Leita



Vinsamlega sýnið biðlund
Lýsingu vantar

Slátrun búfjár og sláturverk

ÞMS
Spurningaskrá 1960-1
Hlaða öllum svörum niður í PDF

Þjóðháttaskráning Þjóðminjasafnsins

Spurningaskrá 1

Slátrun búfjár og sláturverk

Hér kemur út á nýjan leik fyrsta skrá þjóðháttaskráningarinnar um slátrun og sláturverk, sem send var til heimildarmanna deildar­innar í ársbyrjun 1960. Ástæða þótti til að endurrita hana vegna óhentugs forms og óheppilegrar pappírsstærðar miðað við staðla nútímans. Aðeins smávægilegar breytingar hafa hins vegar verið gerðar á efni.

Enn þykir okkur ástæða til að leita svara um ýmis atriði varðandi slátrun búfjár og sláturverk. Mikilvægt er, að þeir sem góðfús­lega vilja styrkja okkur í þessari söfnunarviðleitni bæti við því sem þeir vita um efnið, en ekki er spurt um beinlínis.  Það er alhliða fróðleikur úr sem flestum byggðarlögum sem að er stefnt. Hins vegar er vafalaust spurt um mörg atriði sem einstakir heim­ildarmenn kannast ekki við og geta þeir látið sem þeir sjái ekki slíkt.

SAUÐFÉ

Sláturtíð

Hvenær hófst sláturtíð og hve lengi stóð hún yfir?  Hvenær var talið að kindur tækju að ganga úr haustholdum (þorna) og var það nokkuð breytilegt eftir því hver kindin var (sauður, hrútur,kvía­ær,lambsuga, lambsgota, gamalær, lamb)? Var betra að slátra seinni hluta viku en fyrri (sbr. laugardagur til lukku)?

 Var venja að slátra sauðkind (lambi eða fullorðinni kind) í töðugjöld, slægjur eða göngur (á fjallið)?  Ef svo var, hvað nefndust þær kindur og hvað var verkið kallað (að skera í töðu­gjöldin, skera í pottinn, á fjallið o.s.frv.)?  Þekktist nokkur trú í sambandi við flagbrjósk af fjallakind (gangnalambi)? 

Þekktist það, að menn slátruðu hrútá, þegar hrúturinn var tekinn á gjöf, eða jólaá fyrir jólin?  Lá nokkuð við ef jólaánni var ekki slátrað? Átti jólaær nokkuð annað nafn og hvernig og hvenær var hún matreidd? Þekktust þau ummæli að ekki þyrfti að slátra hrútá og jólaá sama árið? 

Þótti betra að slátra sauðum á staka árinu (3. og 5. vetra) en á jafna árinu og þá hvers vegna? 

Hvernig dæmdu menn um vænleika fjár (hold og mör), þegar slátra skyldi? Gátu sauðabændur markað mör sauða af því að þreifa um dindil? Hvað taldist góður fallþungi og mörþungi sauða (hálfvætt­arfall, mörfjórðungur eða meira)? 

Var betra að slátra með vaxandi tungli og þá hvers vegna? Hafði smástraumur nokkur áhrif á afurðir fjárins og þá hver?  Hvort blæddi meira með flóði eða fjöru? Var veðurbreyting í vændum ef mikið blæddi?

 Slátrun

Hvað hét staðurinn þar sem skepnum var slátrað (blóðvöllur t.d.)? 

Hvað hétu áhöld sem notuð voru við slátrun (skurðarhnífur, fyrir­ristuhnífur, blóðtrog, sláturtrog, blóðhrísla, blóðvöndur, blóð­spaði, blóðkolla o.s.frv.)?  Lýsið  þeim. Var blóðtrogið einnig notað til annarra þarfa?  Var sama blóðhrísla notuð frá ári til árs? Hvenær var fyrst byrjað að aflífa sauðkindur með byssu? 

Hve margir unnu að því að slátra sauðkind (slátrari, aðstoðar­maður til að halda fótum eða fleiri)? 

Máttu börn innan fermingar horfa á er skepnum var slátrað?  Hvað var þá í húfi, ef út af var brugðið?  Máttu þungaðar konur koma á blóðvöll? 

Voru kindur látnar liggja í grasi, eða á borði á blóðvelli? 

