1 Slátrun búfjár og sláturverk
Nr. 84.
Heimildarmaður: Guðmundur Ólafsson,
f. 18.06.1885, Litlu Hlíð, Norðurdal, Skag.
p1
Spurningaskrá 1. Sauðfé:
Sláturtíð hófst fyrri hluta október. Það fór eftir tíðarfari,
hvenær kindur tóku að ganga úr haustholdum. Lambhrútar fyrst, kvíær
síðast.
p2
Venja var að slátra kind í gangnanestið.
Jólaá var ekki slátrað. Ekki þótti betra að slátra á staka
árinu. Menn dæmdu um vænleika fjár með því að þreifa um kindina,
einkum bakholdin. Góður fallþungi var 60-70 punda fall og 8-10 pund
mör.
p3
Staðurinn þar sem skepnum var slátrað
hét blóðvöllur. Áhöld sem notuð voru við slátrun voru skurðarhnífur,
blóðtrog, sláturtrog, blóðhrísla. Skurðarhnífurinn var búinn til
úr hluta af skosku ljáblaði, negldu á heimasmíðaðan bakka 10-20 þuml. langur
með tréskafti. Auk þess var oft notaður annar minni kallaður beinahnífur,
til þess að hlífa skurðarhnífnum við beinaskurði. Blóðtrog og sláturtrog
ferköntuð ílát með fláandi hliðum. Blóðtrogið var einnig notað til
annarra þarfa. Ekki var sama blóðhrísla notuð frá ári til árs. Fyrst
var byrjað að aflífa sauðkindur með byssu um 1906-1098. Slátrari
og aðstoðarmaður unnu að því að slátra sauðkind, og kona sem hrærði í blóðinu.
Börn innan fermingar máttu ekki horfa á, er skepnum var slátrað.
Kindur voru látnar liggja í grasi á blóðvelli. Meðan
slátrari blóðgaði kindina, brá hann vinstri handar þumalfingri í munn kindarinnar
og hélt um kjálkana. Talað var um að kindur legðu fast að í dauðastríði.
p4
Sagt var að kindur, sem jörmuðu
við blóðtrogið, bæðu um líf. Það kom fyrir að það væri tekið til
greina. Kindur voru mænuskornar og brotnar úr hálslið þegar
hálfblætt var eða meira. Ekki var talað um að mörlega blæddi, er
kindum blæddi mjög ört út. Það gaf góðar mörvonir, ef mikið snörlaði
í kindinni. Ekki þótti betra að láta kindinni blæða hægt út.
Annað nafn á banakringlu var burtfararbein. Gæran við strjúpann
kallaðist blóðstorkur. Að flá sauðkind var kallað að gera hana til.
Þegar rist var fyrir á gærunni áður en fláning hófst, var
gæran hringskorin um hnélið, rist sundur upp legginn og skurðirnir látnir
mætast á framanverðum bringukolli. Eins á afturfótum, þar voru skurðirnir
látnir mætast í klofinu. Síðan var skorið fram neðan á hálsinum og
aftur klofið upp að rófunni.
p5
Þegar belgur var fleginn af sauðfé,
var það gert á sama hátt að aftan, ekkert að framan, framfætur látnir fylgja
gærunni. Slíkir belgir voru notaðir sem blóðbelgir. Fætur voru
látnir fylgja gæru, þangað til hún var rökuð. Ef vala var limað af
fæti var það kallað að setja horvölu á kind. Hrútspungar
voru ekki hirtir fyrr en um aldamót. Hrútspungar voru aðeins notaðir
sem tóbaksílát. Ekki var skilinn eftir ófleginn bringubjór.
Ef fláning gekk vel, var það kallað að kindin væri laus í bjórnum.
Andstæðan að hún væri föst í skinni. Ekki var skilinn eftir
hluti af magál ófleginn. Magáll var tekinn af öllum sauðum.
p6
Bundið var fyrir vélinda með toglagði
af gærunni. Að fara innan í: Hnífi var rennt upp hálsinn
og skorið inn að barkanum. Barkinn og vélindað tekið þar út og vélindað
losað frá barkanum, hnýtt fyrir. Síðan var magállinn tekinn, skorið
meðfram bringubeini og rifum, aftur með hrygg og meðfram lærum, en þá eigi
losuð alveg frá fyrr en búið var að taka innyflin burtu. Þá var losuð
netjan og hún sett á gæruna hægra megin við skrokkinn, þá var hendi rennt
niður milli vambar og þindar, tekið um vélindað og það dregið aftur, og
því ásamt vömb og vélindiskepp velt vinstra megin út úr skrokknum. Tíndur
var allur mör af vömb og vinstur, og hann látinn hjá netjunni. Þá
var botnlanginn fundinn og hann losaður. Síðan voru garnirnar raktar,
byrjað við botnlangann. Þá var hringskorið um endagörnina aftan frá,
ristillinn losaður og lagður í sláturtrogið. Þá voru nýrun losuð
og skilin frá mörnum. Þá var skorið á þindina meðfram bolnum allt
í kring og henni ásamt lifur, hjarta og lungum kippt aftur úr skrokknum.
