LeitaVinsamlega sýnið biðlund

Endurskoðun, uppgjör og innrás abstraktsins.

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Listasafn ASÍ

Sýningarstjóri:
Elísabet Gunnarsdóttir

Birt á vef:
23.4.2021

Endurskoðun, uppgjör og innrás abstraktsins. Nokkur verk frá árunum 1941-49 eftir Svavar Guðnason, Þorvald Skúlason, Jón Engilberts, Nínu Tryggvadóttur og Louisu Matthíasdóttur.

Verkin á sýningunni eru eftir listamenn sem báru með sér nýja strauma inn í íslenskt listalíf um miðja síðustu öld. Þorvaldur Skúlason og Jón Engilberts fluttu heim frá Kaupmannahöfn í stríðsbyrjun og þær Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir fluttu einnig heim um það leyti. Svavar Guðnason varð hins vegar innlygsa í Danmörku og kom ekki heim fyrr en í stríðslok. Svavar var félagi í Höst-hópnum með framsæknum dönskum listamönnum, sem m.a. stóð að útgáfu tímaritsins Helhesten. 

Svavar er sá myndlistarmaður íslenskur sem hefur vakið hvað mesta athygli erlendis og var mikill brautryðjandi í íslenskri list á 20. öld. Þegar Svavar Guðnason flutti heim með fyrsta skipi eftir stríðslok 1945 flutti hann með sér talsvert af verkum sem hann sýndi í Listamannaskálanum í ágúst 1945. Eftir einangrun stríðsáranna gafst Íslendingum þar kostur á að sjá sjálfsprottna abstraktlist í fyrsta sinn. 

Sýning Svavars í Listamannaskálanum markaði tímamót, því með henni hófst samfelld saga íslenskrar abstraktlistar, sem átti eftir að fá mikið vægi í íslenskri myndlist næstu áratugina. Verk Svavars eru sýnd hér með verkum samtímamanna sem unnin eru á svipuðum tíma. Abstraktið átti eftir að hafa mikil áhrif á verk þeirra flestra næstu árin.

Öll verkin á sýningunni tilheyra stofngjöf Ragnars Jónssonar í Smára til Alþýðusambands Íslands sem lagði grunninn að stofnun Listasafns ASÍ sumarið 1961.

Verkin voru sýnd í Svavarssafni á Höfn í Hornafirði 29. ágúst – 18. desember 2020.  


Heimildir:

SVAVAR GUÐNASON (2009) - Kristín G. Guðnadóttir

GJÖFIN TIL ÍSLENZKRAR ALÞÝÐU (2019) – Kristín G. Guðnadóttir

HANN KVEIKTI ELDINN – minningargrein Braga Ásgeirssonar um Svavar Guðnason í Morgunblaðinu 1988