Var alltaf markaður kross í blóðtrogið áður en skepnan var háls­skorin?  Notuðu menn skurðarhnífinn til þess?  Var krossinn markaður í lausu lofti, eða á botn trogsins? 

Hvernig hélt slátrari um höfuð sauðkindar meðan hann blóðgaði hana?  Var talað um að kindur "legðu fast að"  í dauðastríði? Hvað fólst í því og hvað boðaði það? 

Var sagt að kindur sem jörmuðu við blóðtrogið bæðu um líf?  Var það tekið til greina?  Átti ungviði sem tekið var undan hnífnum að reynast metfé? 

Voru kindur mænuskornar og brotnar úr hálslið jafnskjótt og búið var að hálskera þær eða síðar? 

Var talað um það, að mörlega blæddi, er kindum blæddi mjög ört út og blóð var mikið?  Gaf það góðar mörvonir ef mikið snörlaði í kindinni, meðan henni blæddi út?  Þótti betra að láta kindinni blæða hægt út og þá hvers vegna?  Þekktist sú þjóðtrú, að hug­lausum mönnum væri hollt að drekka volgt kindablóð og éta mör með? 

Hvaða nöfn þekkjast um banakringlu (stjúpuliður, harðgleypa, harðgreip, burtfararbein, burtgöngubiti, heljarliður o.s.frv.)? Hvað hét næsti liður við banakringlu (tappaliður, vitlausi liður t.d.)? 

Var algengt að slátrari héldi skurðarhnífnum á milli tanna sér milli þess sem hann notaði hann? 

Var höfði sauðkindar slegið við strjúpann um leið og það var skorið frá og þá hve oft?  Fylgdu nokkur orð verki?  Gerðu menn þetta til fjárheilla eða af öðrum orsökum?

Fláning

Hvað kallaðist gæran við strjúpann (blóðháls, blóðstorkur eða annað)? 

Hvað var það kallað einu nafni að flá sauðkind og sundra henni ("að gera hana til" eða annað)? 

Hvernig var rist fyrir á gærunni áður en fláning hófst?  Var rist fyrir með sérstökum hætti ef nota átti skinnið í sjóklæði og þá hvernig?  Var oft fleginn belgur af sauðfé og hvernig var þá rist fyrir?  Til hvers voru slíkir belgir notaðir (blóðbelgur, mjólk­urbelgur t.d.)? 

Voru fætur látnir fylgja gæru þangað til hún var rökuð? Hvað var það kallað ef fótur skarst frá gæru af klaufaskap (að setja sláturfót eða horfót á kind t.d.)?  Hvað nefndist dindill ef hann var fleginn með gæru (hordindill t.d.)? 

Hvað kallaðist sá maður sem limaði völu af með fæti (völuþjófur t.d.)?  Var það talið ills viti fyrir hann?  Var það einnig kallað "að setja horvölu á kind"? 

Voru hrútspungar alltaf hirtir til matar og öllum jafn meinalaust að neyta þeirra? Var klettið skorið af með þeim og gekk það undir nokkru nafni öðru? Voru hrútspungar notaðir öðru vísi en sem tóbaksílát? 

Var algengt að skilja bringubjór eftir ófleginn og láta hann fylgja bringukolli? 

Lýsið fláningu. Hvað var það kallað ef fláning gekk vel (að kindin væri laus í bjórnum eða annað)?  Hvað nefndist andstæðan? Var algengt að skilja hluta af magál eftir ófleginn á sauðum?  Var koðri látinn fylgja magál á fjaðurgeltum sauðum?  Var magáll tekinn á öllum sauðkindum?

Farið innan í

Hvernig var bundið fyrir vélindað áður en farið var innaní? 

Hvernig var unnið að því að fara innan í?  Lýsið því í aðalatr­iðum? 

Hvar var netjan sett er hún hafði verið losuð?  Hvað nefndist netjan við vinstur (bógnetja eða annað)?  Hvað hét mörstykki á kviðarholi milli magáls og blöðru (þjófstunga eða annað)? Þekkt­ist það að blóðkross væri markaður á mörva á blóðvelli? 

Hvað kölluðust einstakir hlutar innyfla í brjóstholi og kviðar­holi? 