Gallið tekið af lifrinni og því fleygt. Skorið í hjartað til
þess að ná úr því blóðinu, og þetta allt saman lagt í sláturtrogið. Þá
var mörinn gerður upp, netjunni vafið um hann, svo hann myndaði einskonar
köku. Blóðkross var ekki markaður í mörva. Konur önnuðust
jafnan að hleypa gori úr meltingarfærum. Ekki frekar verk fjósakonu.
Þegar ristill var hreinsaður var hann ristur að endilöngu og saurinn
skafinn burt. Rist var á vömb á mótum keppa og vambar. Laka
var ekki fleygt. Botnlangi var hirtur, amk. úr fullorðnum. Botnlangi
hafði ekki annað nafn.
p7
Ekki var ristur kross í hjarta
og lifur. Óhljóðseyru eða ólánseyru skorin af og fleygt. Gallblöðru
var fleygt. Milta var gefið hundum. Krókasteik var gefin hundum.
Menn sögðu fremur blóðmör en blómur. Ekki var gert
slátur úr fé, sem ekki gerði í blóð sitt.
p8
Vinstur var höfð undir lifrarpylsu.
Allur mör var tekinn til blóðmörsgerðar,
síður garnmör. Algengt var að nota fjallagrös í blóðmör. Saumað
var fyrir blóðmörsiður. Fjallagrös voru ekki notuð í lifrarpylsu.
Lifur var barin í mauk með tréhnalli. Ungbörn máttu borða lifur
sér að meinalausu.
p9
Orðið slátur var notað um allan
innmat. Veit ekki til að garnir væru notaðar til matar.
Lundabaggi: Ristum ristlum var vafið um lundirnar og þindar saumaðar
utanum. Ýmist súrsaðir eða reyktir. Hjörtu voru notuð
í bjúgu.
p10
Þegar magáll var matbúinn var hann
soðinn, pressaður og reyktur. Kirtlar voru gefnir hundum.
p11
Þegar mör var búinn undir bræðslu
var hann brytjaður. Sá hluti mörs, sem ekki bráðnaði upp kallaðist
hamsar. Hamsar notaðir sem viðbit með fiski. Algengast var
að nota orðið tólkur í mæltu máli. Aðeins þekktist stykkjakæfa. Kæfa
var soðin til heimilisþarfa. Kæfa var geymd í léreftspokum eða stykkjum.
p12
Kjöt var ekki vindþurrkað. Það
mátti hengja upp kjöt af sjálfdauðu fé. Pestarkjöt var notað til
matar. Það var reykt. Þegar krof var tekið sundur á
blóðvelli, voru skrokkarnir teknir sundur og látnir kólna áður en þeir
voru limaðir sundur. Einstakir hlutar falls voru síður og læri. Þæri
þekktist ekki. Þegar bógar voru skornir frá krofi, var hnífi rennt
milli herðablaðs og rifbeina. Raufar, sem skornar voru í kjöt til
að fá handfestu hétu þuma.
p13
Rif voru ekki brotin eða lömuð
við hrygg. Þegar kjöt var saltað til reykingar, var það látið liggja
3 dægur með salti. Bringukollur var matreiddur reyktur og soðinn.
Allt fallið var höggvið í spað. Kindahausar voru klipptir,
áður en þeir voru sviðnir. Menn rökuðu lappir með gæru.
p14
Svið voru ekki ýlduð í fjósi. Svið
voru gefin til matar, eftir því sem þau féllu til, sett í súr. Heili
var borðaður. Ekki mátti eta eyru af sviðakjömmum. Markþjófnaður
gat orðið því samfara. Fótafeiti var borin í ull til mýkinda. Þungaðar
konur máttu eta gómfillu. Karlmenn máttu eta barkakýli.
p15
Gærur voru rakaðar svo fljótt sem
hægt var. Gærur voru ekki rotaðar. Ytra og innra borð gæru
nefndist hárramur og holdrosa. Menn rjóðruðu blóði um holdrosu gæru,
þótti þá endast betur. Það blóð var fengið úr blóðhálsi. Oftast
rökuðu menn gærur á beru hné sér. Rökuð gæra kallaðist skinn. Orðið
fætlingar var notað um fótaull af gærum. Þekkti ekki orðið gæruvaka.
