Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Fjársjóður þjóðar í Safnahúsinu

Sýningaraðili:
Listasafn Íslands

Sýningarstjóri:
Dagný Heiðdal

Sýningartími:
05.06.2021 - 2022

Fjársjóður þjóðar í Safnahúsinu

Listasafn Íslands sýnir perlur íslenskrar listasögu í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Í húsinu er að finna listaverk frá síðari hluta 19. aldar til dagsins í dag sem endurspegla fjölbreytt viðfangsefni listamanna og gefst gestum hússins kærkomið tækifæri til að skoða mörg af helstu listaverkum þjóðarinnar. Þann 1. mars 2021 var Safnahúsið afhent Listasafni Íslands. Það er fyrsta safnbyggingin sem var reist hér á landi og var hún vígð árið 1909 og hefur hýst ýmsar merkar menningarstofnanir síðan. Þessi glæsilega bygging gerir nú Listasafni Íslands kleift að sýna að staðaldri lykilverk úr safneigninni og bætir úr bráðri þörf safnsins fyrir húsnæði til sýningahalds.

Í ólíkum sölum á efri hæðum má sjá upphafningu frumherja málaralistar á náttúru landsins þar sem töfrar íslensku sumarnæturinnar láta fáa ósnortna. Landslagið, náttúran og túlkun hennar hefur verið stöðugt viðfangsefni íslenskra listamanna. En fleiri þemu er að finna í húsinu þegar gengið er um. Fólkið í landinu hefur verið mikilvægt viðfangsefni margra listamanna í gegnum tíðina og á fyrstu hæð hússins getur að líta mannlífsmyndir af íslenskri alþýðu til sjávar og sveita ásamt tjáningarríkum mannamyndum.
Einnig má sjá kyrralíf eða uppstillingar þar sem listamaðurinn glímir við hversdagslega hluti í nærumhverfinu, liti, lögun og margbreytilegt yfirborð en síðast en ekki síst er hér úrval abstraktverka en Listasafn Íslands á geysilega gott safn abstraktlistar.


Efsta hæðin í Safnahúsinu var löngum vinsæll útsýnisstaður þar sem húsið gnæfði yfir lágreistri byggð. Þar gefst gestum kostur á að líta út um gluggana yfir höfnina og sundin blá og sjá með eigin augum það sjónarspil sem hefur veitt mörgum myndlistarmönnum innblástur eins og listaverkin bera vitni um.

Sýningin Fjársjóður þjóðar í Safnahúsinu varpar ljósi á þá dýrmætu safneign sem Listasafn Íslands býr yfir um leið og myndlistin endurspeglar tíðarandann hverju sinni enda er listin í stöðugu samtali og endurnýjun, í takt við samfélagið allt.

/