Önnuðust konur jafnan um það að hleypa gori úr meltingarfærum og þvo innan úr?  Var það fremur verk fjósakonu?  Hvernig var unnið að því að hreinsa ristil?  Hvar var rist á vömb (á mótum keppa og vambar eða annars staðar)?  Var laka fleygt?  Var botnlangi alltaf hirtur? Gekk botnlangi eða hluti hans undir öðru nafni (vorristill eða rangilangi t.d.)? 

Hvernig var spáð fyrir vetri eftir kindagörnum?  Voru þær tækar til spádóma, hvenær sem var að hausti, og stóð á sama hver kindin var?  Voru tómir kaflar í görnum nefndir harðindakaflar? 

Hvernig var gengið frá mör? 

Ristu menn kross í hjarta og lifur?  Lá nokkuð við ef út af því var brugðið?  Hvað var ósært hjarta í slátri kallað (s­teinhjarta t.d.)?  Hvað var gert við úlundseyrun af hjartanu og undir hvaða nafni gengu þau (úlundseyru, unglundseyru, óljóseyru, ullinseyru eða annað)?  Hvaða mein gat af því staðið að borða úlundseyru? 

Hvað var gert við gallblöðru?  Var sauðagall notað til lækninga (við hlustarverk eða öðru)? 

Hvað var gert við milta? 

Hvað var gert við krókasteik (leg) og undir hvaða nafni gekk hún?

Sláturgerð

Hvort sögðu menn fremur blóðmör eða blómur? Var alltaf gerður blóðmör þegar kind var slátrað, og eins þótt hún gerði ekki í blóð sitt, og hvaða orð voru notuð um mörlítinn blóðmör (svartablóð, það sést ekki ljós ögn í honum o.s.frv.)? 

Í hve mörg iður (keppi) var einni vömb skipt? Var sérstök regla um hvernig það var gert?  Var vélindiskeppur nefndur Maríukeppur eða fagrikeppur og hvað nefndist op hans við vélindað (vílgat eða annað)?  Var vinstur höfð undir blóðmör eða lifrarpylsu, og hvað kallaðist mjórri endi hennar (snókur, sigga, kvennagóði, barnagull eða annað)?

 Var aðeins garnmör tekinn til blóðmörsgerðar, en hvorki netja né nýrnamör? Var algengt að nota fjallagrös í blóðmör? Í hve miklu magni og hvernig?  Var saumað eða spýtt fyrir blóðmörsiður?  Voru notaðar sömu blóðmörsspýtur frá ári til árs, og áttu þær nokkuð annað nafn  (sneisar t.d., sbr. sneisafullt)?  Hvað kallaðist notkun þeirra (að sneisa kepp eða spýta kepp)? Voru kerlingar­prjónar úr þorskhausum notaðir á sama hátt?  Var meiri mör látinn í vélindiskeppinn en aðra keppi?  Var hann öðrum fremur hátíða­matur eða gestamatur? 

Var orðið slátur notað um allan innmat eða í þrengri merkingu um blóðmör og lifrarpylsu aðeins?

Innmatur

Hvernig var lifur matreidd, etin ný, súr eða í lifrarpylsu? Voru fjallagrös notuð í lifrarpylsu?  Hvernig var lifur barin í mauk (með strokkloki, tréhnalli, hrárri gulrófu, steinlóði eða öðru)? Þekktist sú trú að lifur glæddi karlmönnum hug til kvenna?  Máttu ungbörn borða lifur sér að meinalausu?

Hvernig voru garnir verkaðar til matar, og hvað nefndust þær soðnar (vil eða annað)?  Hvernig var garnabaggi matreiddur? Hvernig bjuggu menn til girni og til hvers var það einkum notað? Var orðið blágirni notað um garnir almennt eða hluta þeirra? Þekktist orðið “gorvelta” um gor, slímhúð garna eða annað? 

Lýsið lundabagga og greinið frá geymsluaðferðum. Þekktist orðið "döndull" um lundabagga? Var döndull að einhverju leyti frábrugð­inn lundabagga og hvernig var geymslu hans háttað (reyktur eða settur í súr)?  Hvernig var sperðill búinn til og nefndist hann nokkru öðru nafni? 

