Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Karlkyns / 1896

Nánari upplýsingar

Númer1806/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1806

p1
Sumardagurinn fyrsti var börnum og unglingum tilhlökkunarefni en fullorðnum þá umhyggjuefni því hátíðabrigði voru nokkur í mataræði og þokkað til í húsakynnum. Allt fékk þetta annan svip ef tíðin var slæm. Dreymt hefur fólk fyrir sumri, og þar um rætt, en miklu tíðar og áberandi fyrir vetri. Áhyggjur um vetrarafkomu hafa verið ærinn efniviður í drauma. Vissar draummyndir höfðu og hafa enn nokkuð ákveðnar merkingar t.d. boðuðu ölvaðir menn í draumi rigningu og því asalegra úrfelli sem þeir létu meir. Að deyma mikla hvíta ull eða hey um völl þótti gjarnan boða vetrarfar og fannir. Sumarboðar voru manni farfuglarnir sjálfsagðir og tímabærir gestir í góðviðrum, en heilsað fagnandi með spurningunni. Eruð þið nú ekki of bjartsýnir blessaðir? ef tvíveðrungur var á tíðinni.

p2
Sumarmálahret var að ókomnu venjulega talið það sem við mætti búast, þó að einmánaðartíð væri góð. En væri hún slæm var tíðum sagt og er, að þessu haldi hann til sumarmála eða að hann batni ekki fyrr en með sumarmálum. Slæmt þótti að þurfa að segja: Bara að hann versni nú ekki úr sumarmálunum. Þannig voru og eru sumarmál hér um slóðir viðmiðunartími með tíðarfar sem og fleiri tímamót. Auk þess algenga sumarmálahrets fylgdu tíðum önnur á eftir, auk grásleppudrifanna,sem voru vægari fyrirbrigði. Páskahret, hvítasunnuhret og jafnvel Jónsmessuskuna voru og til í tíðarfarinu. En fyrst og fremst og alla jafna óvægast var hrafnahretið, sem tengt var sögninni um varptíma hrafnsins 9 nóttum fyrir sumar.

p3
Sumartunglið var vissulega eitt af þeim merkilegustu þótt mörg hinna hefðu veigamikið sérstöðugildi. T.d. þóttu fyrstu sumarvikurnar fara nokkuð eftir því hvernig hann tæki fyrsta sumartunglinu. Að svara í sumartungl er hér almennt þekkingaratriði fullorðnu fólki, þótt ekki sé lengur iðkað, en áður fyrr var sú venja meir í förum og síður en svo einskis virði. Dæmi frá 2. áratug aldarinnar: Ég fletti spýtu um þveran gangveg, þar kemur amma mín að þegjandi, því það var nausynlegt til að fá tunglsvar. Þá kippi ég spýtunni til hliðar og segi: Þú kemst inn fyrir. Segir hún þá og heldur alúðlega: Þú svaraðir mér fallega í sumartunglið núna. Sumargjafir hafa tíðkast hér eitthvað fram eftir áratugum aldarinnar. Til þeirra hluta þá helst notuð plögg til handa og fóta svo sem rósavettlingar eða leppar eða litaðir sokkar, jafnvel skór bryddaðir. Var þetta aðallega gert til barna nema ef fullorðnir vildu nota tækifærið til vinahóta eða umbunar. Helgakver fékk ég í sumargjöf.

p4
Veitingar voru á sumardaginn fyrsta breyttar frá þeim hversdagslegu og urðu er árin liðu frá aldamótum því breyttari sem úrkosta var fleiri völ. Stundum voru heimboð bæja milli þennan dag og tóku þau venju fremur til barna. Sumarnóttin fyrsta var vissulega gaumgædd um hvort saman hefði frosið vetur og sumar, þe. ef ekki var áður samfrosta. En er þessu haldið við sem teikni í tali fólks, en því fylgir ekki sams konar áhugi og áður fyrr, þegar fólk hafði nokkra tilhneigingu til að meta þetta sem hagstæða gamla reynslu, því þetta var talið boða gott sumar undir bú, þe. góð afnot málnytupenings. Kannski rjóminn á trogunum hafi átt að fara nokkuð eftir þykkt sumarnæturskænis og vetrar. Ég hef aðeins heyrt af umtali án þess dæmi væru nefnd að ílát hafi verið sett út sérstaklega til að athuga þessa samfrostun sumars og vetrar.

p5
Sumardagurinn fyrsti var ungum sem eldri hvati til að rísa heldur fyrr en seinna úr rekkju, heilir og afþreyttir, ef veður var gott. Þótti betur fara á því og votta sumarhuga vakinn. Gengingamenn héldu háttum sínum og urðu gjarnan fyrstir til að bera sumar í bæinn, ef sumar skyldi kalla, þá veður var vont. Húsfreyjan bjóst snemma á fætur þennan dag sem aðra, bjó fólki sínu hressingu, þótt hún gengi í sumum tilvikum til mjalta. Vissulega voru kveðjur milli heimilisfólks að morgni fyrsta sumardags fluttar af meiri alúð og léttleik en hversdagslega, sérstaklega milli foreldra og barna. Talað var um að fagna sumri, helst ef um félagslegar tiltektir var að ræða, en að heilsa sumri einstaklinglegar. Sagt var við börnin að fara nú að klæða sig.
Komast út og taka á móti sumrinu. Ekki var hægt að bjóða eða óska gleðilegs sumars, nema það væri sótt út og þá með signingu, þá morgna ekki síður en aðra, en misjafnlega rækt.

