Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Bertel Thorvaldsen og verk hans á Íslandi

Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands
Listasafn Íslands

Sýningarstjórar:
Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir Sesseljudóttir
Dagný Heiðdal

Sýningartími:
19.11.2020 - 19.11.2021

Myndhöggvarinn Bertel Thorvaldsen (1770–1844) var einn þekktasti listamaður Evrópu um sína daga. Hann sótti innblástur til klassískrar myndlistar Forn-Grikkja og Rómverja og er talinn einn helsti fulltrúi nýklassíska stílsins í höggmyndalist ásamt hinum ítalska Antonio Canova. Thorvaldsen var lengst af búsettur í Róm og vann þar meðal annars verk fyrir páfann, Napóleon og margar af konungsfjölskyldum álfunnar. Er hann eini myndhöggvarinn sem á verk í Péturskirkjunni í Róm sem er ekki kaþólskur. Finna má verk Thorvaldsens um allan heim, ýmist í söfnum, kirkjum eða utan dyra. Thorvaldsenssafnið í Kaupmannahöfn varðveitir verk Bertels Thorvaldsen og heldur minningu hans á lofti. Er listamaðurinn jarðsettur í garði safnsins.

Bertel Thorvaldsen fæddist í Kaupmannahöfn 19. nóvember árið 1770 og ólst þar upp. Faðir hans, Gottskálk Þorvaldsson, prestssonur úr Skagafirði, var fæddur árið 1741. Fór hann ungur til iðnnáms í Kaupmannahöfn og lærði myndskurð í tré og vann síðar við að skera út stafnmyndir á skip og höggva í stein. Móðir Bertels hét Karen Dagnes, fædd á Jótlandi 1735 þar sem faðir hennar var djákni. Þau hjónin bjuggu við frekar þröngan kost en snemma komu listrænir hæfileikar einkasonarins í ljós og hóf hann nám við Kunstakademiet eða Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn árið 1781, aðeins 11 ára að aldri, og lauk þar námi árið 1793. Hlaut hann fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín, meðal annars ferðastyrk sem gerði honum kleift að fara til Rómar árið 1796. Borgin var þá háborg menningar og lista og bjó Thorvaldsen þar við góðan orðstír allt til ársins 1838 er hann flutti aftur til Danmerkur og var honum þá fagnað sem þjóðhetju.

Bertel Thorvaldsen gerði rúmlega 90 frístandandi höggmyndir, tæplega 300 lágmyndir og yfir 150 brjóstmyndir auk mikils fjölda af teikningum, skissum og módelum. Í safni Thorvaldsens eru varðveittar upprunalegar gifsmyndir af flestum verka hans, en þar má einnig sjá mörg verk hans höggvin í marmara eða steypt í brons. Thorvaldsen varð á sínum tíma einn eftirsóttasti myndhöggvari Evrópu og fékk pantanir frá konungshirðum og aðalsfólki víðs vegar að. Mörg helstu verk hans sækja efnivið sinn og fyrirmyndir í grísk-rómverska goðafræði og kenningar Winckelmanns og Lessings um yfirburði grískrar klassískrar höggmyndalistar þar sem lögð var áhersla á hreinleika marmarans og fullkomnun formsins.

Hér á landi má víða sjá eftirmyndir af verkum Thorvaldsens og í Reykjavík eru þrjár bronsafsteypur af verkum hans í almannarými: sjálfsmynd í Hljómskálagarðinum, Kristmynd við Fossvogskirkju og Adonis í Hallargarðinum. Auk þess eru þrjú verka Thorvaldsens höggvin í marmara í opinberri eigu: Ganymedes í eigu Listasafns Íslands nú til sýnis í Safnahúsinu við Hverfisgötu, Merkúr sem Argosbani sem er varðveitt í Verzlunarskóla Íslands og að lokum þekktasta verk hans hér á landi skírnarfonturinn í Dómkirkjunni sem Bertel Thorvaldsen gaf ættlandi sínu, Íslandi, árið 1827 eins og áletrun á bakhlið hans segir til um. Í kirkjugörðum landsins má auk þess sjá lágmyndir Thorvaldsens á fjölmörgum legsteinum og í söfnum landsins eru varðveittar ýmsar eftirgerðir af vinsælustu verkum hans. Með þessari vefsýningu í Sarpi, sem er sett saman í tilefni af því að 250 ár eru liðin frá fæðingu Bertels Thorvaldsen, gefst tækifæri til að skoða verk listamannsins í Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni Íslands auk muna og ljósmynda sem tengjast Thorvaldsen og verkum hans hér á landi. Til dæmis varðveitir Þjóðminjasafnið hárlokka listamannsins og andlitsmyndir úr einkaeigu sem bera vitni um hversu vinsæll hann var meðal landsmanna og vel metinn.

/