Var algengt að gera pylsur úr sauðaslátri og undir hvaða nafni gengu þær (bjúga, grjúpán, langi, spangipylsa eða annað)? Var mismunur á þessum pylsutegundum eftir því hvað þær voru kallaðar eða voru þetta ólík nöfn á sama hlutnum?   Hvaða efni var notað í pylsur (hjörtu, nýru, lungu, garnir o.s.frv.)?  Hvernig var saxað og falið upp í þær (var t.d. notað pylsuhorn)? Voru þær mismunandi langan tíma í reyk og hvernig voru þær geymdar að lokinni reykingu? 

Lýsið hvernig magáll var matbúinn og greinið frá geymslu hans. 

Þekktist sú trú, að tvær stúlkur mættu ekki skipta með sér nýra? Hvað gat leitt af því? 

Hvernig var gollur matbúinn?  Átti hann annað nafn?  Var hann einkum ætlaður börnum til glaðnings og þá nýr, soðinn eða reykt­ur? Var til réttur sem nefndist hjartabaggi, og hvernig var hann matbúinn? 

Voru lungu alltaf hirt og hvernig var þeim þá komið í mat?  Voru ristir í þau skurðir á blóðvelli og þá hve margir? Kom það fyrir að lungu væru höfð í kæfu ein sér eða með kjöti?  Var til sér­stakur réttur, sem nefndist lungnamús, og hvernig var hún mat­reidd? 

Máttu karlmenn eta barkakýli?  Var barki notaður til matar og þá hvernig? 

Var óhætt að eta mænu og ef ekki - hvers vegna? 

Hvað var gert við kirtla úr garnmör? En þvottabrisið, og gekk það undir nokkru öðru nafni (þvottakonubris t.d.)?

Mör og kæfa

Hvenær var mör bræddur? Hvernig var hann búinn undir bræðslu (barinn í skinnbelg, brytjaður, tálgaður eða hnoðaður)?  Hvernig var mörflot matbúið? Hvað kallaðist sá hluti mörs sem ekki bráðn­aði upp (hamsar, skræður eða annað)?  Voru hamsar notaðir til viðbits með sölvum m.a.?  Hvað var algengast í mæltu máli: Tólg, tólk, tólgur eða tólkur? 

Þekktist önnur gerð af kæfu en stykkjakæfa, hvernig var hún matbúin og hvað kölluð (smálki eða annað)?  Var kæfa aðeins soðin handa vermönnum eða einnig til heimilisþarfa og sölu? Hvernig var kæfa geymd (umbúðir og geymsla)? Þekktist orðið smálkamatur um hluta jólamatar og hvaða réttir voru þar samankomnir?

Kjötverkun

Þekktist það, að kjöt væri vindþurrkað, og hvað er þá um verkun þess að segja? 

Mátti hengja upp kjöt af sjálfdauðu fé, og ef ekki, þá hvers vegna? Mátti þunguð kona eta kjöt af sjálfdauðu fé?  Var pestar­kjöt notað til matar?  Hvernig var það verkað? 

Hvernig var krof tekið sundur á blóðvelli og hvað hétu einstakir hlutar þess að því loknu (afturfall, steilur, skammrif, bógar eða annað)?  Hvað hétu einstakir hlutar falls (afturfalls) -huppar, síður, læri eða annað? Þekktist orðið “þæri” (eða þærur) um fall eða einhvern hluta þess?  Hvað hét þessi þáttur sláturstarfs (að búa til fall, taka framan af eða annað)?  Hvernig voru bógar skornir frá krofi?  Var bógum alltaf slegið við krofið um leið og þeir losnuðu, og ef svo var - hvers vegna?  Hvað hétu raufar, sem skornar voru í kjöt til að fá hand- eða naglfestu á því (æs, þuma eða annað)?  Voru rif í falli ætíð brotin eða lömuð við hrygg? Hvernig var gengið frá sári eftir bóga (jaðrar þess spýttir eða frá því gengið á annan hátt)?  Hvernig var gengið frá síðuendum á falli (æs smeygt á endarif og spýtt)?  Hvað nefndist aflvöðvinn á lærlegg (biskupseista eða annað)? 

Hvernig var kjöt saltað til reykingar og hvað var það látið liggja lengi með salti?  Hvað var það kallað að salta í sár eftir bóga (að sá í spítuhöldin eða annað)? 

Hvernig var bringukollur matreiddur?  Var smalanum gefinn bringu­kollur að verkalaunum (smalabringa)?

Var vökvinn milli herðablaða og vöðvans nefndur nokkuð sérstöku nafni (Lokatár t.d.)? 

