LeitaVinsamlega sýnið biðlund

40 ára afmælissýning Gangsins

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Dagný Heiðdal

Birt á vef:
2.3.2021

Síðustu fjóra áratugi hefur Helgi Þorgils Friðjónsson, myndlistarmaður, haldið sýningar á heimili sínu og ber þetta óhefðbundna sýningarrými heitið Gangurinn. Gangurinn hefur ætíð verið rekinn af hugsjón og ástríðu Helga Þorgils fyrir myndlist og framgangi íslensks myndlistarlífs og hefur hann sjálfur staðið undir öllum kostnaði af rekstri Gangsins. Eins og nafnið ber með sér hefur rýmið verið takmarkað en sýningarnar hafa verið fjölbreyttar og í gegnum árin hefur Helgi Þorgils kynnt mikinn fjölda áhugaverðra listamanna og verk þeirra fyrir Íslendingum.

Árið 2020 var haldið upp á 40 ára afmæli Gangsins með sýningu á verkum þeirra erlendu listamanna sem hafa átt verk á sýningum Gangsins í gegnum tíðina. Var þeim boðið að taka þátt í afmælissýningunni og brugðust þeir afar vel við en allir sem til náðist sendu verk á sýninguna, sem þeir jafnframt gáfu þeim hjónum, Helga Þorgils og Rakel Halldórsdóttur, til eignar. Tveimur íslenskum listamönnum var jafnframt boðin þátttaka. Annar þeirra er Hreinn Friðfinnsson, sem sýndi fyrstur allra í Ganginum og sem búið hefur og starfað mestan hluta starfsævi sinnar í Hollandi. Einnig var Victor Cilia boðin þátttaka. Hann er íslenskur en á maltverskan föður.

40 ára afmælissýning Gangsins opnaði fyrst á heimili þeirra Helga Þorgils og Rakelar að Brautarholti 8 í Reykjavík þann 29. maí 2020, önnur opnun var 24. september og þriðja opnun hinn 3. desember sama ár. Sýningarlok voru á þrettándanum, þann 6. janúar 2021. Árið 2020 geisaði kórónuveirufaraldurinn um heim allan og höfðu samkomutakmarkanir áhrif á framgang opnana og sýningarinnar, sér í lagi á aðra og þriðju opnun. Þá hafði faraldurinn einnig töluverð áhrif á sendingar milli landa og tók það sum verkin vikur, jafnvel mánuði að berast á sýninguna.

Að loknu afmælisárinu gáfu þau Helgi Þorgils og Rakel verkin af sýningunni til Listasafns Íslands.

Eru það samtals 117 listaverk eftir 84 listamenn frá 22 löndum. Þessi höfðinglega gjöf til íslensku þjóðarinnar er mikilvæg viðbót við safnkost Listasafns Íslands og þýðingarmikil heimild um framlag Gangsins til aukinnar fjölbreytni listalífsins hér á landi undanfarin 40 ár.