Leita



Vinsamlega sýnið biðlund

Gluggi í Reykjavík

Vefsýning
Sýningaraðilar:
Listasafn Íslands

Sýningarstjórar:
Ragnheiður Vignisdóttir
Guðrún Jóna Halldórsdóttir

Birt á vef:
25.2.2022

Sýningin Gluggi í Reykjavík samanstendur af úrvali verka eftir Ásgrím Jónsson sem eiga það sameiginlegt að tengjast nærumhverfi listamannsins í Reykjavík. Verkin eru úr safneign Listasafns Íslands en Ásgrímur ánafnaði íslensku þjóðinni öll listaverk sín ásamt húseign sinni að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík.

Ásgrímur Jónsson (1876–1958) er einn af brautryðjendum íslenskrar listasögu og varð fyrstur íslenskra málara til að gera listina að aðalstarfi sínu. Hann fæddist í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa og stundaði nám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn á árunum 1900–1903. Að námi loknu dvaldi hann um skeið í Danmörku og ferðaðist suður á bóginn, meðal annars dvaldi hann eitt ár á Ítalíu og staldraði einnig við í Þýskalandi. Ferðalögin veittu honum innblástur þar sem honum gafst færi á að sjá verk frönsku impressjónistanna sem höfðu mótandi áhrif á listsköpun hans síðar meir. Íslensk náttúra var meginviðfangsefni Ásgríms auk þess sem hann var frumkvöðull í túlkun íslenskra þjóðsagna og ævintýra.

Ásgrímur sneri aftur til Íslands árið 1909, 33 ára að aldri, og bjó í Reykjavík. Fyrst í Vinaminni í Grjótaþorpinu en árið 1928 reistu þeir Ásgrímur og Jón Stefánsson listmálari sér parhús við Bergstaðastræti 74 eftir teikningu Sigurðar Guðmundssonar arkitekts. Ásgrímur hafði þann háttinn á að ferðast um landið á sumrin með trönurnar og halda síðan sýningu um páskana en fjölmargar myndir frá Reykjavík og nágrenni bera því vitni að honum var einnig hugað um sitt nánasta umhverfi.

Útsýnið úr glugganum í Vinaminni þar sem hann bjó fyrst eftir heimkomuna varð honum tamt mótív þar sem Reykjavíkurhöfn og Esjan blasa við. Einnig varð útsýnið til suðurs úr þakglugga vinnustofunnar við Bergstaðastræti honum að innblæstri síðar. Vatnslitirnir eru þá viðeigandi þar sem hann fangar birtuna yfir Skerjafirðinum og húsin við Laufásveginn. Ævistarf Ásgríms, list hans, spannar langt tímabil í sögu þjóðarinnar, tíma þegar sveitasamfélagið byrjar að leysast upp og Reykjavík að breytast úr bæ í borg. Mörg málverka Ásgríms frá Reykjavík sem máluð eru á fyrri hluta 20. aldar sýna friðsaman smábæ þar sem húsin kúra við ysta sæ en þau lýsa einnig athafnalífi, svo sem mönnum að vinna við gatnagerð í borgarsamfélagi í mótun. Borið saman við Reykjavík í dag sjáum við að lágreist hús, hænsnakofar og hesthús hafa vikið fyrir uppbyggingu borgarinnar í takt við breytta lifnaðarhætti og nýja samgöngumáta. Sjónarhorn listamannsins þar sem horft er út um gluggann er algengt viðfangsefni í listasögunni. Nándin við listamanninn er mikil í þessum verkum og í húsi Ásgríms má út um glugga sjá sama sjónarhornið og Ásgrímur festi á striga og pappír. Sérstæð litbrigði húsanna í bænum njóta sín og þrátt fyrir breytta tíma eimir enn eftir af þeirri Reykjavík sem Ásgrímur þekkti svo vel og í verkum hans má sjá mörg þekkt kennileiti borgarinnar í dag, svo sem Tjörnina, Fríkirkjuna, Þingholtin og Grjótaþorpið í Reykjavík. 

/