Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
EfnisatriðiSumardagurinn fyrsti
Spurningaskrá19 Sumardagurinn fyrsti

LandÍsland
Kyn / Fæðingarár
heimildarm.
Kvenkyns / 1888

Nánari upplýsingar

Númer1667/1969-1
AðalskráÞjóðhættir
UndirskráSpurningaskrár - Svör
SentMóttekið1.4.1969
Nr. 1667

p1
Sumardagurinn fyrsti: Þegar hrossagaukurinn var kominn á vorin var talið að öll hret væru úti. Ef blóm sáust nokkru fyrir sumarmál var álitið að koma mundu hret og blómin deyja. Almennt var álitið að oft kæmu hret kringum páska, sumarmál og hvítasunnu og drógu þau þá nafn sitt af þessum hátíðum. Var þá búist við betri tíð eftir hretin. Sumartunglið: Algengt var að láta svara sér í sumartunglið. Átti þá viðkomandi er hann sá meiri eða minni rönd af sumartunglinu í fyrsta skipti að gæta þess að segja ekki neitt fyrr en einhver hafði yrt á hann. Einhver spádómur um framtíð hans átti þá að felast í þeim orðum. Alkunn var sagan um stúlkuna sem kom inn frá að sjá tunglið og ætlaði að setjast á stólgarm. Sagði þá einhver við hana: "Varaðu þig, hann er valtur". Stúlkan var trúlofuð, en kærastinn sveik hana. Auðvitað átti sá sem svaraði öðrum í sumartunglið ekki að vita fyrirfram að svo væri. Oft hefur nú víst

p2
gleymst að hirða um þetta og fólkið verið búið að sjá sumartunglið og tala áður en athugað var um það, og þá var auðvitað ekkert að marka hvað sagt var. Sumargjafir voru gefnar, en engar sérstakar kaupstaðarferðir voru farnar þeirra vegna, enda voru í Tungusveitinni eða þar nálægt engar búðir á þessum árum, fyrir, um og eftir aldamótin. Aðeins komu skip með varning inn á Steingrímsfjörð að vorinu. Á fyrsta tugi 20. aldar var þó komin verslun á Hólmavík. Gjafirnar voru því mest heimaunnar, svo sem ofin axlabönd og sokkabönd, prjónaðir rósaleppar, plögg (sokkar og vettlingar) og skotthúfur. Ennfremur kistlar og aðrir smíðaðir hlutir. Seinna var svo farið að gefa smáhluti úr búð t.d. drengjum sjálfskeiðunga og telpum brúður eða annað við þeirra hæfi. Farið var mjög leynilega með gjafirnar til þess að þær kæmu á óvart. Gjafirnar voru þakkaðar með kossi. Engin sérstök regla var á því hverjir gáfu eða hverjum var gefið. Mun þó einkum hafa verið hugsað um að gleðja börn. Fólkið gaf hvað öðru og hefur þar mestu ráðið vinátta eða skyldleiki. Sumargjafirnar voru oft færðar í rúmið, amk. börnum.

p3
Veitingar voru svipaðar og á hátíðum. Hangikjöt, reyktir magálar, stórar, þykkar rúgmjölskökur (flatbrauð) og mjólkurgrjónagrautur með rúsínum. Með kaffinu voru kleinur og lummur. Voru lummurnar gerðar úr grjónamjöli, þe. möluðu bankabyggi og síðar úr hveiti. Sumardagsnóttin fyrsta. Ef rigndi fyrstu sumarnótt átti að verða vætusumar, en þurrkasumar ef frost var þá nótt. Var þá kallað að frysi saman sumar og vetur. Sumardagurinn fyrsti: Snemma var risið úr rekkju á sumardaginn fyrsta og reyndar alla daga. Margir trúðu því að fótaferðin allt sumarið yrði svipuð og þá. Sérstaklega áttu ungir piltar, sem þessi dagur var tileinkaður að fara snemma, á undan öðrum, og taka á móti hörpu. Ungar stúlkur áttu að taka á móti einmánuði. Bændur á móti góu og húsfreyjur á móti þorra. Áttu þessir aðilar, hver á sínum tíma helst að færa hinu fólkinu í rúmið kaffi, lummur og kannski fleira. Út af þessu brá þó, þegar fram í sótti og er auðvitað úr sögunni fyrir mörgum tugum ára. En jafvnel enn þá gera sumir sér smávegis