Óþarfa skæklum á sauðskinnum var fleygt. Sauðskinn voru blásteinslituð.
Skinn voru breidd á sköft í eldhúsi. Spýtt tvöföld. Skinn
voru elt í brák.
p16
Skinn voru ekki látin frjósa niður
við svell. Skinn töldust fullelt eftir útliti og mýkt.
Fékvörn fannst í netjunni. Þótti heillamerki. Geymd þurrkuð.
Ef ómálga barn var á bænum
þurfti að brjóta málbeinin í tvennt.
Sú trú þekktist um smjörvölu að
maður yrði jarðeigandi af að gleypa hana, og að hundur dræpist af því að
gleypa hana. Kölluð smjörvalsigill. Sauðarvölur voru
notaðar sem árennur, og sem barnagull.
p17
Völur voru notaðar sem spávölur,
sem barnaleikur. Engin önnur trú á þeim.
Fótleggir kinda voru notaðir
sem þráðarleggir, festing á hnappheldur. Leggjateinn á neti hét beinateinn,
úr stórgripum. Langleggir ekki notaðir í leggjatangir. Ekki
var höfð ótrú á að brjóta leggi eða bein kinda. Sperran var notuð til að
draga til varp á skinnskó. Ekki ótrú á að henda höfuðbeinum
kinda fyrir hund eða hrafn. Ekki var hirt um völustalla.
p18
Úr hrútshornum smíðuðu menn hnithagldir,
pokahagldir. Smíði þeirra var þannig háttað, ao hornið var rist að
endilöngu, gert gat á sverari endann .............. og því stungið í gegnum
gatið. Hnithagldir hét áhaldið, sem læstar hagldir voru mótaðar á.
Börn notuðu bein sem leikföng. Leggir voru stórgripir,
völur kindur, kjúkur menn eða hundar. Nautgripir: Svæfing
var notuð við aflífun nautgripa. Nautgripir voru heftir á framfótum
á blóðvelli.
p19
Sérstakur svæfingamaður vann við
verkið. Svæfingarjárn var fjaðurlaga járnteinn, þverskaft úr tré.
Þegar mælt var fyrir svæfingarholu, mældi svæfingarmaður með fingrum
sínum. Um verið sjálft notuðu menn orðin svæfa eða svæfing.
Allt nautablóð var nýtt til blóðmörsgerðar. Nautablóð var
ekki látið storkna. Þegar gengið var frá höfði stórgripa
á blóðvelli var steini komið fyrir í munn því, svo það yrði auðveldara
að rífa hausinn seinna. Ekki þekktist að bót væri skilin eftir óflegin
á bringukolli, en stundum var byrjað á henni. Þá var hringskorið
um legginn niður við kjúkur á öllum fótum, annað eins og á kind.
Nautskyllir var ekki hirtur til matar. Nautskyllir
var ekki notaður í skæðaskinn eða sem peningapungur, en hann var stundum
ristur niður í ólar.
p20
Lappir voru flegnar að lagklaufum.
Skæklar á nautshúð hétu hemingar. Þeir voru breiddir upp í
eldhúsi. Á kálfum var smokkur skilinn eftir fremst á hálsi
til að rista úr ólasila. Klyfberi eða hausinn var hafður undir síðu
nautgripa, meðan á fláningu stóð. Unnið var að fláningu með
fláningshnífi. Þegar bundið var fyrir vélinda á nautgripum, var skorin
rauf í vélindað og bandið sett þar. Stundum var rist aftur með bringukolli,
áður en farið var innan í. Þegar innvols var numið brott
úr krofi, var innvolsið hlutað sundur. Brjóstholið tæmt síðast. Ekki
gegndi sama máli um kross í hjarta og lifur og hættu af unglundseyrum nautgripa
og kinda. Allt innvols úr nautgripum var nefnt slæng. Ekki
var búinn til sperðill úr nautaslátri.
p21
Aldrei heyrt orðið ísbenja. Ekki
var búinn til sérstakur réttur úr vélinda. Kýrjúgur var matreitt
soðið og súrsað. Laki var gefinn hundum. Kálfslegi var fleygt.