Hvaða kjöt var helst höggvið í spað (af rýrðarfé og lömbum)? 

Þekktist sú trú, að hrútsfall ætti að hengja upp öfugt og ærfall á móti því og þá hvers vegna?

Svið

Voru kindahausar rakaðir og klipptir, áður en þeir voru sviðnir? Rökuðu menn lappir með gæru? 

Þekktist orðtækið: "Betra er broddsviðið en brennt" og er nokkur sögn um hvaðan það er runnið?  Mátti þunguð kona eta broddsviðið og þekktist orðtakið "það verður ekki loðið sem ég geng með" í því sambandi? 

Kom það fyrir að svið væru ýlduð í fjósi?  Voru svið gefin til matar, eftir því sem þau féllu til, sett í súr eða étin við sérstök tækifæri (sviðamessa t.d.)?  Var heili borðaður eins og hann kom fyrir eða úr honum gerðir sérstakir réttir (heilastappa, heilakökur eða annað?  Mátti eta eyru af sviðakjömmum?  Hvaða hætta gat verið samfara því?  Var nokkuð sagt við hund þegar honum var gefið eyrað ("Ég gef þér eyrað en ekki markið" t.d.)? 

Ýlduðu konur kindafætur til að fá góða fótafeiti, og til hvers var hún helst notuð? 

Máttu þungaðar konur nota gómfillu sér að meinalausu?

Gærur og skinn

Hvenær voru gærur rakaðar (á öðrum eða þriðja degi eftir slátr­un)?  Þekktist það að gærur væru rotaðar og þá hvers vegna? Hvað nefndist ytra og innra borð gæru (hárramur, hárhamur, holdrosa eða ann­að)? Til hvers rjóðruðu menn blóði um holdrosu gæru? Hvar var það blóð fengið (úr krofi eða blóðhálsi)? 

Rökuðu menn gærur á beru hné sér? Hvað kallaðist rökuð gæra (klippíngur eða annað)? Var orðið fætlingur notað um fótaull af gærum? 

Hvað var helst búið til úr gærum og hvernig var það gert? Þekktist orðið gæruvaka og í hvaða merkingu var það notað? 

Hvað var gert við óþarfa skækla á sauðskinnum (soðnir til matar eða fleygt)? Hvernig voru sauðskinn verkuð í skó og skinnklæði (eir- eða blásteinslituð)? 

Hvar voru skinn spýtt (hæld) (á skinnagrindur, þil, moldarveggi, í hella eða á annan hátt)? Voru skinn spýtt einföld eða tvöföld (lögð tvöföld á skaft)? Var meira vandhæfi á að hæla skálmaskinn í sjóbrækur en skæðaskinn og þá hvers vegna? 

Hvernig voru skinn elt (í brák, milli handa, undir fótum, í fossi eða á annan hátt)? Þekktist það að skinn væru látin frjósa niður við svell og síðan eltast úti á rá í gaddstormi? Var nokkuð til að fara eftir er skinn töldust fullelt? Í hvað voru eltiskinn einkum notuð? 

Lýsið skinnagrind.  Gekk hún einnig undir nafninu þanir? 

Var orðið “fariskinn” notað um ónýta bjóra af sjálfdauðu fé eða aðeins um aflóga skinnklæði? 

Horn, bein o.fl.

Stóð á sama, hvernig um málbein var hirt, ef ekkert ómálga barn var á bænum? 

Þekktist nokkur trú um smjörvölu (gleypubein) (að maður yrði jarðeigandi af að gleypa hana, að hundur dræpist af því að gleypa hana, að hún væri drottning í álögum t.d.), undir hvaða nafni gekk hún (smjörvala, smjörvalur, gleypubein eða annað), og kann­ast menn við orðtakið: "Forðaðu mér frá fjárdauða fyrst ég forð­aði þér frá hundskjafti" í þessu sambandi? 

Hvað var gert við sauðarvölur (notaðar sem árennur (árenningar), til að vinda band á eða annað)?  Hvað átti sá í vændum, sem gleypti sauðarvölu (100 sauða eign eða annað)? Voru völurnar notaðar sem spávölur og hvernig? Þekktist önnur trú í sambandi við sauðarvölur (reynt hvort þær flytu í vatni og þá settar í fjárhúsveggi t.d. eða annað)? 

