Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Prjónað af fingrum fram

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Þjóðminjasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Inga Lára Baldvinsdóttir

Birt á vef:
2.12.2020

Prjón hefur fylgt Íslendingum frá því á fyrri hluta 16. aldar, þegar það barst til landsins með erlendum kaupmönnum. Hvað er varðveitt í Þjóðminjasafninu sem er til vitnis um prjónaskap Íslendinga? Það er auðvitað prjónlesið sjálft. Elsti prjónaði gripurinn er belgvettlingur sem fannst í uppgreftri á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum og er talinn vera frá 16. öld. Síðan eru það verkfærin, sjálfir prjónarnir. Prjónar hafa einnig fundist í uppgröftum og eru þeir elstu sem heimildir eru um frá Kirkjubæjarklaustri. Það eru koparprjónar frá 16. öld. Prjónar gátu auðveldlega týnst og því urðu prjónastokkar, ílát fyrir prjóna, hluti af fábreyttu eignasafni fólks. Gott úrval fagurlega útskorinna prjónastokka er varðveitt og vitnar um hagleik útskurðarmanna og þá kúnst að gera hvunndagsgripi að listgripum.

Eftir að ljósmyndaöldin rann upp er til úrval ljósmynda, þó lítið sé, af fólki með prjóna eða að prjóna. Elsta myndin er af Guttormi Pálssyni presti á Ási í Fellum í hempu en liggjandi í kjöltu hans eru prjónar og eitthvað sem hann hefur verið að prjóna. Guttormur varð blindur og vitneskja er um að hann prjónaði sér til afþreyingar. Myndirnar af fólki að prjóna eru skemmtilega fjölbreyttar. Af konu og stelpu að prjóna í baðstofu í lok 19. aldar og líka í byrjun þeirrar tuttugustu, litlum krökkum með prjóna, af konum að prjóna í pásu frá síldarsöltun, af konu að prjóna á göngu á milli bæja, af karli að prjóna. Sagt er að nú sé prjónað á Íslandi sem aldrei fyrr. Skyldi mikið vera tekið af myndum af fólki að prjóna?