta verka sinna bar Sölvi á bakinu á flakki sínu um landið, í flötum kassa sem hann kallaði „sálina hans Sölva“. Hólmfríður Hjaltason hitti Sölva nokkrum sinnum þegar hún var á barnsaldri, hann þá kominn á efri ár. Einu sinni sem oftar gægðist hún yfir öxl hans þegar hann var að mála, lét hrifningu sína í ljós og hrópaði upp:

-          En hvað þessi blóm eru falleg!

Þá leit öldungurinn upp, og augu hans leiftruðu kynlega, er hann sagði í óvanalega þýðum rómi:

-          Þetta eru rósir, barnið gott. [i]

 [i] Elínborg Lárusdóttir. Tvennir tímar. Endurminningar Hólmfríðar Hjaltason. 2. útg. 2017, bls. 96.