Hvað var gert við fótleggi kinda (notaðir sem þráðaleggir, fest­ing á hnappheldur, kýrbönd, mykjulaupa, við lambageldingu, á net o.s.frv.)? Hvað hét leggjasteinn á neti (leggjateinn, beinatigull eða annað)? Þekktist það, að bændur hlæðu fótleggjum í fjárhús­veggi (eða annars staðar) til fjárheilla? Var höfð ótrú á því að brjóta leggi eða bein kinda á sunnudögum og hvað lá við ef út af var brugðið? Var yfirleitt höfð ótrú á því að brjóta leggi kinda, þótt á öðrum dögum væri? Var sperran frá sperruleggnum nokkuð notuð (sem skóstíll, til að hæla (spýta) með skinn á veggi eða annað)? 

Höfðu bændur ótrú á því að henda höfuðbeinum kinda fyrir hund eða hrafn? 

Var nokkuð hirt um völustalla (hækilbein)? 

Hvaða hluti smíðuð menn úr hrútshornum (hrútshyrninga, samsettar (giftar) hagldir, hálsbjargir o.s.frv.)? Þekktust orðin “læstar hagldir,” hnithagldir, prestsekkjur, giftingarhögld og “giftar hagldir” um reipahagldir úr hrútshornum? Hvernig var smíð þeirra háttað? Hvað hét áhaldið sem læstar hagldir voru mótaðar á (hnit­tré eða annað)? 

Voru öll hrútshorn jafnvel löguð í brák? Hvaða orð var notað um úrrétt hrútshorn (hornið er úrrétt, gert eða annað)? 

Hvaða bein notuðu börn sem leikföng, og hvaða bein komu í stað hverrar dýrategundar? 

Var nokkur átrúnaður á fékvörn. Hvar fannst hún og hvernig var hún varðveitt? 

Segið frá fénál á sama hátt. Höfðu menn trú á því að kindur með  fénál í þjólegg heppnuðust illa eða væru rýrar á hold?

NAUTGRIPIR 

Slátrun og nautaslátur

Hvaða aðferðir voru notaðar við aflífun nautgripa, áður en byssur komu til sögunnar? Hvernig voru nautgripir reyrðir í bönd á blóðvelli? 

Var sérstakur svæfingarmaður, sem fór milli bæja, þar sem svæf­ingu var beitt, eða var það á hvers manns færi að fara með svæf­ingarjárn? Lýsið svæfingarjárni. Hvernig var mælt fyrir svæfing­arholu á nautgrip? Hvaða orð voru notuð um verkið sjálft (að mænuskera, mænustinga, svæfa og no. mænustunga, svæfing eða önnur)? Hvernig var unnið að mænustungunni sjálfri? 

Hve mikill hluti nautablóðs var nýttur til blóðmörsgerðar? Var einhver hluti þess látinn storkna og þá hve mikill? Hvað kallað­ist storkið nautablóð (steinblóð, lifrarblóð, blóðsigi, villi­bráð, blóðhella eða annað)? 

Var höfði nautgripa slegið við strjúpann um leið og það var skorið frá og þá hve oft? Hvernig var gengið frá höfði stórgripa á blóðvelli (komið steini eða öðru í munn því og í hvaða skyni)?

Fláning

Hvernig var "rist fyrir" á nautum? 

Þekktist það að nautskyllir væri notaður í skæðaskinn, sem peningapungur eða annað? 

Voru lappir flegnar að lagklaufum? Hvað hétu skæklar á nautshúð (hemingar eða annað)? Voru þeir notaðir í skæðaskinn og þá hvernig hældir (spýttir)? 

Var smokkur skilinn eftir fremst á hálsi til að rista úr ólasila (smeyga) og reipi? 

Hvað var haft undir síðu nautgripa, meðan á fláningu stóð (klyf­beri eða annað)? 

Hvernig var unnið að fláningu (með berum höndum, fláningshnífi eða sérstöku áhaldi öðru)? Var skurðarhnífur notaður sem flán­ingshnífur eða sérstakur hnífur hafður til þess verks? 

Mátti fara frá hálfflegnum nautgrip á blóðvelli, nema hnífi væri stungið í hann? Stóð á sama hvar og hvernig hnífnum var stungið í skrokkinn? Hvað lá við ef út af var brugðið (að skepnan yrði að draug eða nykri)? Var einnig signt (krossað) yfir skrokkinn, er svona stóð á?