Seymi var flegið ofan af hryggnum, til hliðar við ........,
skafið og þurrkað. Það var notað til skógerðar. Ekki unnið
seymi úr vélinda. Þegar nautskrof var hlutað sundur, voru
bógarnir skornir frá, lærin tekin um mjaðmalið, síðurnar höggnar frá hryggnum,
hryggurinn bútaður í 2-3 hluta. Ganglimirnir voru teknir í hraun.
Hraun áttu ekki annað nafn. Veit ekki til að hraun væru ýlduð.
p22
Tunga var reykt, hausarnir flegnir,
skinnið notað í ólar, maturinn af hausnum sultaður. Nautsheilar voru
aldrei hirtir. Granir voru sagaðar af nautshausum. Höfuðleður
nauta var rist í ólar. Enginn átrúnaður á kýrhausum. Hauskúpan
var talin varna hita í heyi. Ekki var milta notað til að
spá fyrir betri. Nautagall ekki notað til lækninga.
p23
Grasajárn var notað til að skera
niður efni í bjúga. Að koma saxi og mör í langa var kallað að troða.
Fingur vinstri handar voru notaðir til að þenja út langaopið.
Blaðran var hirt, blásin upp og þurrkuð og notuð til að geyma í
tölur og annað smávegis. Nautssinin var hert í keyri. Bein
nautgripa (leggir) voru sagaðir niður og notaðir í sökkur á silunganet.
Beinabruðningur gekk undir nafninu strjúgur, beinin soðin og sett
í súr. Enginn varnaður var á því að brjóta bein nautgripa. Það
kom fyrir að nautshúðir væru notaðar til matar, og þá aðeins út úr neyð.
Húðir voru rakaðar á sama hátt og gærur, en búkhárinu var fleygt.
Júgurskinn var notað í ólar.
p24
Fóstur í kálffullri kú, sem felld
var kallaðist aplakálfur.
Óborinn kálfur var aldrei notaður
til matar. Honum var fleygt. Ekki voru ungkálfar teknir
úr karinu undir hnífinn. Sagt var um kálfa, sem bauluðu við blóðtrog,
að þeir bæðu um líf. Varla nægði það þeim til lífs. Úr kálfsblóði
var gerð blóðkássa. Kálfar voru ekki alltaf flegnir samdægurs. Stundum,
þegar ég var ungur, voru þeir látnir hanga í skinninu. Það var kallað
að láta þá fitna í skinninu. Kálfar voru hengdir upp á hæklum meðan
á fláningu stóð. Kálfsvinstur til hleypisgerðar var hengd
upp í eldhúsi með innihaldinu.
p25
Ekki voru öll innyfli notuð ný
til matar. Innyflum úr kviðarholinu var fleygt. Kálfskjöt
var ekki hengt upp til reykingar. Nýrnabein var alltaf skammtað sem
bóndabiti, nýrun voru ekki tekin en látin fylgja hryggjarbitanum. Kálfshausar
voru sviðnir. Hross: Að ganga sér til húðar, að þræla
sem mest á þeim undir það að þeim var slátrað. Orðin að slá af og
afsláttarhross var almennt notuð um hross, sem eyða átti. Orðið niðurlagshross
var haft um þau hross sem felld yrðu í náinni framtíð. Hross voru
ekki slegin af til ljósa.
p26
Eftir miðja 19. öld var fyrst farið
að nota hrossakjöt til manneldis. Þeir sem riðu á vaðið voru álitnir
lítils virði, kallaðir hrossakjötsætur. Hrossakjöt var ýmist saltað
eða reykt. Þefur af illa verkuðu hrossakjöti nefndist hrælykt. Afsláttarhross
voru látin af hendi fyrir það eitt að skila hánni fullverkaðri.
Þegar hross voru slegin af, voru þau svæfð, áður en byssur komu
til sögunnar. Byrjað var að nota byssur við dráp hrossa um 1870-80.
Það kom fyrir að hrossablóð
væri hirt í blóðmör, en sjaldan. Hið sama er að segja um fláningu
hrossa og nautgripa.
p27
Að gera hross til var almennt kallað
að birkja. Hrossakjöt ekki notað til lækninga. Verkun á hrosshám
var eins og á nautgripahúðum. Hrosshár voru notaðar í skæðaskinn. Búkhári
hrossa var fleygt. Hrosshausar voru flegnir, ef þeir voru hirtir. Blesan
frá nösum upp á enni var ekki skilin eftir óflegin. Úr hrossabeinum
voru leggir bútaðir á netateina og ísaleggir. Það kom fyrir að hrosshófar
voru notaðir til smíða.