p4
dagamun í byrjun útmánaða, einkum í sambandi við kaffiveitingar. Venjulega fóru húsbóndinn og húsmóðirin fyrst á fætur, þótt til væru undantekningar. Á sumardaginn fyrsta bauð heimilisfólkið hvert öðru góðan dag og gleðilegt sumar með kossi. Samskonar kveðjur tíðkuðust á hátíðum. Nónmatur var borðaður kl. 3 og á þeim tíma var sumardagsskammturinn gefinn. Fólkið bjó sig í betri föt þennan dag og vinna féll niður víðast hvar nema nauðsynlegustu störf, því að hjúin fengu frí, máttu vinna fyrir sig ef þau vildu. Þetta var þó ekki alls staðar eins, sumir hafa víst látið vinna eitthvað jafnvel byrja að vinna á túnum, ef veður leyfði. Oft var farið í leiki á sumardaginn fyrta og tóku þátt í þeim bæði börn og fullorðnir, sem eitthvða gátu hreyft sig, því þetta voru útileikir þegar gott var veður. Fólk reyndi að láta sér líða sem best, því það hafði trú á að líðan þess mundi verða svipuð allt sumarið og þennan dag. Leikirnir sem farið var í voru t.d. útilegumannaleikur, fuglaleikur, stórfiskaleikur og skessuleikur. Húslestur var lesinn þennan dag, snemma á morgnana,

p5
helst áður en fólkið fór á fætur og þá voru sungnir sumarkomusálmar. Sumar konur fóru í húsin með bændum sínum til að skoða heybirgðir og fénað, annað hvort á sumardaginn fyrsta eða öðrum tímum. Þekktum ekki neina fasta reglu á því. Þennan dag var auvitað rætt um daginn og veginn eins og nú á dögum og þá um komandi sumar og útlit þess. Veðrið 1. og 3. sumardag átti að vera þýðingarmikið upp á sumarið. Engin önnur nöfn voru á sumardeginum fyrsta en mánaðarnafnið harpa. Nýir hættir: Því miður er ekki tími til að lýsa neitt verulega breytingum á viðhorfi manna til sumardagsins fyrsta á þessari öld. Fólk leggur nú orðið ekki mikið upp úr veðurfarsfyrirboðum oþh. þótt eldra fólk minnist þess stundum. Yngra fólk veit varla um þær gömlu sagnir. Flestir eru hættir að gefa sumargjafir. Nú er allt hugsað um jólagjafirnar. Leikirnir eru úr sögunni, en í þeirra stað koma fjölmiðlunartækin og skemmtanirnar fyrir þá sem vilja og geta stundað slíkt. Víðast í sveitum mun vera unnið þennan dag, enda orðið færra um fólk.

p6
En eitthvað mun breytt útaf í mat. Margir hafa ennþá hangikjöt þennan dag eða annað góðmeti. Um kaffiveitingarnar er það að segja að einstök stærri heimili gengu á undan með aukinn kökubakstur, fleiri kökutegundir og fínni, bæði fyrir sumardaginn fyrsta og önnur tækifæri. Svo komu hin á eftir smátt og smátt,og má nú segja að alltaf séu kaffiveislur næstum daglega ef miðað er við það sem tíðkaðist fyrir aldamót og á 1. og jafnvel 2. tug 20. aldar.

Þetta aðfang er í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið varðveitir um 7 milljónir mynda, um 130 þúsund muni og rúmlega 26 þúsund færslur um þjóðhætti. Í húsasafni eru um 60 hús.

 

Áætlað er að um 80-90 % þessara aðfanga sé komin í stafrænan búning, mismunandi eftir tegundum. Einnig er skráningin mismunandi ítarleg og myndir bara við hluta gagnanna.


Birting gagna í Sarpi er á ábyrgð viðkomandi safns.

Verðskrá myndapantana