Farið innan í 

Var bundið fyrir vélinda á nautgripum og þá hvernig? 

Var aldrei rist aftur með (eða aftur úr) bringukolli, áður en farið var innan í?  Var innvolsið numið brott úr krofi í heilu lagi?  Gegndi sama máli um kross í hjarta og lifur og hættu af unglundseyrum nautgripa og kinda?  Var allt innvolsið úr naut­gripunum nefnt slæng (slengi) eða aðeins hluti þess?

Matargerð

Var búinn til sperðill úr nautaslátri og þá hvernig? Var orðið ísbenja (íspen, íspenjar) notað um nautgripasperðil, eða var ísbenja sérstakur réttur? Var ísbenja matreidd og etin samdægurs og slátrað var? 

Var sérstakur réttur búinn til úr vélinda á svipaðan hátt og sperðill eða ísbenja? Þekktist það að búið var til vélindiskerti og þá hvernig? 

Hvernig var kýrjúgur matreitt? 

Var laki hirtur og hvernig komið í mat (etinn nýr eða súr)? 

Hvernig var nautskrof hlutað sundur og hvaða hlutar þess voru teknir í hraun?  Áttu hraun nokkuð annað nafn? Hvernig voru hraun tekin, og hve lengi voru þau ýlduð í fjósi? Var nokkuð sérstakt, sem eftir var farið, er hæfilegt þótti að taka hraun úr fjósi? Voru hraun reykt að fjósvist lokinni? 

Voru lappir sviðnar, áður en þær voru settar í fjós? 

Hvað var gert við kinnfyllur og tungumat hausa (etið nýtt, verkað á annan hátt eða látið fylgja hausnum)? Mátti hver sem var borða nautsheila og hvernig var hann matreiddur? Voru nautshausar (kýr-) soðnir í heilu lagi eða granir sagaðar af? Var nokkur átrúnaður á kýrhausum, þekktist t.d. sú trú, að kýrhaus í uppbornu heyi ætti að vernda kýrfóður? 

Hvernig var steinblóð matreitt (soðið og sett í súr eða etið nýtt)? 

Hvernig voru garnir verkaðar til matar? Hvað felst í hugtakinu" að menja (nemja) garnir" og var það aðeins notað um garnir stór­gripa? 

Hvaða líffæri voru notuð í bjúgu (grjúpán) og undir hvaða nafni gekk sá réttur? Hvaða áhald var notað til að skera niður efni í bjúga (grasajárn eða annað)?  Hvað nefndist fullgert efni í bjúga (sax eða annað)?  Hvaða orðalag var notað um það að koma saxi og mör í langa (að fela upp í eða annað)? Hvaða áhald var notað til þess að þenja út langaopið (orfhólkur, viðartág eða annað? Með hverju var spýtt fyrir grjúpánslangana? Voru botnlangar úr naut­gripum notaðir undir bjúgu, blóðmör eða sax?  Voru lungu notuð öðru vísi en í saxið? 

Var nautagall (griðungsgall) notað til lækninga og þá hvernig? 

Bein, húðir o.fl.

Voru bein nautgripa til nokkurra nytja og þá hvernig (hausar, leggir völur o.s.frv.)?  Hvernig var beinabruðningur búinn til og gekk hann undir nokkru öðru nafni (strjúgur t.d.)? Var nokkur varnaður á því að brjóta bein nautgripa? 

Kom fyrir, að nautshúðir væru notaðar til matar? Voru húðir rakaðar á sama hátt og gærur og hvað var gert við búkhárið? Hvað var gert við júgurskinn og útnára á kýrhúðum? En höfuðleður nauta (haft í skæði eða rist í ólar t.d.)? 

Hvað var gert við nautssinina (hert í keyri, reipissila eða notuð á annan hátt)? 

Hvar og hvernig var seymi tekið úr nautgripum?

Hvernig var það verkað? Til hvers var það einkum notað? Var hægt að vinna seymi úr vélinda? 

Var blaðran alltaf hirt, hvernig var hún verkuð og til hvers notuð? 

Var milti (milta) notað til þess að spá fyrir vetri og þá hvern­ig? 

Hvað var gert við kálfslegið?

Kálfar

Hvað kallaðist fóstur í kálffullri kú, sem felld var (aplakálfur eða annað)? Var óborinn kálfur nokkurn tíman notaður til matar og þá hvernig matreiddur? Var óborinn kálfur fleginn með venjulegum hætti eða tekinn af honum belgur? 

Voru ungkálfar teknir úr karinu undir hnífinn?  Var sagt um kálfa, sem bauluðu við blóðtrog, að þeir bæðu um líf? Nægði það til lífs? 

Hvernig var kálfsblóð hagnýtt (gerður úr því blóðgrautur eða villibráð)? Lýsið slíkri matargerð. 

Voru kálfar flegnir samdægurs og þeir voru skornir? Var um það rætt, að dauðir kálfar fitnuðu í skinninu og þá hve lengi? 

Hvernig var kálfum komið fyrir á meðan á fláningu stóð? 

Hvernig var gengið frá kálfsvinstri til hleypisgerðar? 

Voru öll innyfli önnur notuð ný til matar? 

Hvernig var garnostur gerður? Var hann einkum ætlaður fjóskonu til glaðnings eða þeim, sem tók á móti kálfinum, og þá með nokkru skilyrði? 

Var kálfskjöt nokkurn tíman hengt upp til reykingar? 

Var nýrnabein alltaf skammtað sem bóndabiti og hvernig var það hlutað úr krofi? Var einhver samsvarandi hluti kallaður konubiti, og ef svo var, hvað áttu hjónin að hafa unnið til að fá þessa bita?

 Voru brjóskflögur við langlegg kálfa nefndar sérstöku nafni (kerlingareyra t.d.)? Gegndi sama máli um brjósk á kindaleggjum? 

Hvað var gert við höfuðleður af kálfshausum (notað í fiskiólar, móttök, gagntök o.s.frv.)?

HROSS

 Hvað felst í hugtakinu "að ganga sér til húðar" og orðinu húðar­klár? 

Voru orðin "að slá af" og afsláttarhross almennt notuð um hross sem eyða átti? Þekktist orðið niðurlagshross og þá í hvaða merk­ingu? 

Hvað var það kallað, þegar hross voru slegin af vegna feitarinnar ("að slá af til ljósa" eða annað)? Hvað var gert við hrossakjöt, þegar aðeins var slegið af til ljósa (grafið niður eða kastað fyrir hund og hrafn)? 

Voru hundar skammaðir á þennan hátt: "Svei þér, þú hefur étið folald"? 

Hvenær var fyrst farið að nota hrossakjöt til manneldis? Hvaða álit var haft á þeim mönnum, sem þar riðu á vaðið? Gengu þeir undir nokkru sérstöku nafni? Hvernig var verkun hrossakjöts háttað? Hvað nefndist þefur af illa verkuðu hrossakjöti (hrælykt eða annað)? 

Hvað var gangverð á afsláttarhrossum, áður en notkun hrossakjöts varð almenn? Þekktist það að afsláttarhross væru látin af hendi fyrir það eitt að skila hánni fullverkaðri? 

Hvernig voru hross slegin af?  Lýsið  mismunandi aðferðum við dráp þeirra og greinið frá hver var algengust. Hvenær var byrjað að nota byssur við dráp hrossa og annarra stórgripa? 

Var hrossablóð hirt í blóðmör eða til annarra nota? 

Er hið sama að segja um fláningu hrossa og nautgripa? Hvað var það almennt kallað að gera hross til ("að birkja" eða var það aðeins notað um fláningu)? 

Hvernig var hrossabræðingur búinn til?  Var hrossakjöt, eða nokkuð af afurðum hrossa, notað til lækninga, svo að vitað sé? 

Hvernig var verkun á hrosshám háttað? Voru hrosshár notuð í skæðaskinn eða til annars? Hvað var gert við búkhár hross­a? 

Voru hrosshausar flegnir? Þekktist það að blesan frá nösum upp á enni væri skilin eftir óflegin? Hét hún skollablesa eða annað? Hvað gat leitt af því að skollablesan var flegin? 

Hvaða not höfðu menn af hrossbeinum (leggir bútaðir á netateina, ísleggir o.s.frv.)?  Voru hrosshófar notaðir til smíða (í hár­greiður, kamba og sylgjur t.d.)? 

Segið frá öðru, sem sérstætt var við slátrun hrossa og hagnýtingu þeirra.

/