p6
Fram eftir fyrstu áratugum þessarar aldar var mjög algengt að fullorðið fólk signdi sig þegar það kom út á morgnana og foreldrar segðu þá við börn sín Guð gefi þér góðan dag og gleðilegt sumar þann dag. Aðrir nánir einnig. Börnum var líka sagt að signa sig. En þá þurfti auðvitað að vera búið að kenna þeim signingarnar. Þær fygldu oft fótaferð barna, t.d. áður en þau voru færð í bolinn. Sama tíðkuðu fullorðnir við bolskyrtuskifti. Þeir sem skiptust á sumarkveðjum undir beru lofti heima á bæ höfðu skipst á jöfnum kveðjum, en sá sem hafði fengið kveðju í bæinn varð að sækja sína út til þess að geta greitt út í jafngildu. Sumarglaðningur í mat og drykk fylgdi venjulegum matmálstímum, en kæmu góðir eða boðnir gestir var súkkulaði og kaffi með sætu brauði venjulega um miðjan dag. Þetta þegar við var haft og stundum meir. En vínneysla fylgdi þessu alls ekki. Þessar matarvenjur voru nokkuð breytilegar hjá fólki, og hjá sama fólki eftir breyttum og bættum efnahag. Ég hef hér helst í huga 2. og 3. áratuginn.

p7
Á sumardaginn fyrsta klæddust menn nokkuð betri fötum en hversdagslega. Sérstaklega var haldið til barna í þessu efni. Þeim jafnvel oft fundnar ýmsar smávegis nýjungar sem þá jöfnuðust til sumargjafa. Erfiðari störf voru látin niður falla, nema gegningar og málastörf, en þeir sem illa þoldu að sitja auðum höndum hugðu að ýmsu smálegu til handargangs og jafnvel því að láta innistöðufolöld og kindur, oft í dimmum húsum fara út í góða veðrið og sumarið þegar bauðst. Yngri menn, sem höfðu hesta á járnum brugðu sér gjarnan á bak eins þótt ríða þyrfti skaflajárnað. Ef börn og unglingar fóru bæja milli, voru hjá þeim algengir leikir, slagbolti, sto, kasta yfir húsþak, stórfiskaleikur, skessuleikur, hlaupa í skarð, stundum stökk og brá fyrir glímu. Hvað gerðir þú við peningana sem Frakklandsdrottning gaf þér í gær? þessi síðasti var eins oft innileikur sem og að kveðast á, skanderast og leita orða.

p8
Nýir hættir hafa komið til og þeir eldri þróast svo til breytinga að heildarsvipur sumardagsins fyrsta er nú allur annar en segjum fyrir hálfri öld. Sama birta er þó enn yfir deginum. Ungir em eldri vænta sér stærri sumargjafa en af meiri heimtufrekju og því minni sumargleði oft á tíðum. Áður fyrr var fyrsti sumardagurinn sjálfvirkur gleðivaki og fagnaðar ártíð, en nú er hann ennfremur orðinn hvati og vakningarhátíð gróandi þjóðlífs. ýmsum gömlum venjum hefur vaxið bæði inntak og umtak. Á fleiri vegu en um matarglaðning. Leikathafnir og dagsminni eru stærri í sniðum og fjölbreyttari vegna athafnagetu og auðugs félagslífs þéttbýlisins. En frum tengslin við sumarið sjálft hafa fengið nokkuð breytta gerð. Þá kom það jafnt til allra. Allir til færir gengu úr sínum bæjardyrum út í guðs víðan geiminn og signdu sig tíðast á vald þeirri forsjón sem sumarið gaf börnum til blessunar og vaxtar og fullorðnum til bjargar í bú.

p9
Á sumardaginn fyrsta voru húslestrar hér almennt lesnir. Það segist Guðrún á Svelgsá Jónasd. Sigurðssonar frá Helgafelli, nú yfir áttrætt, vel muna, að faðir hennar í vöntun misserisskipta hugvekja fékk þær lánaðar hjá sambýlisbóndanum í Undirtúni, heldur en láta lestur niður falla á sumardaginn fyrsta. Húslestrar munu fyrr hafa strjálast í þorpum en sveitum, en þó hafa haldist nokkuð fram að útvarpsmessum. Skútuskipstjórar hafa margir haldið þeim sið á vertíðum. Svo segir mér Jóhann Hansen, roskinn Stykkishólmsbúi, sem var á skútum um fermingaraldur að skútuskipstjórinn Sigurjón Kristjánsson af Hellsissandi, þá ungur og líklega lifandi enn, og Sturlaugur Einarsson frá Stykkishólmi hafi báðir lesið hásetum sínum húslestur. Sömuleiðis Skúli Skúlason frá Stykkishólmi að sögn gamals háseta hans. Nýlega var ég staddur þar á bæ sem 4 ára gamalt barn kom úr sjónvarpsstofunni í eldhús til mömmu sinnar og hvíslaði: Hann guð er kominn. Sjónvarpsmessan var að hefjast.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana